18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að tala hér aftur, en af því að samviskubitið hefur slegið hv. formann fjh.- og viðskn. svo, að hann taldi ástæðu til að standa hér upp, þá vona ég, að mér verði ekki lagt það til lasts, þótt ég segi fáein orð í tilefni af ræðu hans, vegna þess að ýmislegt í henni byggðist á misskilningi.

Mér hefur aldrei komið til hugar t. d. að ætlast til þess, að þeir hv. Alþb.-menn áttuðu sig svo mikið á staðreyndum, að þeir breyttu afstöðu sinni til EFTA. Það er allt of mikið að ætlast til þess. En það, sem ég ræddi um, var, að það væri merkilegt, og hv. þm. vék sér hjá að svara því, að hann og flokksbræður hans virtust hafa skipt um skoðun í sambandi við tollastefnu almennt. Fjáröflunartollar koma EFTA og EBE ekkert við, og það veit ég, að hv. þm. veit mjög gerla. Það var þetta, sem ég átti við. Hér er um að ræða lækkun hátolla. Það var byrjað að lækka hátolla, sem voru mjög háir upphaflega, í tíð fyrrv. ríkisstj., og voru þeir komnir niður í 100%. Nú hefur verið farið niður í 80%. Ég álít, að þetta sé mjög skynsamlegt framhald af þeirri stefnu. Því hefur hins vegar verið haldið mjög fram af hv. þm. og flokksbræðrum hans og kannske fleirum, að það ætti einmitt að beita hátollum, svokölluðum lúxustollum. Frá því hafa þeir horfið, og ég held, að það séu alveg fullgild rök í grg. frv. um, að það sé mjög varhugavert að beita þeim tollum, svo sem öllu viðskiptalífi og samgöngum milli landa er báttað. Það er þetta, sem ég var að gleðjast yfir, að hann hefði áttað sig á og vonandi þá flokksbræður hans líka.

Hitt atriðið, að ég neitaði að líta á þetta mál, fyrr en allt fjármáladæmi ríkissjóðs lægi fyrir, það sagði ég ekki í minni ræðu. Ég sagði hinsvegar, að þetta væri lítill þáttur af því stóra dæmi. Það er það, sem ég sagði. En það dæmi liggur fyrir, að svo miklu leyti sem það er skiljanlegt, eins og það hefur verið lagt fram, þannig að ég er ekkert að kvarta yfir því út af fyrir sig. Ég var hins vegar að benda á, að það væri það margt óljóst í því dæmi, sem hæstv. fjmrh. staðfesti reyndar með innskoti sínu, að það mundi ekkert veita af þessum peningum til annarra þarfa, ef það væri hægt að finna 400 millj. með einhverjum hætti, sem ég skaut að honum, að ég teldi, að væri auðvelt að gera. Ég veit, að hann kann fleiri leiðir en þessa, og ég þarf ekki að nefna þær. En mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það eigi ekki að vera hallalaus ríkisbúskapur. Ég held, að það sé rétt hjá mér, að hér sé um heimild að ræða, — þetta gerist nú svo fljótt, það kom rétt áðan á borðin till. hv. meiri hl. Ég spyr þá: Hvað liggur á þessari heimild? Af hverju má ekki flytja breyt. á lögum um söluskatt? Það er mér ekki ljóst. Ef þetta er orðað sem heimild af hæstv. fjmrh. er hann þá nokkru nær því að vita, hvort það þarf að nota þessa heimild, núna milli jóla og nýárs en hann er í dag, þannig að það er nánast fáránlegt að orða þetta sem heimild. Hitt er annað mál, að það getur vel verið, eins og hæstv. ráðh. aflaði sér heimildar til þess að lækka ríkisútgjöld um vissa prósentutölu, eftir að fjárlög 1973 voru afgreidd, en þurfti síðan ekki að nota þá heimild. Hann ákvað það ekki fyrr en seint á árinu og gat ekki séð það fyrr en seint á árinu. En það er auðvitað allt annað mál. Það gat verið eðlilegt að hafa það í heimildarformi. En það er alveg óskiljanlegt að orða þetta sem heimild, það fæ ég ekki skilið. Það eru enn ein skringilegheitin við þetta mál að ákveða ekki hreint og beint, að þetta skuli lagt á. En þetta bendir auðvitað til þess, eins og alltaf er, að það er mjög óljóst um áramót, ekki síst miðað við þá efnahagsþróun, sem nú er, og þá verðbólgu, sem nú er, hvort tekjur ríkissjóðs gera nauðsynlegt eða ekki að nota heimildir, t. d. niðurskurðarheimildina, sem hæstv. ráðh. hefur nú tilkynnt, að hann muni ekki nota fyrir árið 1973, af því að hann hafði ekki haft þörf fyrir það, því að það hafa mokast inn slíkar óhemjutekjur umfram áætlun hjá ríkissjóði, að það hefur ekki þurft á því að halda. En ég vil algerlegu mótmæla því og vil ekki liggja undir því, að ég sýni ábyrgðarleysi fyrir mitt leyti, og ég veit enginn okkar nm., sem að þessu stöndum, að við viljum samþykkja miskunnarlaust till. um útgjöld á ríkissjóð án þess að sjá honum fyrir tekjum og gera okkur grein fyrir því, að hann þurfi tekjur. Við viljum aðeins benda á, að þetta er þarflaust, eins og sakir standa, og þetta getur gerst með eðlilegum hætti, ekki sist úr því að hér er um heimild að ræða, sem hæstv. ráðh. hlýtur að ætla sér að bíða eitthvað fram eftir árinu með að sjá, hvort hann þarf að notra eða ekki. Hann þarf ekki að orða það sem heimild. Það er nógur tími til að ákveða það með eðlilegum hætti og breyta þá söluskattslögum eftir áramótin eða þegar þing kemur saman aftur, ef það sýnir sig þá við nánari athugun og uppgjör ársins í ár, sem auðvitað liggur ekki fyrir núna og ekki fyrr en upp úr áramótum, hvort þarf að nota þessa heimild eða ekki, þannig að einmitt það orðalag, að till. sé orðuð í heimildarformi, gerir enn fjarstæðara, að það þurfi að afgreiða þetta mál nú með þessum hætti.

Hv. frsm. fjh.- og viðskn. veit mætavel, að 1% söluskattur gefur miklu meira en 400 millj., þannig að hér er um beina tekjuöflun að ræða fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í.) Já, það eru áætlaðar um 200 millj. þegar í fjárl fyrir þessum tekjumissi, þannig að það eru aðeins eftir 400 millj., sem þarf að mæta. Ef form. hv. n. er fyrst að átta sig á því núna, þá vona ég, að hann leiðrétti till. sína og dragi hana aftur, því að þetta gefur 650 millj., þannig að hér er myndarlega að farið. Það hefði ekki þurft einu sinni, þó að við tækjum allt til greina, nema ½%. Nei, 1% skal það vera. Það skal vera svolítil búbót þarna, ef það skyldi nú vanta í einhverja aðra holu bjá hæstv. ráðh. en í sambandi við tekjumissi vegna aðflutningsgjaldanna.

Nei, þetta er allt, því miður, svo skringilegt og ambögulegt, að það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði áðan, að þetta er of fráleitt til að ræða um það.