12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

170. mál, leit að nýjum karfamiðum

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 268 hef ég ásamt hv. 10 þm. Reykv. og hv. 2. þm. Vestf. leyft mér að flytja till. til þál. um leit að nýjum karfamiðum, þar sem Alþ. álykti að fela Hafrannsóknastofnuninni að semja um leigu á hentugu togskipi til leitar að nýjum karfamiðum í úthafinu og enn fremur lögð á það áhersla, að þessari leit verði flýtt sem kostur er.

Ég vænti þess, að grg. í sjálfu sér sé nægjanlega ítarleg til þess að opna augu manna fyrir nauðsyn þess að rösklega sé að þessu máli unnið. Ég hef leitað mér upplýsinga um þetta mál hjá þeim manni, sem hefur haft með höndum yfirstjórn þeirra rannsókna, sem framkvæmdar hafa verið nú þegar, sem er dr. Jakob Magnússon, fiskifræðingur, kynnt mér sjónarmið hans og enn fremur greinar, sem hann hefur ritað um málið, og eins útvarpserindi, sem hann flutti fyrir tveimur árum um þetta athyglisverða mál.

Höfuðforsenda þessarar tillögugerðar er sú, að sannað þykir, að þorskstofnarnir við strendur landsins hafi verið ofnýttir um langa hríð. Ástand þeirra nú er mikið áhyggjuefni og þörf að neyta allra bragða til að létta sóknarþunga í stofnana, a.m.k. meðan við þurfum að búa við hina þungu sókn erlendra veiðiskipa í stofnana. Allt annað verður vonandi upp á teningnum, þegar við förum að búa einir að fiskstofnunum á landgrunninu, þótt ávallt verði lífsspursmál að hafa þar á fyllstu gát. Því er það, að ómetanleg hjálp gæti verið að geta beint stórvirkustu veiðiskipum okkar til veiða á nýjum miðum, veiða á fiskstofnum, sem hingað til hafa verið ónýttir, þótt ekki væri nema um skamman tíma á ári hverju.

Eins og grg. ber með sér, þykir fullsannað, að hér langt suður og vestur af landinu, á gífurlega stóru svæði, sé að finna stóran stofn karfa. Hingað til hefur hann ekki fundist í veiðanlegu ástandi, enda leit og tilraunir mjög af skornum skammti og með skipi, sem vantar allt afl til að framkvæma tilraunirnar eins og þörf er á. Þess vegna er það frumskilyrði að leigja veiðiskip til þess arna, sem hentugt getur talist, en slík skip höfum við nú eignast.

Ég ætla aðeins að víkja hér til fróðleiks að þróun karfaveiðanna hér á landi, og hef ég upplýsingar um það, eins og ég áður gat um, frá dr. Jakobi Magnússyni.

Karfinn mun lítið hafa verið veiddur hér við land fyrr á öldum og engar sérstakar karfaveiðar stundaðar. Sennilega hefur hann fengist eitthvað með öðrum fiski. Hins vegar mun hann hafa rekið alloft á fjörur og hefur e.t.v. verið algengur þannig. En það er ekki fyrr en botnvörpuveiðarnar koma til sögunnar, að verulegt magn af karfa veiðist hér við land, en Norðmenn höfðu þó veitt nokkuð á línu og handfæri, í smáum stíl þó. Lengi vel var karfinn þó lítt nýttur, og margir sjómenn muna enn þá tíð, að öllum karfa, sem á dekk kom með öðrum fiski, var mokað í sjóinn aftur. Í rauninni er það ekki fyrr en eftir 1920, að farið er að veiða karfa svo nokkru nemi, en þá fara Þjóðverjar að sækjast eftir honum. Karfaveiðar uxu svo ár frá ári, en þó einkum eftir 1930, en þá fóru Íslendingar einnig að veiða karfa í stórum stíl.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina náði heildarkarfaaflinn hámarki árið 1938 og var þá 105 þús. smálestir eða 2.5% af heildarfiskafla Norður-Evrópuþjóða. Þessi stórfellda aukning veiðanna stafaði fyrst og fremst af því, að Þjóðverjum hafði tekist að skapa góðan markað fyrir karfa í heimalandi sínu, auk þess var farið að vinna mjög lýsi úr honum. Á stríðsárunum kom eðlilegur afturkippur í veiðarnar, en síðan stríðinu lauk hafa þær verið stundaðar af miklu kappi. Auk Íslendinga og Þjóðverja eru það einkum Rússar og svo Bandaríkjamenn og Kanadamenn, sem sóst hafa eftir karfanum. Áður fyrr skiptist veiði þjóðanna þannig á svæði, að Rússar stunduðu Barentshafið, Þjóðverjar og Íslendingar Íslandsmið og Bandaríkjamenn Ameríkumið. En með tilkomu nýrra veiðisvæða og stærri og afkastameiri skipa hefur þetta breyst verulega. Þjóðverjar fóru nú að veiða á öllum svæðum, Rússar fóru einnig að færa út kvíarnar, og Íslendingar sóttu í vesturátt allt til Nýfundnalandsmiða. Nú er svo komið, að Rússar munu taka obbann af karfaaflanum á Nýfundnalandsmiðum. Karfaveiðar við Ísland hafa hins vegar nær eingöngu verið stundaðar af Íslendingum og Þjóðverjum, og er svo að mestu enn.

Á siðari hluta 6. áratugs þessarar aldar og fyrst á þeim 7. sóttu íslenskir togarar karfa að miklu leyti á fjarlæg mið og stunduðu heimamiðin tiltölulega litið. Þjóðverjar stunduðu þau þó ávallt nokkuð og tóku meiri hluta þess karfa, sem veiddur var við Ísland á þeim árum. Heildaraflinn á íslandsmiðum var þá 70–90 þús. lestir á ári, og komst þá afli Íslendinga niður í rúmar 13 þús. lestir á heimamiðum. En á síðasta áratug, þegar fækka fór um góða og stóra drætti á fjarlægum miðum, hófu Íslendingar og Þjóðverjar aukna sókn í karfa á heimamiðum. Jókst þá karfaafli á Íslandsmiðum upp í 80–114 þús. lestir á ári. Tóku Íslendingar af þeim afla um 20–30 þús. lestir árlega, og hefur karfi af Íslandsmiðum verið uppistaðan í karfaafla íslensku togaranna síðasta áratuginn.

Eins og segir í grg., eru það eftirfarandi atriði, sem áhrif kunna að hafa á hugsanlega veiði karfa á úthafinu, sem við höfum ekki enn fengið viðhlítandi svör við:

1. Þéttist úthafskarfinn ekki einhvern tíma í úthafinu það mikið, að grundvöllur sé til veiða? Og ef svo er, þá hvenær ársins, á hvaða svæði og í hvaða dýpi?

2. Gotstofnar karfans, sem algengastir eru við Ísland og Austur-Grænland, hafa ekki fundist í úthafinu enn þá, en vitað er, að hann gýtur þar. Og þá er spurningin: Hvar halda gotstofnarnir sig? En þessi fiskur er dálítið sérstæður að því leyti, að hann hrygnir ekki, heldur gýtur seiðunum, þannig að klakið fer fram í móðurlífi kvenfisksins.

3. Eru gotstofnar tegundanna karfa og djúpkarfa aðskildir eða ekki?

Aðeins fjórir leiðangrar hafa verið farnir til rannsókna á þessum slóðum á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Þeir gefa vissulega vís bendingu og vonir um, að það kunni að vera stórt í boði fyrir veiðiskip okkar, og ber hina brýnustu nauðsyn til, að þeir möguleikar séu þegar í stað kannaðir til hlítar. Það má einskis láta ófreistað til að finna nýjar leiðir til fisköflunar, þegar í huga eru höfð hin lélegu aflabrögð og ískyggilegt ástand sumra fiskstofnanna.

Ég vænti þess, að þetta mál fái greiðan framgang. Mér virðist, að menn ættu að sjá í sjónhending, að þetta er mikið nauðsynjamál og mjög mikilvægt, að þessu verði hrundið í framkvæmd og sem ítarlegast.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar þessari fyrri umr. lýkur, verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.