18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um tollskrá o. fl. Hefur verið fjallað um það á tveimur fundum n., sem báðir hafa verið haldnir, með fjh.- og viðskn. Nd. Á fundina hafa einnig komið nokkrir embættismenn, sem unnu að undirbúningi málsins, þ. á m. tollstjóri, ráðuneytisstjórinn í viðskn. og fulltrúi í fjmrn. Einnig hafa n. borist allmargar umsagnir um frv.

Það er efni þessa frv., að tollar eru lækkaðir með hliðsjón af aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningi Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Um leið og endurskoðun l. hefur miðast við það, að tollalækkunarákvæði vegna aðildar Íslands að þessum alþjóðlegu samtökum kæmu til framkvæmda, hefur verið gerð áætlun og till. um lækkun tolla á vélum og hráefni til iðanaðarins. Einnig eru í frv. nokkrar tillögur um samræmingu tolla á hliðstæðum vörum og mismunandi efnum, nýjar tili. um tolla á leigu- og sendibifreiðum atvinnubílstjóra. Einnig munu vera í frv. till. um lækkun tolla af vörutegundum, sem taldar eru viðkvæmar fyrir smygli.

Í frv. eru tollar ákvarðaðir, eins og þeim er ætlað að vera á hverju ári, frá ársbyrjun 1974 til ársloka 1976.

Í umsögn, sem n. barst frá Félagi ísl. iðnrekenda, er lögð á það mjög rík áhersla, að frv. þetta geti orðið að lögum fyrir áramót. Í umsögn iðnrekenda segir, að ljóst sé, að frv. sé nokkuð seint fram komið, þannig að hæstv. Alþingi gefist e. t. v. óvenjulega stuttur tími til athugunar á frv., og síðar segir, með leyfi hæstv. forseta, í bréfi iðnrekenda:

„En með tilliti til þess, að hér er á margan hátt um eðlilegt framhald tollskrárbreytingarinnar 1970 að ræða, svo og að náið samráð hefur verið haft við Félag ísl. iðnrekenda um þær breytingar, sem varða iðnaðinn, vill félagið mælast til þess, að frv. verði samþ. fyrir jól. Verði frv. ekki samþ., skapast óviðunandi ástand í iðnaðinum, þar sem tollar á innfluttum iðnaðarvörum lækka 1. jan. n. k. vegna samnings okkar við EFTA og EBE, en tollar á vélum og hráefnum haldast óbreyttir, e. t. v. í fleiri mánuði, eftir að tollar á fullunnum iðnaðarvörum hafa lækkað.“

Þetta vildi ég, að kæmi hér skýrt fram, að jafnvel þótt frv. sé svo seint fram komið sem raun ber vitni, er lögð á það mjög rík áhersla af hálfu iðnrekenda, að það nái fram að ganga, og á það bent, að frv. hafi verið lengi í undirbúningi og samráð verið haft við þá um undirbúning málsins.

Í fjh.- og viðskn. náðist einnig um það samstaða og fullt samkomulag að mæla með samþykkt frv., og n. stendur sem sagt í heild að meðmælum til d. um, að frv. verði afgreitt.

Í grg. frv. kemur fram, að áhrif tollalækkananna á tekjur ríkissjóðs eru töluverðar, og miðað við áætlaðan innflutning frá miðju ári 1972 til miðs árs 1973 er tekjutap ríkisins lauslega áætlað 535 millj. kr., en á grundvelli áætlaðs innflutnings 1974 um 615 millj. kr. Í grg. kemur fram, að þessum tekjumissi verði að mæta með annarri skattlagningu, eins og þar segir: „Með hliðsjón af, hvernig sama vanda var mætt við aðild Íslands að EFTA árið 1970, þykir eðlilegt að mæta tekjumissinum með söluskattshækkun. Því verður að líta á samþykkt þessa frv. sem skuldbindingu um hækkun söluskatts, sem nemur a. m. k. 1 söluskattsstigi.“

Þetta atriði málsins kom til umr. innan n., og meiri hl. n. er þeirrar skoðunar, að þar sem enginn sé góður búmaður, sem aðeins geri ráð fyrir útgjöldum, án þess að sjá fyrir tekjum, þá verði ekki undan því vikist, að inn í frv. verði sett ákvæði til bráðabirgða um heimild fyrir ríkisstj. til að afla tekna sem nemur 1% gjaldi á söluskattsstofn þeirra aðila, sem greiða söluskatt. Af þeim ástæðum var flutt sú till. í n., að við frv. bættist ákvæði til bráðabirgða, sem prentað er á þskj. 272 og fjallar um álagningu 1% gjalds á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 1960, um söluskatt, taka til.

Því miður fór það svo, að innan n. náðist ekki samstaða um þetta atriði, sem virðist svo sjálfsagt, að varla þurfi að ræða það. Minni hl. fjh.- og viðskn. gat ekki fallist á að taka þetta ákvæði inn í frv. Þetta er þeim mun furðulegra, þar sem ekki þarf ýkjagott minni til að geta rifjað upp, að þegar samþ. var aðild Íslands að EFTA á sínum tíma og núv. stjórnarandstaða var í ríkisstjórn, var það yfirlýst stefna þessara flokka, að væntanlegri tollalækkun skyldi mætt með hækkun á söluskatti. Ef þess gerist þörf, er að sjálfsögðu hægt að rifja upp ummæli, sem ganga í þessa átt og látin voru uppi ítrekað af þeim hv. þm., sem þá gengust fyrir því, að Ísland gerðist aðili að EFTA, og eiga enn sæti hér á Alþingi, sumir hverjir eiga jafnvel sæti í þessari hv. d. og einnig í hv. fjh.- og viðskn., og fer þá hringurinn nokkuð að þrengjast.

Ég verð að segja, að ég tel það nánast óskiljanlegt ábyrgðarleysi, ef einhverjir hv. þm. í þessari d. fást ekki til þess að samþ. tekjustofn til handa ríkissjóði í stað þeirra tollalækkana, sem samþ. kunna að verða með þessu frv. Það getur út af fyrir sig verið ágreiningur um það, hver þessi tekjuöflun eigi að vera, og er réttast, að það komi fram. Eins er hugsanlegt, að menn séu með till. um það að spara einhver ákveðin ríkisútgjöld í staðinn fyrir þá tollalækkun, sem hér yrði samþ., en það er að sjálfsögðu gersamlega útilokað, að nokkur þm. standi að því hér að gera samþykkt um víðtækar tollalækkanir, sem nema um 600 millj. kr., en fáist ekki til að samþ. neina tekjuöflun á móti eða neinn sparnað á móti. Ég verð að lýsa því yfir, að að óreyndu trúi ég ekki slíku ábyrgðarleysi á nokkurn þdm.

Varðandi önnur efnisatriði frv. er rétt að gera hér grein fyrir því, að fjh.- og viðskn. fjallaði um öll þau erindi, sem n. bárust, og vil ég nú víkja að þeim í stuttu máli.

Í fyrsta lagi barst n. það erindi frá Félagi ísl. stórkaupmanna, að samræmis yrði gætt við tollmeðferð annars vegar peningaskápa, öryggishólfa og spjaldskrárkassa og svo hins vegar venjulegra skjalaskápa, sem eru í tollnúmeri 94.03.09. Á það var bent í erindi Félags ísl. stórkaupmanna, að þarna væri um hliðstæðar vörur að ræða og ósamræmi, að ekki væri um svipaða tollmeðferð að ræða að þessu leyti. N. féllst á þetta sjónarmið Félags ísl. stórkaupmanna, og brtt. n. varðandi þetta atriði er í 1. tölul. c á þskj. 294, þar sem n. gerir ráð fyrir því, að tollur á þessum vörum verði 80%. Það skal að vísu viðurkennt, að n. gengur þá ekki til fulls til móts við óskir Félags ísl. stórkaupmanna, þar sem hinir almennu skjalaskápar lækka áfram í tolli árin 1975 og 1976, en n. gerir ráð fyrir því, að tollarnir verði 80% áfram. En eftir að rætt hafði verið um þetta atriði, m. a. við fulltrúa fjmrn., þá var talið, að síðar gæti gefist tækifæri til að leiðrétta þetta, ef ástæða þætti til.

Félag ísl. stórkaupmanna sendi n. annað bréf, þar sem óskað var eftir því að tekið yrði upp nýtt tollnúmer, nr. 87.14.08, um húsvagna. Þar sem hér er einungis um að ræða formbreytingu, taldi n. rétt að verða við þessum tilmælum. Till. n. um þetta atriði er í 1. lið e á þskj. 294.

Fyrirtækið Íspan h/f óskaði eftir því, að svonefnd zinkhorn, sem notuð eru til að tengja saman álprófíla við framleiðslu á tvöföldu einangrunargleri, yrðu tolluð með svipuðum hætti og áður nefndir álprófflar, og eftir að n. hafði athugað þetta mál, féllst hún á þessi tilmæli, og brtt. n. um þetta atriði er á þskj. 294 í 2. lið d. Af öðrum ábendingum, sem n. fékk, má nefna tilmæli frá versluninni Gull og silfur varðandi lækkun á silfurborðbúnaði. Treysti n. sér ekki til að verða við þeim tilmælum, þar sem borðbúnaður almennt er í hærri tollflokki en silfurborðbúnaður í dag, þ. e. a. s. borðbúnaður yrði tollaður með 80% tolli, eftir að frv. næði fram að ganga, en silfurborðbúnaður er tollaður með 60% í dag, og ástæðulaust af þeim sökum að gera þann mun meiri en hann er.

Einnig bárust n. tilmæli frá Ljósmyndarafélagi Íslands um lækkanir á tolli af fylgihlutum stærri ljósmyndavéla. Í bréfi Ljósmyndarafélagsins kemur fram þakklæti til n., sem undirbjó frv., fyrir þann skilning, sem n. er sögð hafa sýnt málefnum Ljósmyndarafélagsins, en óskað er eftir, að frekari lagfæringar séu gerðar. Eftir að n. hafði rætt þetta mál, m. a. við fulltrúa fjmrn. og fleiri aðila, var niðurstaðan sú að láta hér við sitja varðandi tollalækkanir á fylgihlutum til ljósmyndavéla.

Nokkrar aðrar brtt. flytur n. vegna tilmæla, sem fram hafa komið, en engar eru þær stórvægilegar. Það eru till. í 1. lið a, b og d á þskj. 294.

Einnig flytur n. till. í 2. tölul., sem snerta tolla af bifreiðum, en rétt er að taka það skýrt fram, að þar er ekki um neina verulega efnisbreytingu að ræða frá því, sem nú er, heldur er sú ein breyting fólgin í þessari till., að skýrt sé tekið fram, að heimilt sé að selja útlendingum bifreiðar, sem fluttar eru út úr landinu innan þriggja mánaða. Þetta er till., sem snertir einungis undantekningatilvik og hefur ekki neina almenna þýðingu.

Eins er um till. í 2. tölul. d og c. Það eru ekki stórvægilegar breytingar. Önnur, d-liðurinn, snertir sælgætisvörur, og c-liðurinn snertir aðflutningsgjöld af talstöðvum í skip og báta, ef kostnaður er lægri en 100 þús. kr. Það mun vera heimild af þessu tagi í lögum varðandi talstöðvar, ef kostnaðurinn er meiri en 100 þús. kr., og þar sem talstöðvar munu nú vera orðnar ódýrari en áður, var talið rétt að verða við þessum óskum.

Varðandi till. þær, sem Jón Árm. Héðinsson og Eggert G. Þorsteinsson flytja á þskj. 250, þá varð ekki samkomulag í n. um stuðning við þær till. Önnur þeirra snertir endurgreiðslu gjalda af vélum og tækjum í hitaveitur, en hin endurgreiðslu gjalda af ljóstækjum hvers konar, svo sem myndvörpum, hljóð- og myndsegulbandstækjum, sem notuð eru í tungumálastofur. Það var skoðun meiri hl., að enda þótt hér væri um ágætt málefni að ræða í sjálfu sér, væri þetta spursmál. sem fyrst og fremst snerti ríkið sjálft, og breyt. væri því ekki fólgin í öðru í raun og veru en að færa úr vinstri vasanum og yfir í hægri vasann, og þar af leiðandi skipti þetta ekki miklu máli. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við 2. lið till. (Gripið fram í.) Já, í þetta sinn yrði um hið gagnstæða að ræða.

Varðandi umsagnirnar að öðru leyti, sem ég hef nú gert grein fyrir, vil ég taka það fram, að eftir að n. lauk störfum nú fyrir fáum minútum, barst mér bréf til n. frá Rauða krossi Íslands, þar sem hann fer fram á, að felld verði að öllu niður aðflutningsgjöld af ýmsum gögnum, sem hér eru nánar talin, svo sem sjúkrabifreiðum, björgunaratgeirum, sjúkraplástrum, sjúkrabörum, neyðarblysum og fleiri vörum, og óskar eftir því, að breyting verði gerð í þessa átt, en til vara, að rn. verði heimilað að lækka eða fella niður aðflutningsgjöld af gögnum og tækjum til sjúkra- og björgunarstarfa, sem flutt eru inn á vegum Rauða kross Íslands. Einnig er á það bent, að til greina kæmi að veita heimild til fjmrh. um að fella niður aðflutningsgjöld af innflutningi til hjálparstarfa, sem greiddur er með gjafafé til góðgerðarstarfsemi. Þetta eru ábendingar, sem vafalaust eiga fyllsta rétt á sér, en því miður voru þessar ábendingar svo seint fram komnar, að ekki var hægt að taka þær fyrir í n., og verða þær því að bíða síðari meðferðar þingsins á þessu máli. Sérstaklega hefði ég talið koma til greina, að fjh.- og viðskn. Ed. athugaði þessar ábendingar.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að hv. d. afgreiði þetta frv. í dag frá sér til Nd., þannig að tækifæri gefist til þess að taka málið þar fyrir á morgun. Það er ljóst, að þingstörf eru hér á seinasta snúningi, og ef málið á að ná fram, eins og mér skilst, að allir aðilar óski eindregið eftir og þá ekki sist iðnrekendur, verði sem sagt að hafa snör handtök og reyna að afgreiða málið frá d. í dag.