18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

136. mál, grænfóðurverksmiðjur

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Í l. nr. 45 frá 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins o. fl., eru í fyrsta skipti sett í lög ákvæði um grænfóðurverksmiðjur. Á grundvelli þeirra l. starfaði samstarfsnefnd frá Búnaðarfélagi Íslands og Landnámi ríkisins, sem gerði drög að áætlun um byggingu nýrra grænfóðurverksmiðja. Landbrh. staðfesti áætlun um þetta efni með bréfi hinn 2. júní 1972, þar sem fram kemur, að byggðar skuli þrjár nýjar grænfóðurverksmiðjur á næstu 8 árum, eins og þar segir: í Hólminum í Skagafirði, í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu og í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Lítilsháttar hefur verið unnið að undirbúningi þessara framkvæmda. Hins vegar hafa fjárveitingar verið af allt of skornum skammti, til þess að vænta megi þess, að verulegur skriður komist á þetta mál. Á yfirstandandi ári var verksmiðjan í Saurbæ í Dölum keypt af ríkinu samkv. úrskurði landbrn. Til þeirra kaupa þurfti, að ég hygg, töluvert fjármagn.

Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir, að til grænfóðurverksmiðja verði varið 14.6 millj. kr. Með hliðsjón af því, sem gerst hefur í þessum efnum, þykir mér næsta sýnt, að lítið sem ekkert fjármagn verði til að halda áfram við uppbyggingu þeirra verksmiðja, sem þegar hafa verið ákveðnar á næstu árum, ef ekki verður um aukningu á þessu fé að ræða.

Það hefur komið í ljós, að framleiðsla heyköggla hér á landi er hagkvæm, og rekstur þeirra verksmiðja, sem lengst hafa starfað að þessum málum, mun hafa gengið vel á yfirstandandi ári og raunar á fyrra ári einnig. Það er augljós nauðsyn, að unnið sé að þessu máli af fullum krafti, og fyrir liggja áskoranir og samþykktir frá ýmsum bændafundum, m. a. Stéttarsambandi bænda, um, að myndarlegt átak sé gert í þessu efni. Liggur m. a. fyrir hjá landbn. Nd. Alþ. áskorun á ríkisstj. og hæstv. landbrh. um að auka svo framlag til þessa viðfangsefnis, að unnt verði að byggja a. m. k. eina verksmiðju á ári á næstu 5 árum.

Í framhaldi af þessu hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„a. Hyggst ríkisstj. standa við eða hraða framkvæmd áætlunar um nýjar grænfóðurverksmiðjur, sem staðfest var með bréfi landbrh. 2. júní 1972?

b. Hvaða áætlanir liggja fyrir um fjármagn til þessara framkvæmda á næstu árum og heildarfjárþörf á áætlunartímabilinu?

c. Hvert var kaupverð grænfóðurverksmiðjunnar í Saurbæ í Dölum, hvaða skuldbindingar fylgdu kaupunum og hve mikið fé skorti til framkvæmda, er kaupin voru gerð, til þess að verksmiðjan gæti náð fullum afköstum?“