30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

20. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Fsp. hv. 4. þm. Reykv. er þessu til að svara:

Áhugi hefur farið mjög vaxandi á því undanfarin ár að bæta menntunarskilyrði ýmissa starfsstétta á sviði heilbrigðisþjónustu, auk lækna, og þá ekki síst að skapa þeim möguleika til framhaldsnáms á háskólastigi.

Í nóv. 1970 skipaði menntmrn. nefnd til að kanna möguleika á framhaldsmenntun hjúkrunarkvenna hér á landi á háskólastigi, og áttu sæti í n.: Þorbjörg Jónsdóttir skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, form., Snorri Páll Snorrason dósent, tilnefndur af Háskóla Íslands, frú Marta Pétursdóttir form. Hjúkrunarfélags Íslands, tilnefnd af því félagi, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af heilbr.- og trmrn., og frú Elín Eggerz Pétursdóttir hjúkrunarkona, skipuð án tilnefningar. N. skilaði áliti til menntmrn. í nóv. 1971, og var þar eindregið lagt til, að komið yrði á fót námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands, er veitti möguleika á framhaldsnámi til undirbúnings ýmsum sérhæfðum störfum á sviði hjúkrunarmála.

Nál. var strax og það barst rn., sent til umsóknar háskólaráði, heilbr.- og trmrn. og Hjúkrunarfélagi Íslands. Háskólaráð fól svo læknadeild að fjalla um málið, og starfaði síðan a. á vegum deildarinnar með fulltrúum frá Hjúkrunarfélagi Íslands að frekari athugun þess.

Hinn 29. júní 1973 ritaði menntmrh. háskólarektor á þessa leið:

„Eins og yður, herra háskólarektor, er kunnugt, hefur rn. bréflega og munnlega lýst áhuga sínum á því, að hafið verði framhaldsnám á háskólastigi fyrir hjúkrunarkonur, þ. e. þær, sem lokið hafa hjúkrunarnámi við Hjúkrunarskóla Íslands eða Nýja hjúkrunarskólann, ennfremur, að athugaðir verði möguleikar á því, að stúdentar eða aðrir með sambærilega menntun eigi kost á hjúkrunarnámi á háskólastigi í samstarfi við hjúkrunarskólana báða.

Vill rn. enn minna á þetta mál og væntir, að háskólinn taki það til athugunar hið fyrsta í samstarfi við rn.“

Um svipað leyti lágu fyrir vinnutillögur frá framangreindri n. á vegum læknadeildar. Og hinn 12. júlí s. l. var svohljóðandi samþykkt gerð í háskólaráði:

„Háskólaráð er meðmælt því, að námsbraut í hjúkrun verði komið á fót á vegum læknadeildar háskólans, að því tilskildu, að nægjanlegt fjármagn og húsrými verði tryggt nú þegar að mati háskólaráðs.“

Hinn 20. ágúst 1973 skipaði menntmrn. n. til að semja drög að reglugerðarákvæðum um nám í hjúkrunarfræðum á vegum læknadeildar Háskóla Íslands. Í n. eiga sæti: Ólafur Ólafsson landlæknir og Arinbjörn Kolbeinsson læknir, skipaðir skv. tilnefningu læknadeildar háskólans, Haraldur Ólafsson lektor, tilnefndur af háskólaráði, Ingibjörg R. Magnúsdóttir deildarstjóri, tilnefnd af heilbr.- og trmrn., María Pétursdóttir skólastjóri, tilnefnd af Hjúkrunarfélagi Íslands, Þorbjörg Jónsdóttir skólastjóri, skipuð í n. sem fulltrúi hjúkrunarskólanna, og Þórður Einarsson stjórnarráðsfulltrúi, form. nefndarinnar.

Um svipað leyti og þessi n. hóf störf sín, kom hingað til lands sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í menntun hjúkrunarfólks, Dorothy Hall, og kom hún hingað að beiðni menntmrn. Sat hún nokkra fyrstu fundi n., kynnti sér menntunarmál hjúkrunarfólks hér á landi og sömuleiðis þörfina á sérmenntuðu starfsfólki innan heilbrigðisþjónustunnar. Skilaði hún skýrslu um niðurstöðurnar af athugunum sínum og mælir þar eindregið með því, að komið verði sem fyrst á fót námsbraut í hjúkrunarfræðum á vegum læknadeildar Háskóla Íslands. Raunar hafði ótvíræður áhugi þegar komið fram á skjótri stofnun slíkrar námsbrautar, bæði af hálfu rektors Háskóla Íslands og forráðamanna læknadeildar, þ. á m. núverandi deildarforseta, sem tekið hafði þátt í störfum n. og setið nokkra fundi hennar. Töldu þeir, að unnt væri að hefja kennslu í þessum fræðum á vegum háskólans nú þegar á þessum vetri, enda lágu þegar fyrir drög að námsskrá, sem fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hafði aðstoðað við að semja. Kom í ljós, að kennsla í sumum námsgreinum var þegar fyrir hendi á vegum læknadeildar, en auðvelt að skipuleggja nám í öðrum greinum, svo sem í félagsfræðum á vegum námsbrautar háskólans í almennum þjóðfélagsfræðum og í ýmsum greinum, sem kenndar eru á vegum heimspekideildar. Kennslu í almennri hjúkrun þyrfti að sækja til hjúkrunarskóla þeirra, sem fyrir eru. Lýstu þeir báðir sig reiðubúna til að taka þátt í því samstarfi við Háskóla Íslands. Hins vegar treystist Hjúkrunarskóli Íslands, þegar til kom, ekki til að láta í té slíka kennslu fyrr en eftir áramótin næstu, og mun Nýi hjúkrunarskólinn annast hana a. m. k. þangað til. Taldi háskólinn sig geta á þennan hátt tekið við rúmlega 20 nemendum í þetta nýja nám.

Rn. vildi ekki að fengnum þessum forsendum hindra það eða tefja fyrir því, að slíkt nám gæti hafist á þessu háskólaári, og samþykkti því fyrir sitt leyti, að innritun til þessa náms færi fram. En samþykkið var gert með fyrirvara um endanlega stofnun þessarar námsbrautar á vegum læknadeildar Háskóla Íslands.

Það var ljóst þegar í upphafi, að án breytinga á núgildandi háskólalögum gæti þessi innritun nú aðeins tekið til þeirra, sem hafa aflað sér réttinda til innritunar í Háskóla Íslands, þ. e. a. s. þeirra, sem lokið hafa stúdentsprófi. Jafnframt lá hins vegar fyrir, að mikil nauðsyn er á því að skapa möguleika á framhaldsnámi við háskólann fyrir þá, sem lokið hafa venjulegu hjúkrunarnámi. Á þetta hefur menntmrn. frá upphafi lagt áherslu. Í bréfi rn. 18. sept., s. l. til Háskóla Íslands, þar sem samþykkt var að hefta fyrrnefnda kennslu í hjúkrunarfræðum á vegum læknadeildar, var því einnig sérstaklega óskað eftir því, að af hálfu háskólans verði gerð athugun á því, með hverjum hætti unnt væri að veita þeim, sem lokið hafa venjulegu hjúkrunarnámi, aðgang að framhaldsnámi í hjúkrunarfræðum á háskólastigi, og yrði þeirri athugun hraðað. Jafnframt hefur n. þeirri, sem áður er getið, verið falið að vinna að þessum öðrum meginþætti þessa máls. Er þess að vænta, að innan skamms verði tilbúin drög að frv. um lagabreytingar varðandi námsbrautina í hjúkrunarfræðum, ásamt drögum að reglugerðarákvæðum um sama efni.

Þess skal að lokum getið, að Rauði kross Íslands hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga og samþykkti á síðasta þingi sínu að veita samtals 1½ millj. kr. til stofnunar námsbrautar í hjúkrunarfræðum á háskólastigi.