18.02.1974
Efri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp í tilefni greinar, er herra biskup Íslands, Sigurbjörn Einarsson, ritaði í Morgunblaðið s.l. laugardag um prestskosningar. Í þessari grein er biskup áhyggjufullur yfir því, að frv. um prestskosningar, er nú liggur fyrir hæstv. Alþingi, muni daga hér uppi, en frv. þetta hefur verið í n. eftir fyrstu umr. hér í hv. Ed. Frv. um prestskosningar hefur hlotið miklar umræður í landinu á undanförnum árum, og á mörgum kirkjuþingum hefur verið um það fjallað og nú síðast fengið þar nær einróma samþykki.

Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að þetta frv. fái hraða meðferð í þeirri nefnd, sem það nú liggur í, og að hæstv. Alþingi sjái ástæðu til að afgreiða þetta mál sem allra fyrst, en afgreiðsla þess hefur örugglega mikla þýðingu fyrir málefni kirkju landsins.