12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

1. mál, fjárlög 1974

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. form. fjvn., hefur n. alls rætt fjárl. frv. á 42 fundum sínum. Það kemur fram í nál. meiri hl. á þskj. 214, að n. bárust nokkuð á sjötta hundrað erindi, og er því augljóst mál, að enn bíða afgreiðslu hjá n. fjölmörg erindi, sem hún hefur ekki tekið endanlega afstöðu til.

Eins og fram kom í umr. um fjárlagafrv. við 1. umr. málsins, þá mun það reynast rétt, að niðurstöðutölur fjárlaga fyrir árið 1974 verða ekki langt frá 30 milljörðum kr. Með þeim brtt., sem um er að ræða á þskj. 204, hækkar gjaldabálkur frv. um 660 millj., eins og þegar hefur komið fram, og eru þá niðurstöðurnar komnar nokkuð yfir 28 milljarðar. Eins og viðurkennt er, þá er um stórar fjárupphæðir að ræða, sem enn munu bætast við, og eru þær stærstar í sambandi við trygginga- og launamálin, en eins og kunnugt er, þá eru kostnaðarliðir frv. byggðir á verðlagi miðað við 1. sept. s. l. að mestu leyti, en þó t. d. hjá Pósti og síma er verðlagsgrundvöllurinn miðaður við vísitölu eins og hún var hinn 1. mars s. l. Sjá allir, að hér er um óraunhæfar tölur að ræða, sem endurskoða verður fyrir 3. umr. fjárlagafrv.

Varðandi launaliði er óhjákvæmilegt að hækka útgjöld um nokkuð á 5. hundrað millj. kr., þó að aðeins sé lögð til grundvallar sú 7% vísitöluhækkun, sem átti sér stað hinn 1. des. s. l. Þá er vitað, að enn frekari hækkanir verða, eins og fram hefur komið í umr., þegar gengið hefur verið frá samningum við opinhera starfsmenn, en þeir samningar standa nú yfir, sem kunnugt er. Ríkisstj. hefur nú upplýst, að hún hafi boðið um 7% grunnkaupshækkun, en sagt er, að opinberir starfsmenn hafi slakað til niður í 12%. Þá er vitað, að það kom reyndar skýrt fram í viðræðum, sem fjvn. átti við forstöðumenn hagrannsóknadeildarinnar í þessari viku, að enda þótt engin kauphækkun ætti sér stað í sambandi við þá samninga, sem nú standa yfir við opinbera starfsmenu og yfirleitt allt launafólk í landinu, þá mundi óðaverðbólgan halda áfram að vaxa, ef ekkert verður að gert til að breyta þeirri þróun og nýjar sjálfkrafa hækkanir eiga sér stað aftur hinn 1. mars og síðan 1. júli og koll af kolli. Það er hins vegar vitað, að hjá því verður ekki komist að veita a. m. k, þeim lægst launuðu nokkra kjarabót, hvort sem grundvöllur er fyrir því af hendi atvinnuveganna eða ekki. Hins vegar er það upplýst, eins og ég sagði áðan, að ríkisstj. mun hafa boðið 7% kauphækkun til opinberra starfsmanna, og er þá um svipaða hækkun þar að ræða og átti sér stað hinn 1. sept. s. l. Hverjar niðurstöður verða í sambandi við endanlega samninga við opinbera starfsmenn, verður enn ekki sagt, en það má telja ekki ósennilegt, að það verði um einhverja tölu að ræða, sem er þarna á millibilinu milli 7% og 12%.

Það má því telja eðlilegt, að nú verði eins og 1971, þegar eins stóð á, — en þá stóðu samningar yfir við opinbera starfsmenn, — skilinn eftir greiðsluafgangur á greiðsluyfirliti ríkissjóðs, en þá nam hann rúmlega 270 millj. kr. Ef hliðstæð fyrirhyggja verður viðhöfð við afgreiðslu þessa frv. nú og gert var 1971, ætti greiðsluafgangur á greiðsluyfirliti ríkissjóðs að vera nú ekki undir 800 millj. kr. aðeins til að jafnast á við það, sem átti sér þá stað, og bara til þess að vera raunhæfur í sambandi við það, sem má segja, að þegar sé vitað í sambandi við væntanlega samninga. Það er ekki lítil upphæð, sem þarna er um að ræða og gera verður ráð fyrir, að ríkisstj. muni leggja til að það verði greiðsluafgangur á greiðsluyfirliti fjárlaganna, þegar þau verða afgreidd nú við 3. umr.

Nú var það hins vegar svo 1971, og það kann einnig að verða svo, þó að tekin yrði til greina slík upphæð eins og ég hef hér nefnt, að þrátt fyrir þá fyrirhyggju, sem sýnd var þá, 1971, nægði það engan veginn til þess að mæta þeim aukna kostnaði, sem af samningsgerðinni leiddi þá.

Þá er það annað, sem vert er að hafa í huga við afgreiðslu fjárlagafrv., en það eru þær kröfur, sem launastéttir þjóðfélagsins hafa gert á hendur ríkisvaldinu varðandi leiðréttingu á skattpíningunni. Hæstv. fjmrh, talaði hér langt mál við 1. umr. um fjárlagafrv. Hann vildi sýna fram á, að það væri síður en svo ástæða til þess að kvarta undan sköttunum. Hann var með fjölmarga útreikninga, sem áttu að sýna, að þetta væri ekki eins vont og af væri látið. Við þessa umr. las ég upp samþykkt, sem þá nýlega hafði verið gerð í verkalýðsfélaginu Jökli á Snæfellsnesi, þar sem því var lýst yfir, að beita yrði þeirri aðferð til að knýja fram úrbætur í skattamálum fiskvinnslufólks, að félagið legði bann við allri nætur- og helgidagavinnu hjá fiskvinnslufyrirtækjunum, og kæmi sú samþykkt til framkvæmda með viku fyrirvara, ef ekki næðist viðunandi lagfæringar á skattalögunum, um leið og gengið yrði frá væntanlegum kjarasamningum. Fólkinu er orðið ljóst, að hátt kaup og fleiri kr. koma að litlu haldi í því verðbólguflóði, sem nú á sér stað, þegar þar við hætist, að auknar kjarabætur renna að stórum hluta sjálfkrafa í ríkissjóð í gegnum skattakerfið.

Það hefur verið yfirlýst stefna Sjálfstfl. í skattamálum, að almennar atvinnutekjur, þ. e. dagvinnukaup skv. Dagsbrúnartaxta ásamt 2 eftirvinnustundum, ættu að vera algjörlega tekjuskattsfrjálsar. Það er líka eftirtektarverð sú upplýsing, sem fram kemur í nál. fulltrúa Sjálfstfl. í fjvn. varðandi þróun þessara mála í tíð vinstri stjórnarinnar, bæði fyrr og nú, og hins vegar þá miklu breytingu, sem átti sér stað, þegar viðreisnarstjórnin tók við eftir fall vinstri stjórnarinnar fyrri. Þar eru tölur, sem tala skýru máli.

Í stjórnarsáttmálanum, Ólafskveri, sem allir eigi tekjuöflunarleiðir hins opinbera með það fyrir augum, að skattabyrðinni verði dreift réttlátlegar niður en nú er gert. Oft hefur heyrst talað um breiðu bökin, að þau eigi að bera skattana. En ætli það sé ekki algert einsdæmi, að jafnstór hluti af skattgreiðendum og hér á sér stað lendi í hæsta skala skattstigans. Það er talið, að af þessum stóra hópi skattgreiðenda, sem á yfirstandandi ári greiða tekjuskatt til ríkissjóðs, muni um 75% þeirra lenda með hluta af tekjum sínum í hæsta skattstiga, sem undir venjulegum kringumstæðum er flokkað undir stórgróðamenn og braskara. Þannig er þá staðreyndin varðandi þá endurskoðun, sem boðuð var í stjórnarsáttmálanum, að komið skyldi á til þess að leiðrétta það ófremdarástand, sem að þeirra dómi væri fyrir hendi.

Því er stundum haldið fram, að ekki megi koma til þess að mismuna mönnum í sköttum eftir því, hvaða störf fólk vinni. Íslendingar hafa þó viðurkennt, að slíkt geti átt rétt á sér, og í framkvæmd hefur verið um skattaívilnun að ræða hjá sjómönnum. Það er að sjálfsögðu með tilliti til þess, hvað sjávarútvegsframleiðslan gegnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi og við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, að ekki verður hjá því komist að láta það fólk, sem fiskvinnslustörf vinnur, fá nokkur hlunnindi í gegnum skattaálögur. Það verður að tryggja sjávarútveginum nauðsynlegan vinnukraft, ef hann á ekki að verða undir í samkeppninni við aðrar þýðingarminni atvinnugreinar um nauðsynlegt vinnuafl. Í því skattalagafrv., sem Sjálfstfl. hefur lagt fram, er gert ráð fyrir því, að til slíkra ívilnana þurfi að koma og hafi þá stjórnvöld vald til þess að gera þá leiðréttingu, sem nægir til að tryggja sjávarútvegsframleiðsluna.

Það fer ekki hjá því, þegar maður les nál. meiri hl. fjvn., að maður verði var við, að mennirnir finna til sín og sýnist, að verk þeirra séu harla góð. Það er eðlilegt, að stjórnarherrarnir geti státað af einhverju varðandi hækkun á fjárframlögum til ýmissa framkvæmda, eftir að þeir hafa hækkað fjárlögin um hvorki meira né minna en 20 þús. millj. kr. á 2½ ári. Það er eins og það séu einhver afrek að hafa getað lagt fram eitthvað meira en áður til hinna einstöku málaflokka. Það er vitnað til þess, sem fjármagnað er með venjulegum fjárveitingum, til þess að sanna, hvað munurinn sé mikill. Það er gengið svo langt, t. d. í hafnamálunum, að nota sér það óhapp, sem þjóðina henti vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum á yfirstandandi ári og leiddi til óhjákvæmilegra hafnarframkvæmda, þótt það sé einnig framkvæmt með erlendu lánsfé. Ég hygg, að íslendingar allir hefðu heldur kosið að hafa minni hafnarframkvæmdir í næstu fjárlögum og að í stað þess hefði ekki komið til náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum.

Í sambandi við óafgreidda málaflokka má minnast á ríkisspítalana. Ég gat þess við 1. umr. fjárlaganna, að skv. upplýsingum læknaráðs ríkisspítalanna vantaði um 262 nýja starfsmenn til sjúkrahúsanna, og þar af um 90 manns á Fæðingardeildina eina, en viðbót við hana er, sem kunnugt er, að taka til starfa um þessar mundir. Enn sem komið er hefur ekkert verið rætt um þetta vandamál eða hvaða tökum það verður tekið. Það er því augljóst mál, að hér er um allstóra fjárhæð að ræða, sem ekki verður komist hjá að samþykkja. Ég vil einnig segja, að þær upplýsingar höfum við fjvn.-menn fengið á milli umræðna hjá forstöðumönnum ríkisspítalanna, bæði læknum og öðrum framámönnum, að á yfirstandandi ári hafi hluti af sjúkrarými Landsspítalans staðið ónotaður um lengri tíma vegna skorts á starfsfólki, en það verður að telja mjög alvarlegt mál. Við erum alltaf að tala um, að enn vanti ný og ný sjúkrahús, og vissulega er það rétt, þegar tillit er tekið til þess, að alltaf eru fyrir hendi fjölmargir sjúklingar, sem eru á biðlista og bíða eftir sjúkraplássi. En það kemur að litlu gagni að fá ný sjúkrahús, nema jafnframt sé séð fyrir því, að nægir starfskraftar séu fyrir hendi. Hér er sem sagt um verulegan útgjaldalið að ræða, sem ekki verður komist hjá að taka fullt tillit til við endanlega afgreiðslu málsins.

Að öðru leyti vil ég segja það um hlut ríkisspítalanna í þessu fjárlagafrv., sem ber á sér öll einkenni á óðaverðbólgu, að þar er ekki af miklu að státa fyrir núv. stjórnarflokka, að á sama tíma og byggingarvísitalan hefur hækkað um 33% og fjárlög hækkað um allt að 8–9 þús. millj. kr., þá skuli aðeins vera til ráðstöfunar nýtt fjármagn til byggingarframkvæmda fyrir ríkisspítalana umfram það, sem er í fjárlögum yfirstandandi árs, um 12 millj. kr., eða sem næst 11–12% hækkun.

En þrátt fyrir þá stórauknu þenslu og síaukin útgjöld í ríkisbákninu, sem þetta fjárlagafrv. er gleggst dæmi um, er samt að finna tilburði hjá ríkisstj. í frv. til að draga úr útgjöldum ríkisins. Til þess að hamla nokkuð gegn óðaverðbólgunni hefur núv. ríkisstj., — og það gerði fyrrv. ríkisstj. einnig, — gripið til þess að greiða niður verðlag á nauðsynjavörum og jafnframt að greiða barnafjölskyldum vissar fjölskyldubætur með hverju barni. Þessar ráðstafanir hafa á vissan hátt hamlað á móti vísitöluhækkunum og þannig hægt skriðið eða dregið úr áhrifum verðhækkana. Og það eru þessir liðir fjárlaganna, sem á nú að spara. Ákveðið er að lækka fjölskyldubætur um 250 millj. kr., en af því leiðir, að vísitalan hækkar um hátt á annað vísitölustig og að öðru leyti lækka fjölskyldubætur um 3500 kr. með hverju barni. Þá er í frv. gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur á nauðsynjavörum lækki um 500 millj. kr. frá þeirri viðmiðun, sem var hinn 1. sept. s. l. Sé gert ráð fyrir því, að hvert vísitölustig á landbúnaðarvörum kosti 180 millj. kr., en það fer nokkuð eftir því, hvaða vörur eru teknar, en alla vega er það ekki langt frá því. Þá mun þessi lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði leiða til hækkunar á vísitölunni, sem nemur tæpum 3 vísitölustigum. Þannig fer ekki hjá því, að þessar ráðstafanir til samans hafi þau áhrif á verðbólguna, að vísitalan hækki um sem næst 4–5 vísitölustig.

Hér á sjálfsagt að vera að finna úrræði stjórnarflokkanna til þess að standa við fyrirheitin, sem birt voru í Ólafskveri, þ. e. að verðbólgan skuli ekki hækka meira hér en sem svarar því, sem á sér stað í nágrannalöndunum. Það dæmalausa stjórnleysi, sem nú á sér stað í íslenskum efnahagsmálum, mun vart eiga sér nokkurn líka, og láta mun nærri, að verðbólgan hér sé a. m. k. 2–3svar sinnum meiri en gerist mest hjá nágrannaþjóðunum. Það, sem hefur hjálpað ríkisstj. til að halda þjóðarbúinu á floti, þrátt fyrir allt stjórnleysið, er ekkert annað en hið einstaklega góða árferði, sem verið hefur óslitið, síðan núv. stjórnarflokkar tóku við stjórnartaumunum. Það liggur við, að sumir úr stjórnarherbúðunum vilji halda því fram, að íslenska þjóðin hafi nú brynjað sig svo vel fyrir áföllum, að engin hætta sé á því, að ný kreppa geti komið. Vissulega hefur það mikið að segja, að íslendingar hafa stóraukið sín atvinnutæki og þá sérstaklega í sjávarútveginum. En sú aukning, sem þar hefur átt sér stað, er síður en svo að öllu leyti núv. ríkisstj. að þakka. Það var fyrst og fremst því að þakka, að afturbati var kominn hjá sjávarútveginum á árunum 1970 og 1971, sem leiddi til þess, að fyrrv. ríkisstj. beitti sér þá fyrir samningum um byggingu nýrra fiskiskipa, bæði skuttogara og annarra fiskiskipa, á þeim árum, og hefur sú þróun haldið áfram síðan.

Í aths. við fjárlagafrv. segir, að gert sé ráð fyrir, að hækkun söluskatts um 2% komi til framkvæmda frá og með næstu áramótum. Gert er ráð fyrir, að þessi hækkun söluskattsins muni færa ríkissjóði um 1200 millj. kr. Fjárlagafrv. er nú komið til 2. umr. og örfáir dagar, þangað til þinghlé kemur fyrir jól. Samt sem áður bólar ekki á neinu lagafrv., sem á að tryggja þessa fjáröflun. Ég tel því, að sýnilegt sé, að þessi umrædda löggjöf, sem tryggja á hvorki meira né minna en nokkuð á annan milljarð kr., verði ekki lögfest, þannig að gjaldstofninn verði virkur, eins og boðað hefur verið, strax við næstu áramót. Það er því ekki óeðlilegt að spyrja hæstv. fjmrh., hvað hann ætlist fyrir í þessum efnum.

Ég vil að lokum segja, að allt bendir til þess, að þessi ríkisstj. leiði þjóðina út í sömu ófæruna í efnahagsmálum og hin fyrri vinstri stjórn gerði á árunum 1956–1958. Ríkisstj. tók við blómlegu búi. Hún hefur allan tímann, síðan hún tók við arfinum, búið við óvenju hagstætt árferði. Ríkisstj. hefur ekki notað hið góða árferði til þess að treysta efnahagsgrunn þjóðfélagsins. Þvert á móti hefur hún siglt þöndum seglum í átt til enn meiri óðaverðbólgu með hverju árinu, sem liðið hefur. Það er einmitt vegna þessarar stjórnlausu verðbólguþenslu, sem ríkisstj. er byrjuð að missa áhöfnina fyrir borð. Einn fyrrv. liðsmaður stjórnarinnar, hv. þm. Bjarni Guðnason, hefur sagt skilið við stjórnarliðið og boðar nú, að hann skuli gera sitt til að forða þjóðinni frá þeim ófögnuði í efnahagsmálum, sem hann lýsti svo á fjölmennum fundi nú um síðustu helgi: Að efnahagsástand þjóðarinnar væri nú komið út í slíkt ófærufen, að íslensk tunga ætti ekki til neitt svo sterkt lýsingarorð, að nægði til að lýsa þeirri óðaverðbólgu, sem nú ætti sér stað. — Samt er þessi hv. þm. prófessor og magister í norrænni tungu.

Á stjórnarheimilinu virðist allt í uppnámi. Aðalstjórnarblöðin senda hvort öðru tóninn með alls konar brigslyrðum, og er skemmst að minnast þess, sem fór fram milli blaðanna núna nýlega í sambandi við varnarmálin. Að öðru leytinu grípur hver ráðherrann fram í fyrir öðrum og flytja málin í þinginu í nafni síns rn. og það enda þótt málið, sem flutt er, sé í verkahring annars ráðherra. Það sagði mér einn hv. þm. í stjórnarliðinu, sem hefur að baki sér langa reynslu á Alþ., að þessi vinnubrögð, sem hér hefðu átt sér stað, væru algert einsdæmi í þingsögunni.

Um fjárlagafrv. vil ég svo að lokum segja það, að hafi ríkisstj. ekki nægan þingmeirihl., eins og allt bendir til að hún hafi ekki, til að tryggja framgang nauðsynlegra fjáröflunarlaga, sem hún hefur boðað, að hún muni flytja, þá er grundvöllurinn undir þessu fjárlagafrv. brostinn og ríkisstj. ber að segja af sér.