27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hef áður lagt orð í belg varðandi þetta mál, þannig að ég skal nú stytta mál mitt mjög. Engu að síður eru tvö, þrjú atriði, sem ég vil víkja nánar að.

Það, sem komið hefur fram hér í umr. og blasir við hverjum þm., er sá ágalli, að ekki skuli fylgja þessari tekjuöflunarleið frv., sem greini frá því, hvernig ráðstafa skuli fénu, því að afstaða mín og ýmissa annarra þm. mótast af því, hvernig ráðstöfun fjárins er háttað. Ég vil benda á tvennt í því sambandi, sem ég tel algera forsendu þess, að ég geti stutt svona fjáröflunarleið. Það er í fyrsta lagi, að helmingurinn af söluskattsstiginu, sem yrði þá væntanlega 350–400 millj., færi í stofnsjóð, sem sveitarfélögin hefðu aðgang að til þess að leita að öðrum orkugjafa en olíu til að kynda hús sin. Þetta tel ég algerlega nauðsynlegt til þess að velta ekki vandanum á undan sér, heldur ráðast að vandanum með raunhæfum aðgerðum. Hæstv. forsrh. vék að þessu, þegar málið var siðast til umr., og virtist mér hann hafa mjög svipaða skoðun á þessu.

Ef af þessu yrði, kæmi væntanlega hálft söluskattsstig til úthlutunar, þ.e.a.s. til ráðstöfunar til þeirra, sem kaupa olíu. Þar er vandinn sá, að ekki spretti upp í kringum þetta alls konar skrifstofubákn, einhvers konar umsýsla, sem kaffæri þessa hluti og erfitt verður síðar meir að losna við. En það er alltaf einkenni í okkar þjóðfélagi, að það spretti upp alls konar skrifstofubákn, sem ógerningur er síðan að losna við. Og þess vegna hef ég við nánari íhugun talið heppilegustu leiðina að afhenda olíufélögunum þessa upphæð, þannig að þau seldu olíuna beint til neytenda á því verði, sem niðurgreiðslan segði til um, þannig að þá þyrftu ekki neytendur síðar meir að greiða hærra fyrir olíuna, en síðan koma með nótur og alls konar kröfugerð til annarra um niðurgreiðslur. Þetta væri langauðveldasta leiðin, og ég hygg, að það mætti komast hjá verulegum kostnaði, ef þessi leið væri farin. En að sjálfsögðu þarf að hafa eitthvert aðhald með olíufélögunum, að þar verði ekki nein misnotkun á. En m.ö.o., ég tel meginatriði, að þessu fylgi kostnaðarlaus umsýsla og ekki skrifstofubákn.

Ég get tekið mjög undir margt af því, sem hv. 9. landsk. þm. sagði, hvað varðaði það, hvernig þetta mál bæri að. Mér virðist þess gæta verulega, og það kom fram í máli hæstv. viðskrh., að þetta söluskattsstig mætti undir engum kringumstæðum falla niður úr innheimtu. Hérna komum við nefnilega að dálítið merkilegu máli. Hvergi má slaka á skattheimtunni. Og þetta er að vissu leyti angi af miklu stærra máli, þeirri söluskattsástríðu, sem gripið hefur núna stjórnarliðið og óvíst er, að séð sé fyrir endann á.

Við skulum gera okkur ljóst, að verðbólgan er vaxandi í þjóðfélaginu og þessi háttur, að innheimta söluskatt og dreifa honum síðan til neytenda, eykur enn á verðbólgu. Hér hefði verið miklu skynsamlegra að fara þá leið, sem ég hef margsagt, að skera niður fjárlög um 500 millj. og leggja til þessa olíusjóðs. Á það hefur verið margbent og m.a. síðast af hæstv. forsrh., að þá þyrftu að koma fram beinar till. um það, hvar ætti að skera niður, og þetta er satt og rétt. Ég hygg, að það væri ráð fyrir þingflokkana að setjast nú niður og koma sér þá saman um, hvar ætti að skera niður. Ég vil benda á, að mér virðast sumar fjárveitingarnar í fjárl vera af því tagi, að það sé ekki mannafli til þess að sinna ýmsum framkvæmdum. Fjárveitingarnar eru á sumum liðum í fjárl. meiri en mannaflinn beinlínis heimilar. Og það er alveg sama, hvað menn berja höfðinu lengi við steininn, það kemur að því, að við þurfum að fara að breyta um efnahagsstefnu. Við þurfum að fara að snúa við hlutunum. Þess vegna hefði verið skynsamlegast, að allir þingfl. hefðu sest niður, borið sameiginlega ábyrgð á þeirri óvinsælu ráðstöfun, sem er að skera niður, og láta það fé fara þá í þennan olíusjóð, og það mundi að mínu viti horfa til þess að dempa niður verðbólguna. En minn ágæti og elskulegi vinur, hæstv. fjmrh., hefur nú ekki mikinn skilning á því.

M.ö.o.: sú hugmynd að greiða niður olíuverð, eins og nú háttar, er fullkomið sanngirnismál, og til þess þarf að afla fjár. Ég hefði kosið, að það hefði verið með öðrum hætti og þannig, að um leið hefði verið hægt að ráðast að verðbólgunni með því að skera niður liði á fjárl. En því miður er aðferðin alltaf sú sama, að hún örvar verðbólguna, sem fyrir er í þjóðfélaginu, og því miður virðist núv. stjórn ekki gera sér ljósa grein fyrir þeirri þróun, sem á sér stað í efnahagsmálum, og svo einn góðan veðurdag síðla sumars standa hér upp íslenskir stjórnmálamenn og segja: Nú er allt í voða, nú þarf gengisfellingu, nú er um ekkert annað að ræða. — Og allir hjartanlega sammála; ekkert til nema gengisfelling. Þannig þróast málin. Og þá er engin önnur leið til, hvort sem það sitja hægri eða vinstri menn í stjórn á Íslandi, ekkert til nema gengisfelling, því miður.