26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér gerist það, að tveir hv. þm. stiga í ræðustól og bera borgara utan þingsins mjög alvarlegum sökum. Hv. 2. þm. Reykv. tekur hér til máls og er að svara þeirri ræðu, þegar bjalla og fundarhamar hæstv. forseta dynur án afláts, án þess að hv. 2. þm. Reykv. fái fullkomið tækifæri til þess að gera aths. við það athæfi, sem hér er haft í frammi. Ég verð að segja, að ég tel það höfuðnauðsyn, að hæstv. forseti beiti valdi sínu á þann veg, að það sé ekki liðið í sölum Alþingis, að menn séu bornir jafnalvarlegum sökum og hv. þm. hafa hér gert, án þess að við það séu gerðar aths. af hálfu annarra þm.

Vegna þess að það hefur komið fram í blöðum, að gerð hefur verið skrá í sambandi við margnefnda undirskriftasöfnun Varins lands, bregðast hv. þm. Alþb. ókvæða við af ótta við, að þessi skrá verði afhent einhverjum í annarlegum tilgangi. Hv. þm. Ragnar Arnalds tekur jafnvel fram, að eitthvert ákveðið sendiráð geti haft gagn af slíkri skrá. Ég er ekki alveg viss um, hvaða sendiráð hv. þm. á við eða hvort um væri að ræða yfir höfuð, að sendiráð fremur en einhver annar gæti haft gagn af slíkri skrá, ef um nokkurt gagn væri þar þá að ræða.

Hv. þm. bendir á, að það sé sjálfsagt að eyðileggja öll gögn, eins og þessa skrá, sem umrædd er. Síðar í ræðu sinni nefnir hann, að sjálfsagt sé að krefjast þess, að skráin verði afhent. Af hverju? Er ekki hið fyrra fullt eins eðlilegt? Til hvers ætlar hv. þm. að nota þessa skrá? Af hverju vill hann fá hana afhenta? (Gripið fram í.) Hv. þm. óskaði eftir því, að þannig yrði með skrána farið. En sannleikurinn er sá, að það liggur í augum uppi, að þessir fáu menn, sem að undirskriftasöfnuninni standa, hafa ekki mannafla til þess að handvinna slíkt verkefni eins og það að kanna, hvort allar undirskriftir séu réttar. Þess vegna er gripið til notkunar tölvunnar í hagræðingarskyni. Þetta virðist liggja alveg í augum uppi.

Ef hv. þm. er rórra við að vita það, tel ég mér heimilt að segja, að þær skrár, sem til eru í sambandi við þessa undirskriftasöfnun, verða ekki afhentar til notkunar í neinu pólitísku skyni. Þær eru aðeins gerðar til þess að kanna, hvort um samviskusamlega unnið verk er að ræða, hvort um er að ræða það, að aðrir kunni að hafa tekið þátt í undirskriftasöfnuninni heldur en heimilt er eftir þeim reglum, sem upphaflega voru settar í sambandi við aldursmark, og einnig, að þar komi ekki oftar fyrir en einu sinni sama nafnið. Tilgangurinn er m.ö.o. sá að viðhafa þarna samviskusamleg vinnubrögð. Og í tilefni af því, að menn vilja hafa það satt og rétt, sem þarna er skrifað, og vinna það samviskusamlega, þegar almenningur í landinu er spurður ráða, eru viðbrögð hv. alþm. úr röðum Alþb. þau, að mönnum, sem að því standa að spyrja almenning í landinu álits, er borið það á brýn að ætla að nota þessar undirskriftir e.t.v. í þeim tilgangi að svíkja það fólk, sem ritað hefur undir þá viljayfirlýsingu, sem þar er um að ræða.