13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Með því að trúlega hafa ekki allir hv. þdm. verið í ráðherraherberginu, þegar ég svaraði fsp. frá hv. 5. þm. Vestf, um tiltekið atriði, er ekki nema sjálfsagt, að ég endurtaki það hér í hv. d., sem ég hafði um það að segja. En í Ed. bar hv. 5. þm. Vestf., Þorv. Garðar Kristjánsson, fram til mín þrjár spurningar, sem efnislega voru eitthvað á þessa leið:

1. Hvort rétt væri það, sem skýrt var frá í sjónvarpi í gær, að maður frá rússneska sendiráðinu hefði komið í utanrrn. tiltekinna erinda, sem þar voru nánar greind.

2. Hverju hefði verið svarað.

3. Hvort slíkt hefði komið fyrir áður.

Ég flutti svar rn. í hv. Ed. og skal endurtaka það hér, það er hvort sem er mjög stutt.

Það er rétt, að þegar fulltrúi frá sovéska sendiráðinu kom í utanrrn. hinn 5. febr. s.l., ræddi hann m.a. nefnt sjónvarpsviðtal við Pétur Thorsteinsson ráðuneytisstjóra. Hann tók fram, að hér væri ekki um að ræða formleg mótmæli af hálfu sendiráðsins, en sagði eitthvað á þá leið, að telja yrði óviðurkvæmilegt, að háttsettir menn í ábyrgðarstöðum eins og menntmrh. töluðu um málefni annars ríkis eins og hann hefði gert í sjónvarpsviðtalinu, og vonandi mundi slíkt ekki endurtaka sig. Ráðuneytisstjórinn kvaðst mundu koma þessari kvörtun áfram til hlutaðeigandi aðila. Sendiráðsmaðurinn benti ekki á nein sérstök ummæli menntmrh. í sjónvarpsviðtalinu, sem væru ámælisverð.

Ég bætti svo við þetta svar því, að það hefur ekki komið fyrir áður, svo að ég viti, að erlendir sendimenn hafi borið fram kvartanir um efni í útvarpi eða sjónvarpi. Að síðustu sagði ég svo örfá orð um það, að ég léti í ljósi hryggð yfir þeim atburðum, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, þ.e. baráttunni gegn tjáningarfrelsi sovéska rithöfundarins Alexanders Solzhenitsyns, og þau ummæli vil ég mjög gjarnan endurtaka hér.