27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er orðið svo, að venjulegir þm. þora varla að koma hér upp í pontuna, þegar úrvalsskemmtikraftar okkar hafa verið hér spriklandi.

Ég get sagt það af alllangri reynslu, að þess munu vera fá eða engin dæmi, að flokkar eða einstakir þm. hafi reynt að panta sjónvarps eða útvarpsmenn hingað, og ég leyfi mér að fullyrða, að ef einhver reyndi það, mundi það hafa þveröfug áhrif á starfsfólkið á fréttastofunum. Varðandi s.l. mánudag eða þriðjudag, þá voru hér engar sjónvarpsvélar, sem ég gat séð a.m.k. Hins vegar var hér fréttamaður frá sjónvarpinu á þriðjudaginn, ekki með myndatökumenn með sér, og ég ræddi við hann um allt annað en kemur við Alþingi. Það kom í ljós, að erindið, sem hann átti hingað, var að panta viðtal við forsrh., sem var þá nýkominn til landsins og hafði að sjálfsögðu það fréttnæmasta að segja.

Annars ætlaði ég ekki að skipta mér af þessu frekar en að segja, að það eru til dæmi um það, að alþm. hafi hringt í fréttastofurnar eftir á og kvartað um meðferð. Það eru ekki mörg ár síðan einn ágætur alþm. sat við útvarpið með stoppúr til að mæla það, að þar væri jafnmikið gert fyrir alla flokka. En ég hygg, að þetta séu undantekningar og fréttastofnanir Ríkisútvarpsins ráði því sjálfar, hvað þær gera.

Meginástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú að taka undir þau orð, sem hæstv. forseti Sþ. sagði um vinnubrögð varðandi fréttir, og þann vilja hans og hinna forsetanna, að fulltrúar þessara fréttamiðla komi hér sem mest. Það er að vísu alltaf fulltrúi frá Ríkisútvarpinu í húsinu, og hann sendir sínar skrifuðu fréttir bæði á fréttastofu sjónvarps og hljóðvarps, og síðan vinnur sjónvarpið eftir því. En ég vildi gjarnan fá upplýst og fá það staðfest, að fréttamenn hljóðvarpsins og sjónvarpsins hafi rétt til að fá afnot af segulböndunum af ræðum þm. án þess að þurfa að spyrja um leyfi hjá einstökum þm. í hvert og eitt skipti. Við liggjum allir undir meiri eða minni ákærum um, að við breytum og fölsum afskriftir af ræðum okkar, og það væri ágætt, ef það lægi fyrir í eitt skipti fyrir öll, að þessum fréttamiðlum er heimilt að nota hluta af segulböndunum. Við veitum þá heimild í því trausti, að þeir fari vel með hana.