07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

247. mál, skattaleg meðferð verðbréfa

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, fjallaði hér um mistök þau, sem átt hafa sér stað við undirbúning þess frv., sem hér um ræðir, og kvað þar upp nokkuð harða dóma og óvægilega. Ég verð að seg,ja það, að mér sýnist, að hann sé farinn að leita að ansi smásmugulegum tilefnum til þess að kveðja sér hljóðs og halda uppi árásum á ríkisstj.

Út af fyrir sig ætla ég ekki að fara að afsaka hér þau mistök, sem orðið hafa við gerð þessa frv., enda þótt flestum muni ljóst, að slík mistök geta alltaf orðið. En ég vil láta það koma skýrt fram, að sama daginn og fjh: og viðskn. fjallaði um frv., barst mér fyrir hennar hönd bréf frá rn., þar sem óskað var, að gerð yrði sú leiðrétting á frv., sem hér um ræðir, þannig að þeim í rn. var raunverulega orðið l,jóst, um það bil sem n. hóf störf, að mistök höfðu átt sér stað, og voru þegar komnir af stað að koma fram leiðréttingu. Sú skýring fylgdi þessum mistökum, að frv. hefði verið sent ýmsum aðilum til umsagnar, ýmsum ríkisstofnunum, og þessir aðilar hefðu gert breytingar á frv., sem hefðu síðan eitthvað skolast til og villst með, þegar frv. var sent þinginu. En að menn standi síðan hér upp og kalli þetta herfileg mistök núverandi ríkisstj., er auðvitað eins og hver önnur endileysa, því að ég get næstum því leyft mér að fullyrða, að hæstv. fjmrh. er ekki enn búinn að uppgötva, að þessi mistök hafi átt sér stað, enda hefur hann ekkert um málið fjallað og málið verið á vegum starfsmanna hans. Er því alveg efnislega séð út í hött að gera hann eða ríkisstj. ábyrga fyrir því, sem þarna hefur gerst.

Hv. þm. kvartaði mjög yfir því, að þetta ylli töfum og truflunum á þingstörfum. En ég verð að minna hv. þm. á, að það er nú okkar hlutskipti að setja löggjöf á ýmsum sviðum, og þá verður hann eins og aðrir að axla þá byrði að verða fyrir ýmiss konar töfum og truflunum, meðan verið er að ljúka því verki hverju sinni.

Ég vil svo að lokum taka það fram varðandi ríkisskuldabréfin, sem hv. þm. nefndi hér áðan og taldi, að óeðlilegt væri að bundið væri í l., að þau væru undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu, að þetta hefur verið gert 11 sinnum í löggjöf á undan þessari, ekki aðeins af þeim stjórnarherrum, sem nú sitja í valdastólum, heldur einnig þeim, sem áður sátu þar og eru hv. þm. kannske eitthvað hugleiknari en þeir, sem nú eru í valdastólum. Þetta hefur sem sagt verið gert í 11 ár í röð, án þess að yfir því væri kvartað. En rétt er að taka fram, að þetta hefur aldrei verið framkvæmt í reynd, svo að ekki virðist þetta skipta ýkja miklu máli.