27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Flestir munu vera sammála um, að nauðsynlegt sé að greiða niður olíu til húsahitunar. Þetta frv. er flutt til þess að fá það lögfest fyrir n.k. mánaðamót, til þess að söluskattur, sem hefur gengið í Viðlagasjóð, falli ekki niður við næstu mánaðamót. Var rætt um það í n., sem skipuð var þm. úr öllum flokkum, að þetta væri nauðsynlegt. Hæstv. viðskrh. hafði afhent uppkast að frv., þar sem gert var ráð fyrir framkvæmdinni á olíuniðurgreiðslunni. En menn voru ekki alveg sammála um það frv. og töldu, að það væri vandasamt verk að ákvarða framkvæmdina, að til þess gæti ekki unnist tími fyrir n.k. mánaðamót. Þess vegna er þetta frv. flutt, sem ætti ekki að valda neinum ágreiningi, og ákveðið samkv. 2. gr. þessa frv., að því fé, sem kemur í olíuniðurgreiðslusjóð, skuli ráðstafað samkv. sérstökum lögum, sem verða væntanlega afgreidd á hv. Alþ. í næsta mánuði.

Það er eitt orð í l, gr. frv., sem getur valdið misskilningi. Í þeirri n., sem ég áðan minntist á, gat ég um bréf, sem Sjálfstfl. skrifaði hæstv. ríkisstj. um nauðsyn þess að gera ráðstafanir vegna hinnar miklu hækkunar, sem orðin er og fram undan er á olíu. í því bréfi var ekki talað aðeins um íbúðarhúsnæði, heldur var á það minnt, að það gæti komið til greina, að nauðsyn bæri til að jafna einnig aðstöðuna í sambandi við atvinnureksturinn. Nú vil ég, vegna þess að samkomulag varð sérstaklega gott í fyrrnefndri nefnd og hæstv. viðskrh. kom til fundar í henni, spyrja hæstv. viðskrh., hvort það sé ekki hans álit, að þótt frv. verði afgreitt óbreytt, sé eftir sem áður opin leið, þegar frv. verður samíð um ráðstöfun á olíusjóðnum, að taka til athugunar niðurgreiðslu á olíu til annars húsnæðis en íbúða. Ef hæstv. viðskrh. væri á svipaðri skoðun og ég í þessu efni, tel ég enga ástæðu til að flytja brtt. við frv.