11.12.1973
Neðri deild: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

153. mál, launaskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að andmæla því, að þetta frv. nái fram að ganga. Við þm. Alþfl. getum á það fallist, að þau lagaákvæði, sem í því felast, verði framlengd. En frv. er í raun og veru aðeins framlenging á lagaákvæðum, sem gilt hafa um alllangt skeið.

Ég kveð mér hins vegar hljóðs til þess að vekja athygli á því og finna að þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð. Skýring hæstv. ráðh. á því, að slíkt frv. skuli lagt fram 11. des. er engan veginn viðunandi. Það er óafsakanleg vanræksla af hálfu ríkisstj. að vera svo síðbúin með jafneinfalt frv. og hér er um að ræða. Það eru 10 starfsdagar eftir af Alþ. Mætti segja, að þetta kæmi ekki að sök, ef Alþ. hefði ekki sérstökum störfum að sinna þá 10 daga, sem það á eftir að sitja til jóla. En í gær er útbýtt á Alþ., frv. eins og þessu, sem allir hv. þm. kunnast við, frv. til l. um tollskrá, sem er hvorki meira né minna en 216 bls., og ákvæði þess frv. eiga að taka gildi 1, jan. Að sjálfsögðu dettur fjmrh. ekki í hug, að Alþ. geti afgreitt þetta frv. á þeim 10 dögum, sem eftir eru af starfstíma þingsins fyrir jól, enda mun vera tilætlunin að fresta afgreiðslu þess, en láta það samt gilda frá 1. jan. n. k. Og einmitt af því, að frv. á að gilda frá 1. jan. n. k., er nauðsynlegt, að þm. kynni sér málið vandlega á þeim 10 dögum, sem eftir eru, þangað til jólaleyfi þm. hefst.

Látum þetta allt saman vera, ef ekki væri þannig ástatt á Alþingi Íslendinga í dag, 11. des. 1973, að fjvn. var síðdegis í gær að ljúka störfum við að undirbúa 2. umr. fjárl. Hún mun hafa haldið síðasta fund sinn fyrir 2. umr. kl. 5 síðdegis í gær. Tilætlunin mun vera, að fjárl. komi til 2. umr. á morgun. Störfum n. er þó ekki lengra komið en svo, að þegar fundi n. lauk í gær, var ekki búið að leggja saman útgjaldahlið fjárl. Það lá ekki fyrir í fundarlok hver heildarútgjöld fjárl. við 2. umr. mundi verða. N. mun hafa samþykkt brtt., sem hækka fjárl. um 650 millj. kr., og mun ýmsum hafa þótt þau nógu há fyrir. En sem sagt, óðagotið er orðið svo mikið, að þegar n. lýkur störfum, liggja ekki fyrir heildarniðurstöður um það, hver muni verða útgjöld fjárl. eftir 2. umr., ef till. ríkisstj. og n. verða samþ.

Sagan er ekki öll sögð með þessu. Það versta er eftir. Ég minni á það, að ca. 10 dagar eru eftir af starfstíma þingsins fyrir jól og engar till. af hálfu ríkisstj. liggja fyrir fjvn. um tekjuöflun til að mæta þeim 27–28 milljörðum, sem útgjöld fjárl. munu verða komin í við 2. umr. málsins. M. ö. o. 10 dögum áður en jólaleyfi þm. hefst hefur ríkisstj. enn enga hugmynd um það, hvernig hún ætlar að afla sér þeirra 27–28 milljarða kr., sem útgjöld fjárl. munu auðsjáanlega verða a. m. k. Þetta verkefni er þm. ætlað að fjalla um á síðustu 10 dögum þingsins. Þegar þannig háttar, kemst maður ekki hjá því að láta í ljós undrun sína yfir því, að annars vegar skuli ekki koma fram fyrr en núna einföld og sjálfsögð mál eins og frv. um launaskattinn, sem vandalaust hefði verið að leggja fyrir í byrjun þingsins, og svo hins vegar að láta í ljós undrun yfir því, að stórmál eins og tollskráin skuli ekki koma fram fyrr en 10 dögum áður en þingi lýkur fyrir jól.

Það er að vísu satt, að ýmislegt hefur áður tíðkast um seinvirk vinnubrögð af hálfu ríkisstj. á fyrri hluta Alþ. En ég held, að hér sé slegið algert met í sögu Alþingis um slæleg vinnubrögð og ekki verði komist hjá að átelja það harðlega. Þetta getur engin ríkisstj. leyft sér að bjóða hinu háa Alþ., og á þessu verður að vekja athygli. Ég nota þetta einfalda tilefni til þess að gera það, af því að mér finnst það vera dæmi um slóðaskap, beinan slóðaskap. Þetta hefði verið hægt að gera fyrir tveimur mánuðum. Ég get skilið það, að frv. til l. um tollskrá sé síðbúið. Þar er um að ræða mjög vandasamt verk tæknilega, sem auðvitað hefur tekið langan tíma að undirbúa, og kunna að vera á því eðlilegar skýringar, að embættismönnum hafi ekki unnist tími til að ganga frá frv. fyrr en þetta, og mun ég taka skýringar um það gildar. En að því er varðar fjárlagaafgreiðsluna sjálfa, þ. e. að málið skuli svo síðbúið, að ekki sé hægt að leggja saman útgjaldahlið brtt. og fjárlagafrv., áður en n. lýkur störfum, og þó einkum og sér í lagi hitt, að bókstaflega engar till. skuli liggja fyrir um, hvernig afla eigi nauðsynlegra tekna, það tel ég stórlega ámælisvert og nauðsynlegt að vekja sérstaka athygli á því. Það ber vott um sundurlyndi í ríkisstj. Það ber vott um, að ríkisstj. er í raun og veru hætt að stjórna landinu.