25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

348. mál, vegagerð í Mánárskriðum

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör hans, þótt ég væri að sjálfsögðu ekki ánægður með þau að öllu leyti, en niðurlagsorð hans voru á þann veg, að hann mundi beita sér fyrir því, að við gerð vegáætlunar mundi fjárhæð verða tekin inn, sem nægja mundi til að gera þessa rannsókn. Úr því sem komið er, verður þessi rannsókn og athugun ekki gerð á þessu ári hvort eð er, og þess vegna má kannske segja, að við getum látið það liðna liggja á milli hluta. En meginatriðið er, að samkv. upplýsingum hans má gera ráð fyrir, að þessi áætlun fari fram á næsta sumri.

Ég vil geta þess hér, þótt hv. þm. sjálfsagt flestir viti það, að það er gífurlega mikilvægt mál að breyta vegarstæðinu á örstuttum kafla á Siglufjarðarvegi. Þar liggur vegurinn langt uppi í fjall og þar festir snjó í fyrstu snjóum á haustin. Þessi dýra og mikla framkvæmd og merka, Siglufjarðarvegur og Strákagöng, nýtist þess vegna ekki nægilega vel, og oft og tíðum er samgöngulaust við Siglufjörð að vetrarlagi aðeins vegna þess, að þarna skortir nokkur hundruð metra vegakafla, sem að vísu er vafalaust dýr, en áreiðanlega verður lagður fyrr eða síðar.