25.02.1974
Efri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

228. mál, gatnagerðargjöld

(Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 392 frv. til l. um gatnagerðargjöld.

1. gr. frv. hljóðar svo: „Heimilt er sveitarstjórn að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðh. staðfestir, að innheimta skuli gatnagerðargjald af hverri lóð, áður en þar er veitt byggingarleyfi. Heimilt er að krefja gatnagerðargjald, ef reist er nýtt hús á lóð, sem áður var byggð. Sama gildir, ef húsið er stækkað, að því er stækkunina varðar.

2. gr. Gatnagerðargjaldi skv. 1. gr. skal varið til gatnagerðarframkvæmda í sveitarfélaginu, og má það nema allt að áætluðum meðalkostnaði við að undirbyggja götu með tilheyrandi lögnum og slitlagi.

3. gr. Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðherra staðfestir, að innheimta sérstakt gjald, sem varið skal til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur í sveitarfélaginu og til lagningar gangstétta. Heimild til að leggja á slík gjöld er bundin við það, að sveitarfélagið hafi ekki áður innheimt gatnagerðargjald skv. 1. gr. af hlutaðeigandi fasteign.

4. gr. Gjald skv. 3. gr. má innheimta af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag er sett á og þar sem gangstéttir eru lagðar. Má gjaldið nema allt að áætluðum meðalkostnaði við þessar framkvæmdir.

5. gr. Við ákvörðun gjalda, skv. 1. og 3. gr. l. þessara skal miða við lóðarstærð og/eða rúmmál bygginga, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt. Gjöld mega vera mismunandi eftir notkun húss, t.d. eftir því, hvort um er að ræða hús til íbúðar, verslunar, iðnaðar o.s.frv. Þá mega gjöld af íbúðarhúsum vera mismunandi eftir því, hvort um er að ræða einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.

6. gr. Gatnagerðargjald skv. 1. gr. skal vera gjaldkræft, þegar sveitarstjórn krefst, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt: — Sérstakt gatnagerðargjald skv. 3. gr. skal gjaldkræft, þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Þó skal sveitarstjórn heimilt að ákveða í samþykkt, að greiðslu slíks gjalds sé dreift á tiltekið árabil, eftir því sem nánar er tiltekið í samþykkt.

7. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Skv. 10. gr. sveitarstjórnarlaga er það eitt af höfuðverkefnum sveitarfélaga að annast gatna og vegagerð. Er þetta í dag eitt af meiriháttar verkefnum flestra þéttbýlissveitarfélaga á Íslandi.

Umhverfi mannsins hefur á síðustu árum gefið tilefni til endurmats á mögum sviðum í þjóðlífinu. Mengun er nú talin einn af verstu vágestum mannkynsins, og óhætt er að fullyrða að rykið og forin á götum og vegum sé mikill mengunarvaldur hér á landi.

Auknar kröfur um þrifnað eru háværar og sérstaklega um hollustuhætti í matvælaiðnaði. Nýjar reglur þar um krefjast verulegra framkvæmda á vegum sveitarfélaga, þar sem staðsett eru fyrirtæki, sem framleiða matvæli til útflutnings. Þá má og fullyrða, að ein höfuðforsenda byggðar þéttbýlisstaða úti um land sé varanleg gatnagerð og hreinlegt umhverfi.

Þetta er því miður óleyst verkefni í mörgum sveitarfélögum um landið. Með tilkomu samtaka sveitárfélaga í öllum landshlutum hefur þó skapast nýr vettvangur til umræðna og samstarfs til að leysa þetta mál. Hafa samtökin þegar stuðlað að sameiginlegum framkvæmdum sveitarfélaga, sbr. gatnagerð á Austfjörðum á s.l. ári, og í undirbúningi er samvinna og samstarf sveitarfélaga á Vestfjörðum og Vesturlandi.

En aðalvandamálið er enn óleyst, þ.e. fjármögnun. Með hliðsjón að því, að hér er um miklar fjárhæðir að ræða, sem ekki er mögulegt að fjármagna eingöngu með þeim tekjustofnum, er sveitarfélög ráða yfir skv. l., né heldur með miklum óhagstæðum lántökum, ber nauðsyn til að leita nýrra viðráðanlegra úrræða.

Skv. niðurstöðu af könnun sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi mun varanlegt slitlag á 10 þéttbýlisstöðum á Austfjörðum í fyrsta áfanga á næstu 2–3 árum kosta um 130–150 millj. kr. Var gert þar stórátak á s.l. ári, sem gjörbreytir búsetuskilyrðum á þessum stöðum. Á Vestfjörðum hafa samtök sveitarfélaga þegar gert kostnaðaráætlun í 7 sveitarfélögum um varanlega gatnagerð. Er heildarkostnaður nálægt 100 millj. kr. í Suðurlandsáætlun er gert ráð fyrir, að varanleg gatnagerð í 8 kauptúnum Suðurlands muni kosta um 430 millj. kr. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi tóku saman kostnaðaráætlun um varanlega gatnagerð í öllum kauptúnum og kaupstöðum á Vesturlandi, og er kostnaður áætlaður 450 millj., en lengd ófullgerðra gatna á þessum stöðum á Vesturlandi er um 43 km. Upplýsingar er ég ekki með frá Norðurlandi. Rétt er að geta þess hér, að verðmiðun við þessa útreikninga er talsvert mismunandi, og hafa þessar tölur vafalaust hækkað stórlega vegna aukins tilkostnaðar.

Á öllum fundum sveitarstjórnarmanna hafa þessi mál verið eitt aðalviðfangsefnið, hvernig hægt væri að fjármagna svo miklar framkvæmdir á sem skemmstum tíma, vegna þess að framkvæmdin þolir ekki bið, sbr. kröfurnar um hollustuhætti og bættan aðbúnað við fiskvinnslustöðvar í landinu. Öllum er ljóst, að ekki er hægt að framkvæma slíka gatnagerð með lánsfé nema að mjög litlum hluta, enda erfitt að fá slíkt lán. Tekjustofnar sveitarfélaga, þ.e. útsvör, aðstöðugjöld, fasteignaskattar, holræsagjöld og þéttbýlisvegafé, duga hér skammt.

Þegar frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga, — nr. 8 frá 1972, var samið, gerði n., er samdi frv., till. um heimild fyrir sveitarfélögin að leggja á sérstakan fasteignaskatt til að standa straum af ákveðnum framkvæmdum tengdum fasteignum, svo sem gatna-, holræsa- og vatnsveituframkvæmdum og sorphreinsun. Var gert ráð fyrir, að sveitarfélög legðu fram sérstaka framkvæmdaáætlun um slíkar framkvæmdir, sem félmrn. kannaði, áður en leyfi til að leggja á slíkan aukafasteignaskatt yrði gefið. Þetta ákvæði var sett í frv. skv. ósk Sambands ísl. sveitarfélaga. En þegar frv. var lagt fyrir Alþingi, var þetta ákvæði fellt niður. Veit ég, að sveitarstjórnarmenn almennt töldu miður, að svo skyldi fara, en telja heimild til innheimtu gatnagerðargjalds, eins og hér er gert ráð fyrir, koma að góðum notum.

Sveitarstjórnarmenn vilja, að sveitarfélögin fái stóraukin framlög úr Vegasjóði til gatnagerðar. Reglur um úthlutun þéttbýlisfjár verði endurskoðaðar með tilliti til íbúafjölda og ófullgerðra verkefna í gatna- og vegagerð viðkomandi staða. Hluti ríkisins í lagningu varanlegs slitlags þjóðvega, sem liggja um kaupstaði og kauptún, verði stóraukinn og sveitarfélögin fái heimild í lögum til að taka gatnagerðargjöld. Sementsverksmiðja ríkisins fái heimild til að lána sveitarfélögum sement til gatnagerðar á kostnaðarverði til nokkurra ára.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um gatnagerðargjöld, er flutt til að auðvelda sveitarfélögunum að leysa þetta verkefni og fá í lög heimild til að taka gatnagerðargjöld, en slík heimild er ekki til í lögum að öðru leyti en því, er fram kemur í 2. mgr. 30. gr. skipulagsl., nr. 19 frá 1964, en gjaldtaka sú, er þar um ræðir, er eingöngu bundin við land í einkaeign og breytt í byggingalóðir. Er raunar lítt skiljanlegt, hvers vegna þetta hefur ekki verið sett í lög, eins og þörfin er knýjandi fyrir þennan tekjustofn.

Nokkrir kaupstaðir og kauptún hafa á undanförnum árum tekið upp gatnagerðargjöld í sambandi við nýbyggingar, en án lagaheimildar. Er þetta drjúgur tekjustofn þessara sveitarfélaga. Sem dæmi má nefna, að í Reykjavík er lágmarksgjald fyrir einbýlishús 1973 396200 kr. Í Garðahreppi er fast gjald 152 þús. kr. fyrir einbýlishúsalóð, auk þess 177 kr. pr. ferm. lóðar. Í Hafnarfirði er þetta gjald 312 þús. kr.

Gatnagerðargjöld af leigulóðum munu fyrst hafa verið tekin upp í Kópavogi, en hafa verið innheimt af leigulóðum, sem úthlutað hefur verið í Rvík eftir 15. júlí 1958. Gjald eins og t.d. það, sem krafið er í Reykjavík, er ekki skattur, heldur samningsbundin greiðsla í sambandi við úthlutun leigulóða.

Gatnagerðargjaldið er fyrst og fremst hugsað sem endurgjald fyrir þann kostnað eða hluta þess kostnaðar, sem er við að gera lóð byggingarhæfa. Hér er um að ræða kostnað við að gera götuna, þ.e. að endurbyggja götuna með tilheyrandi lögnum fyrir varanlegt slitlag. Þetta á við um 1. og 2. gr. frv., sem yrði þá lögfest fyrir öll sveitarfélög í landinu.

Í mörgum sveitarfélögum er ástandið þannig, að ekki hefur verið fjármagn til að undirbyggja götur, áður en byggingar rísa, og varanlegt slitlag á þessar götur ekki heldur til. Má öllum vera ljóst, hvernig er að búa við slíkt ástand árum saman. Til að auðvelda slíka framkvæmd er í frv. þessu lagt til, að sveitarstjórn fái heimild til að innheimta sérstakt gjald, sem verja skal til framkvæmda við að setja bundið slitlag á slíkar götur í sveitarfélögunum og til lagningar gangstétta, enda er slík gjaldtaka bundin því skilyrði, að ekki hafi áður verið innheimt gatnagerðargjald af viðkomandi fasteign.

Að mati sveitarstjórnarmanna er mjög aðkallandi að fá þessa heimild, þar sem slíkt gjald mundi ekki aðeins flýta fyrir framkvæmdum við viðkomandi götur, heldur einnig jafna að nokkru það misræmi, sem er í því að innheimta gatnagerðargjald hjá þeim, sem byggja nýbyggingu ekki aðeins við nýjar götur, heldur einnig við götur, sem eru ófullgerðar og áður byggt við án gjaldtöku. Heimilt er að dreifa innheimtu gjalds þessa á fleiri en eitt ár. Ætti það að létta greiðslubyrði húseigenda. Sum sveitarfélög hafa gert tilraun til að láta fara fram atkvgr. meðal íbúa tiltekinnar götu um aukagjaldtöku vegna varanlegs slitlags á götuna. En árangur hefur orðið lítill, þar sem alger samstaða hefur ekki náðst. Getur slík aðferð einnig skapað ósamræmi í framkvæmdum.

3. gr. frv. bætir úr þessu ástandi verulega og kemur til móts við eðlilegar óskir sveitarstjórnarmanna og verður til þess, að hægt verður að hraða verulega að gera ófullgerðar götur, sem búið er að byggja við áður, fullgerðar með varanlegu slitlagi. En eins og áður hefur komið fram, hefur þetta ekki verið heimilt og valdið leiðindum, þar sem reynt hefur verið að fara samningaleið.

Ég vil þó taka fram„ að þótt þetta frv. verði að lögum, sem ég veit, að sveitarstjórnarmenn í landinu óska, leysir það ekki nema að litlum hluta fjárþörf sveitarfélaga til þess að gera varanlega gatnagerð að veruleika á næstu árum. En ég fullyrði, að það auðveldar þetta átak. Sveitarstjórnir ákveða sjálfar, hvað þær treysta sér til að hafa þessa gjaldtöku mikla og eins á hve mörg ár þær dreifa gjaldinu. Ég veit, að sveitarstjórnir munu vanda til um þessa ákvörðun og ekki ganga lengra í gjaldtöku en gjaldþol gjaldenda og framkvæmdaþörf frekast leyfir. Ég fullyrði, að íbúar þéttbýlisstaða úti um allt land, sem búa við lélegt ástand og jafnvel ófremdarástand hvað varðar varanlega gatnagerð, eru fúsir til þess að taka á sig sérstakt gatnagerðargjald í eitt skipti fyrir öll, ef það verður til þess, að þessi aðstaða verður til staðar. Það verður því að teljast eðlileg krafa íbúa allra þéttbýlisstaða, hvar sem er á landinu, að búa við hreinlegt umhverfi, og varanlegt slitlag á götur er frumskilyrði þess, að svo geti orðið. Löggjafarvaldið og stjórnvöld verða því að gera allt, sem hægt er, til þess að gera þeim sveitarfélögum, sem standa höllum fæti við framkvæmd þessarar frumskyldu, mögulegt að hefja varanlega gatnagerð, sem um munar. Þetta frv., ef að lögum verður, getur orðið til að auðvelda framkvæmdir. Ég treysti því á skilning hv. alþm., að þeir styðji þetta frv., svo að það verði að lögum á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.