07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

249. mál, Landsvirkjun

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt sem liður í fjármögnunaráætlun Sigölduvirkjunar, sem samþ. hefur verið af eignaraðilum, ríkinu og Reykjavíkurborg, og það er liður í þeirri fjármögnunaráætlun, að ríkissjóður láni Landsvirkjun virkjunarlán að upphæð 350 millj. kr. Láninu er ætlað að standa að baki stofnlánum annarra aðila til virkjunarframkvæmdanna, þannig að árlegar greiðslur afborgana og vaxta af því verði háðar nettótekjum Landsvirkjunar að frádregnum öðrum lánagreiðslum á hlutaðeigandi fjárhagsári Landsvirkjunar. Auk þess er gert ráð fyrir, að greiðslur afborgana og vaxta af láninu hefjist ekki fyrr en að virkjunarframkvæmdunum loknum, og er þannig létt greiðslubyrði Landsvirkjunar, meðan á þeim stendur. Þetta er sami háttur og á var hafður í sambandi við Búrfellsvirkjun. Þá var veitt heimild til slíkra lánveitinga, og nú er lagt til, að bætt verði við þá heimild.

Það, sem farið er fram á í frv., er annars vegar það, að ríkisstj. verði heimilt að ákveða, að ríkissjóður láni Landsvirkjun allt að 350 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. ákveður, enda standi slíkt lán að baki stofnlánum annarra aðila til virkjunarframkvæmdanna. Í annan stað er lagt til, að ríkisstj. fái heimild til að taka lán og endurlána Landsvirkjun í þessu skyni. Ég held, að óþarft sé að fara fleiri orðum um þetta frv., og vil vænta þess, að hv. alþm. gefi því verulegan framgang hér á Alþ.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2 .umr, og hv. iðnn.