31.10.1973
Neðri deild: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég býð hv. 7. þm. Reykv. velkominn í tölu úrvals íhaldsmanna. Hann talaði hér og fór með afskaplega svipað mál og við hv. 1. þm. Sunnl., að því er varðaði málið, sem hér er á dagskrá. Hann benti á, að það væri rétt, að þessi stofnun, þ. e. Hagrannsóknastofnunin, starfaði sér, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér er. Hann var viðskrh., þegar prívatfyrirtækið Efnahagsstofnunin var við lýði. Hann var þá í ríkisstj., studdur af hv. þm. Benedikt Gröndal, sem kannske finnur einhverja hvöt hjá sér til þess að koma einhverjum skammaryrðum til hv. 7. þm. Reykv. hér á hv. Alþ. undir rós, þegar hann er að skamma okkur hv. 1. þm. Sunnl.

Ég skal láta nóg sagt um þetta mál. en ég vil aðeins víkja efnislega að því, sem hv. þm. Benedikt Gröndal sagði hér. Að vísu gagnrýndi hann ekki mitt mál með neinum rökum. Ég hafði bent á, hvað hefði verið tekið af Framkvæmdastofnuninni. Það hefði verið tekið af henni hagrannsóknadeildin, eða ætti að taka af henni með þessu frv. Það væri yfirlýst stefna hæstv. fjmrh. að taka af henni framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj., og það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi, að það hefði verið gert og fært í aðra stofnun. Ég benti á það með rökum, að stofnunin sjálf kvartaði yfir því, að einstakir ráðherrar gengju fram hjá henni, og spurði: Hvað er eftir? Hv. þm. hellir sér hér yfir mig og segir, að byggðamálin séu eftir. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að hv. 1. þm. Vestf. — hann situr í stjórn þessarar stofnunar — flutti á síðasta þingi till. til þál. um byggðamál. Í grg. þeirrar till. er bent á það, að Framkvæmdastofnunin hafi einungis einstaka þætti byggðamálanna á sinni könnu, og sú till. gekk út á það að setja á laggir sérstaka nefnd, vegna þess að það væri ekkert „apparat“ til í þjóðfélaginu, sem hefði „byggðamálin í heild“ á sinni könnu. Ég var ekki með því að spyrja, hvað sé orðið eftir af Framkvæmdastofnuninni, að tala um, að allir þeir þættir, sem hún hefði núna, yrðu lagðir niður. Hvernig var hægt að leggja þann skilning í mitt mál? Á hinn bóginn er mikil spurning, þegar búið er að plokka allar þessar fjaðrir af þessari stofnun, eins og ég hef hér bent á með rökum, að gert hafi verið, hvort ekki þurfi þar verulegar skipulakshreytingar. Ég á bágt með að skilja, þegar menn halda fram málflutningi eins og þessum. Það er búið að sýna fram á, hvað búið er að breyta þessu „apparati“ mikið, Framkvæmdastofnun ríkisins. Það er búið að sýna fram á það með rökum, og þá koma menn hér og líta á þetta eins og einhverja heilaga kú, þarna sé um að ræða hlut, sem sé gersamlega heilagur og megi ekkert hrófla við, og það sé spurning um það, hvort menn séu íhaldssamir eða ekki, hvort slíkri stofnun sé breytt, eftir að búið er í framkvæmd að plokka þessar fjaðrir af henni.

Ég get vel tekið undir það með hv. þm. Benedikt Gröndal, að ýmsir sjálfstæðismenn — og flestir sjálfstæðismanna sjálfsagt — vilja vinna af raunsæi að áætlanagerð, og það vil ég líka. Ég tel mig kannske fremstan í flokki af þessum mönnum. En ég kannast ekki við það, að gagnrýni sú, sem ég hef hér borið fram, sé í neinni mótsögn við það, hún sé þannig, að það sé hægt að bendla við hreina íhaldsmennsku. A. m. k. hef ég aldrei skilið orðið íhaldssamur þannig í íslensku, að það séu þeir menn, sem vilja breyta. En ef þeir, sem ekki vilja breyta neinu og líta á ástandið eins og það er gott og blessað, eru kallaðir róttækir, þá er ég farinn að skilja íslenskt mál eitthvað skakkt.