11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

387. mál, Aðaldalsflugvöllur og flugsamgöngur við Kópasker

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi : Eru uppi fyrirætlanir um endurbætur á Aðaldalsflugvelli?

Því er til að svara, að endurbætur vegna flugvallarins í Aðaldal hafa einkum verið á sviði öryggismála. Um s. l. áramót var lokið við breytingar á blindflugskerfinu, þannig að nú eru nothæfir tveir radíóvitar, báðir staðsettir suður af vellinum. Í sumar voru gerðar nauðsynlegustu endurbætur á yfirlagi flugbrautarinnar. Og í októbermánuði var lokið uppsetningu aðflugsljósa við báða enda flugbrautarinnar, svo og lagningu rafstrengja fyrir fullkomin flugbrautarljós og svonefnd aðflugshallaljós, er sýna flugmanni rétta hæð til flugs. Á næsta sumri er gert ráð fyrir að ljúka uppsetningu framangreinds ljósaútbúnaðar, lengja flugbrautina um 200 m, þ. e. a. s. úr 1350 m í 1550 m, sem þýðir það, að flugvöllurinn er þá öruggur til kvöld- og næturflugs allan ársins hring, og enn fremur að bæta enn yfirborð flugvallarins. Þá er enn fremur ætlunin að breyta aðkeyrslu að flugvellinum og stækka bifreiðarstæði og flugvélarhlaðið svo og ganga frá tilskildum öryggissvæðum umhverfis flugbrautina.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að sú fjárveiting, sem flugmálastjórnin og samgrn. hafa lagt til, 11.2 millj., rúma það ekki, að hafist sé handa, a. m. k. ekki að neinu marki og sennilega ekki, að því að bæta aðstöðu hvað flugskýlið snertir. En með tilliti til þess, að hér er um mjög stóran flugvöll að ræða, sem á áreiðanlega mikla framtíð fyrir sér, þá er þar um stórar upphæðir að ræða, sem því miður hafa ekki rúmast í þeirri fjárlagagerð, sem talin er möguleg í sambandi við fjárfestingar í flugvöllum. En það hefur verið látið sitja fyrir að stækka völlinn og koma öryggisútbúnaði þar í besta hugsanlegt horf.

Varðandi Kópaskersflugvöll, þá er það rétt, sem einnig kom fram hjá fyrirspyrjanda, sem tók eiginlega ómakið af mér að svara þessari fsp., að flugferðir Flugfélags Íslands til Kópaskers lögðust niður, þegar flugvöllurinn á Raufarhöfn komst í nothæft ástand. Og það er sjálfsagt rétt, að vegna þessa gætir nokkurrar óánægju. En það, að Flugfélagið lagði niður þessa áætlanaleið sína, stafar af því, að þarna fer mjög fátt fólk um og þess vegna er ekki hagstætt fjárhagslega að lenda þar stórum flugvélum. Þar kemur líka til, að það er a. m. k. ekki vinsælt hjá farþegum flugvéla, að þeim sé hnjaskað í tvennum millilendingum á ekki lengri leið en þarna er um að ræða.

Ég get fullyrt, að bæði hjá flugmálastjórn og samgrn. er fullur vilji fyrir því að aðstaða á slíkum stöðum sem Kópaskeri sé bætt eins fljótt og eins vel og unnt er. Og ég tel að sá háttur, sem hefur verið upp tekinn, að tryggja flug tvisvar í viku milli Akureyrar og Kópaskers með flugvélum Norðurflugs, bæti verulega úr, þó að það kunni að vera rétt, að það sé ekki fullnægjandi.

Stjórnvöld, sem með þessi mál fara, hafa það auðvitað ekki á valdi sínu að skylda flugfélög, hvorki Flugfélag Íslands né önnur, til þess að halda uppi ákveðnum áætlanaferðum, sem mikið tap er á, og þess vegna er málið dálítið erfitt. Hef ég oftar en einu sinni rætt þetta við forráðamenn Flugfélags Íslands, og þeir hafa í athugun að staðsetja flugvél á Akureyri, sem væri þá ætlað sérstaklega það hlutverk að ná samhengi í flugsamgöngurnar með því að halda uppi nokkuð tíðum ferðum milli Akureyrar sem aðalendastöðvar flugsins og hinna smærri staða. Það hefur ekki enn orðið af framkvæmdum í þessu, en góðar vonir hygg ég, að standi til þess, að úr þessu rætist, Flugfélagið komi upp góðri flugvél og hentugri til þessa verkefnis og hafi hana staðsetta á Akureyri. Ætti þá málefnum þeirra byggðarlaga, sem næst eru Kópaskeri, að vera betur borgið en nú er. En á þessari stundu get ég því miður ekki gefið nein ákveðin fyrirheit um þetta, enda ekki á mínu valdi að framkvæma það, sem framkvæma þarf í þeim efnum.