20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Þessa dagana berast okkur váleg tíðindi frá Vestfjörðum. Yfirgangur breskra togara á bátamiðum Vestfirðinga færist nú í aukana. S.l. laugardag keyrði um þverbak, þegar bátar frá Bolungarvík, Suðureyri og Þingeyri urðu fyrir miklum ágangi breskra togara í miðunum norðan til í Víkurál. Frá þessum atburði hefur verið skýrt í fjölmiðlum.

Einn skipstjóri þessara báta sagði í viðtali við fréttastofu sjónvarpsins, að bátarnir hefðu verið að byrja að draga línuna, þegar bresku togararnir nálguðu st. Skipstjórar bátanna hefðu haft samband við íslensk varðskip á þessum slóðum, sem síðan tilkynnti breska eftirlitsskipinu Miröndu, hvar bátarnir væru með veiðafæri sín. En þá skeði það furðulega. Þegar gefnar höfðu verið leiðbeiningar um, hvar bátarnir væru með veiðarfæri sín, gerðu bresku togararnir hreint og beint aðsúg að bátunum og allur flotinn togaði yfir veiðarfæri bátanna.

Annar skipstjóri átti viðtal við fréttastofu hljóðvarpsins um þennan sama atburð. Hann skýrði efnislega eins frá þessum aðförum bresku togaranna. Hann tekur fram, að svo hafi virst sem Bretarnir hafi færst allir í aukana, er þeir hafi fengið upplýsingar um, hvar lína bátanna lá. Hann lét þess einnig getið í þessu samtali við hljóðvarpið, að íslenskir varðskipsmenn hafi sagst ekkert geta gert til aðstoðar bátunum.

Þetta er ófögur lýsing, en því miður er hér ekki um einsdæmi að ræða um framferði Breta á Vestfjarðamiðunum. Ég hef hér fyrir framan mig afrit af bréfi til sjútvrh. frá fiskideildinni Tálkna á Patreksfirði, dags. 3. þ. m. Þar segir m.a., að það sem af er yfirstandandi vertíð hafi komið í ljós, að línubátar frá Patreksfirði og Tálknafirði hafi orðið fyrir gífurlegum ágangi togara á svæði því við Víkurál sem bátarnir frá framangreindum stöðum hafa sótt mestan afla sinn á á undanförnum árum á vetrarvertíðinni. Og bætt er við, að með nýja samningnum við Breta um veiðar innan 50 mílna markanna sé breska togaraflotanum bókstaflega stefnt á bátamið Vestfirðinga á vetrarvertíðinni, eins og það er orðað í þessu bréfi.

Fyrr í vetur gerði skipstjórafélagið Bylgjan á Ísafirði samþykkt, þar sem skorað var á stjórnvöld að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir yfirgang breskra togara á Vestfjarðamiðum. Nú hafa útvegsmenn á Vestfjörðum óskað eftir því, að stjórnvöld geri ráðstafanir til verndar gegn yfirgangi breskra togara. Í gær var dómsmrn. send ályktun Útvegsmannafélags Vestfjarða, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„S.l. laugardag gerðust þau tíðindi innan íslenskrar fiskveiðilögsögu út af Vestfjörðum, að margir breskir togarar toguðu yfir veiðarfæri báta og ullu tjóni, sem áætlað er, að nemi 1—2 millj. kr. Það er auðséð, að þessi spellvirki voru unnin visvítandi og breska eftirlitsskipið vissi um þennan verknað. Skipstjórum íslensku bátanna tókst að ná skrásetningarnúmerum sumra togaranna. Stjórn Útvegsmannafélags Vestfjarða vill því óska eftir því, að íslensk stjórnvöld geri ráðstafanir til þess, að veiðisvæða út af Vestfjörðum verði betur gætt til þess að reyna að koma í veg fyrir, að slík óhæfuverk endurtaki sig. Og jafnframt er þess krafist, að gerðar verði ráðstafanir til að láta viðkomandi svara til saka fyrir brot sín og bæta tjónið.“

Hér lýkur ályktun Útvegsmannafélags Vestfjarða. Af þessu má ljóst vera, hve alvarlegum augum Vestfirðingar lita á yfirgang Breta á bátamiðum þeirra. Að sjálfsögðu þurfa engum að koma á óvart þessi viðbrögð Vestfirðinga. Hér er verið að veitast að lífsbjörg þeirra, hér er vegið að þeirri undirstöðu, sem gerir búsetu fólks á Vestfjörðum lífvænlega.

Vestfirðir hafa sérstöðu í íslenskum sjávarútvegi af tveim ástæðum. Annars vegar er atvinnulíf landsmanna hvergi svo einhæft og bundið sjávarútveginum sem þar. Hins vegar eru Vestfirðingar langsamlega stærstu framleiðendur frystra sjávarafurða, annarra en loðnu. Heildarframleiðsla vestfirsku frystihúsanna í dag er um 26% af heildarframleiðslu landsmanna, miðað við magn, en hærri, ef miðað væri við verðmæti vegna gæða aflans, sem er frystur að stærstum hluta í neytendapakkningar fyrir Ameríkumarkað. Af þessu er ljóst, að ef kippt er stoðum undan sjávarútveginum á Vestfjörðum, gerist tvennt í senn: annars vegar flýr fólkið þaðan, hins vegar verður höggvið það skarð í þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga, sem við megum ekki við. Ég er ekki að spá því, að þetta eigi eftir að henda. Við vonum, að frá þessu verði forðað. En aðgát skal höfð. Hér er mikið í húfi. Þess vegna er nauðsynlegt að viðurkenna sérstöðu Vestfjarða í þessu efni. Þetta hefur mönnum verið ljóst stundum — stundum ekki.

Þegar landhelgissamningarnir voru gerðir við Breta og Vestur-Þjóðverja 1961, var tekið tillit til sérstöðu Vestfjarða. Þessir aðilar fengu þá engan rétt til að veiða innan landhelgi úti fyrir Vestfjörðum, þótt þeim hlotnaðist það annars staðar í íslenskri landhelgi. Þessu var hins vegar á annan veg farið, þegar ólánssamningurinn var gerður við Breta á s.l. hausti. Þá var sérstaða Vestfirðinga fótum troðin. Þá var breska togaraflotanum hleypt inn á fiskimið Vestfirðinga svo sem annars staðar í íslenskri landhelgi. Slíkt glapræði er ófyrirgefanlegt. Þetta ásamt fleiru var ástæða þess, að við hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, greiddum atkv. hér á Alþ. 13. nóv. s.l. gegn uppgjöfinni í landhelgismálinu eða hinu svokallaða bráðabirgðasamkomulagi við Breta um veiðar breskra togara.

Ég ætla ekki að ræða hér um þennan landhelgissamning né landhelgismálið. Ég minnist aðeins á samninginn vegna þess, að hann er orsök þess vanda, sem Vestfirðingar eru nú í vegna ágangs breskra togara á bátamiðum þeirra. Samningurinn leggur þá siðferðilegu skyldu á herðar þeim, sem ábyrgð ber á honum, að gera ráðstafanir til að draga úr þeim áföllum, sem Vestfirðingar verða óhjákvæmilega fyrir vegna hans. Með tilliti til þessa leyfi ég mér að spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvaða ráðstafanir ætlar ríkisstj. að gera til að halda uppi lögum og rétti á bátamiðum Vestfirðinga með það fyrir augum að koma í veg fyrir, að slík óhæfuverk endurtaki sig, sem breskir togarar gerðu sig seka um s.l. laugardag?