11.12.1972
Neðri deild: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. þetta var rætt á nokkrum fundum allshn., og voru fengnir þangað forstöðumaður Landhelgisgæzlunnar, Pétur Sigurðsson, og ráðuneytisstjórinn í dómsmrn., Baldur Möller. Það kom fram í umr. við þessa menn, að það hefði verið farið að öllu leyti eftir ósk Landhelgisgæzlunnar í þessu máli. Það blasti við, þegar landhelgin var færð út, að sá skipakostur, sem Landhelgisgæzlan hafði til umráða, mundi alls ekki vera nægjanlegur, enda var með útfærslunni stækkaður sá gæzluflötur, sem þurfti að skoða, hann þrefaldaðist, úr 75 þús. ferkm í 216 þús. Það var athugað bæði hérlendis á vegum Landhelgisgæzlunnar og eins erlendis, hvort væri hægt að fá skin til kaups eða leigu, og að mjög athuguðu máli þótti þetta bezti kosturinn, sem fyrir hendi væri. Af þessum ástæðum var leitað eftir því, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann lagði málið fram hér í d. við 1. umr., að forstöðumaður Hvals h/f var ekki fáanlegur til að leigja skipin, og þess vegna voru þessi brbl. gefin út. Það kom fram í viðtali við Pétur Sigurðsson, forstöðumann Landhelgisgæzlunnar, að hann taldi, að það væri mjög nauðsynlegt, að þessi brbl. væru staðfest hér í hv. Alþ.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., fékk n. leigusamninginn við h/f Hval, og hefur n. haft aðstöðu til að kynna sér hann. Kemur fram í leigusamningnum, að hann er í raun og veru ekki nema til 1. maí, þ.e.a.s. báðir aðilar þurfa að segja um það fyrir 1. marz, hvort leigan eigi að halda áfram, og það kemur í ljós í samningnum, að sú leiguupphæð, sem samið var um, mundi ekki verða óbreytt nema til 1. maí n.k. eða þangað til hvalveiðivertíðin hefst, ef Landhelgisgæzlan hefur skipið áfram.

Eins og kemur fram í þskj., varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til. að frv. verði samþ. óbreytt. Minni hl. vill vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá. N. hafði nokkra fundi um málið af þeim ástæðum, að hún vildi freista þess að fá samstöðu um það, þar sem þetta er mjög viðkvæmt mál. En því miður tókst ekki að ná samstöðu, og klofnaði n. um málið, þó að það væru gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að ná samkomulagi, og það harma ég.