05.02.1974
Sameinað þing: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

189. mál, virkjun Fljótaár í Skagafirði

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um virkjun Fljótaár í Skagafirði, sem sem hér er til umr., er flutt vegna þeirrar brýnu þarfar, sem er á aukinni raforkuframleiðslu á Norðurl. v., eins og kom fram hér áðan í umr. Hæstv. iðnrh. hefur í umr. í Ed. lýst því yfir, að hann vilji gjarnan athuga um framkvæmd þessa, og er mér kunnugt um það, að hann hefur þegar látið hefja nákvæma rannsókn á hagkvæmni þessarar virkjunar, og hygg ég, að áform hans séu þau að heimila hana, enda er það á hans valdi, þar sem virkjunin er einungis 1.6 MW, en iðnrh. getur heimilað virkjanir allt að 2 MW án sérstakrar lagaheimildar.

Við flm. þessarar till. erum hæstv. ráðh. að sjálfsögðu þakklátir fyrir, að hann skuli hafa í hyggju að heimila virkjun þessa, og treystum því, að ríkisstj. muni þá samhliða sjá fyrir því fjármagni, sem Siglufjarðarkaupstaður þarf á að halda til að hrinda þessu verki í framkvæmd.

Eðlilegast tel ég, að till. þessi verði send n. að lokinni þessari umr. hér í dag. Ef svo fer, að hæstv. iðnrh. heimilar þessa virkjun og ríkisstj. sér fyrir nægilegu fjármagni, kemur till. aldrei frá n., og er það þá að sjálfsögðu meinalaust af hálfu okkar flm. Fyrir okkur vakti eitt og aðeins eitt, þ.e.a.s. að leggja okkur fram um það, að hafist verði handa um vatnsaflsvirkjanir í þessu kjördæmi, þar sem orkuskorturinn er jafngífurlegur og raun ber vitni.

Um Fljótaána er það að segja, að hagkvæmni virkjunarinnar byggist ekki síst á því, að fyrir er afgangsorka frá Skeiðsfossvirkjun. Ef Skeiðsfossvirkjun verður tengd við Skagafjarðarveitu, eins og hér er gert ráð fyrir, nýtist sú orka að fullu og það þegar á þessu ári. Eins og í grg. með till. þessari getur, hefði verið unnt að komast svo til alveg hjá dísilorkukeyrslu á Norðurl. v. s.l. ár, ef Fljótaá hefði verið virkjuð, og þannig hefði sparast dísilorkuvinnsla, sem nam nærri 10 millj. kwst. Miðað við núverandi verð olíu er hér um að ræða 27 millj. kr. sparnað, en ef svo fer sem menn spá, að olía jafnvel tvöfaldist í verði, væri um að ræða yfir 50 millj. kr. sparnað, þannig að heildarkostnaður við virkjun Fljótaár, sem talinn er um 100 millj., mundi sparast á aðeins tveimur árum.

Eins og kunnugt er, sér Skeiðsfossvirkjun Siglufirði, Ólafsfirði og Fljótum fyrir raforku. Að sjálfsögðu mundi öryggi mjög aukast á þessu orkuveitusvæði með virkjun Fljótaár neðan Skeiðsfoss. Þess er og að gæta, að uppi eru áform um að leggja hitaveitu niður í Siglufirði. Heitavatnið, sem þar er um að ræða, er naumast nógu heitt, en hugsanlegt væri að auka hitastig þess nokkuð með rafhitun, sem þá kæmi frá hinni nýju virkjun, þannig að markaður verður fyrir raforku á þessu svæði, jafnvel þótt aðrar virkjanir sæju fyrir orku á Skagafjarðar- og Húnavatnsveitum. Mergurinn málsins er sá, eins og að framan greinir, að þegar í stað er nægur markaður fyrir alla þessa orku í Skagafirði og Húnavantssýslum. Þess er einnig að gæta, að hér er um að ræða framkvæmd, sem mjög hæfileg er fyrir það vinnuafl, sem á staðnum er. Þessi framkvæmd skapar enga spennu á vinnumarkaði, heldur verður hún til þess að sjá iðnaðarmönnum og öðru starfsfólki fyrir eðlilegu og þægilegu verkefni á þessu ári. En hugmyndin er sú að ljúka virkjuninni fyrir n.k. áramót og taka hana í notkun. Til þess þarf að vísu að koma skjót ákvörðun, því að vélapantanir þarf að staðfesta fyrir lok þessa mánaðar, og helst þyrfti raunar að gera það þegar í stað.

Fyrir þrem áratugum sýndu Siglfirðingar þann stórhug að ráðast í Skeiðsfossvirkjun. Hún er nú verðmætasta fyrirtæki Siglufjarðarkaupstaðar. Heita má, að virkjunin sé skuldlaus, og þess vegna hefur bæjarfélagið nægar tryggingar fyrir lánum til virkjunar Fljótaár neðan Skeiðsfoss. Samrekstur nýju virkjunarinnar og hinnar eldri verður mjög hagstætt fyrirtæki, sem bæði yrði lyftistöng fyrir Siglufjörð og Ólafsfjörð og mjög hagstæð fyrir landsfjórðunginn allan, einkum næstu ár, þar til séð hefur verið fyrir orkuvinnslu á þessu svæði með einhverjum hætti öðrum.

Ég tel ástæðulaust að vera að orðlengja um þetta mál. Ég treysti því, að hæstv. iðnrh. heimili þessa virkjun og hæstv. ríkisstj. sjái fyrir því fjármagni, sem til hennar þarf, en það er vissulega ekki mikið, aðeins um 100 millj. kr., auk 30 millj., sem samtenging kostar, en hana mundu Rafmagnsveitur ríkisins sjálfsagt framkvæma þegar á næsta sumri.

Ég legg svo til, að máli þessu verði vísað til hv. allshn.