11.03.1974
Efri deild: 75. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

201. mál, kosningar til Alþingis

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr. og raunar við upphaf þessarar umr., gat ég því miður ekki verið viðstaddur til að gera grein fyrir skoðun utanrrn. á efni frv. Ég vil, þótt seint sé, koma á framfæri aths. rn., áður en frv. fær endanlega afgreiðslu hér í hv. d., en aths. fara hér á eftir.

Frv. er samið af dómsmrn., en það rn. hefur borið undið utanrrn. till. um hið nýja fyrirkomulag á utankjörfundarkosningum erlendis. Aðalbreytingin, miðað víð eldri reglur er sú, að fela á utanrrn. að ákveða og auglýsa fyrir hverjar kosningar, hvar utankjörfundaatkvgr. fer fram hjá kjörræðismönnum. Ekki er lengur sett að skilyrði, eins og áður var, að kjörræðismenn þurfi að vera íslenskir borgarar eða af íslensku þjóðerni og mæla á íslenska tungu. Utanrrn. hefur lagst gegn því, að þessi leið verði farin, og eru ástæðurnar fyrst og fremst þær, að mjög erfitt getur orðið að ákveða, hjá hvaða kjörræðismönnum utankjörfundaratkvgr, eigi að fara fram, og auk þess er mikil hætta á formgöllum, sem kunna að eyðileggja atkv. Segja má, að reglurnar séu ekki flóknar, þ.e. gerðabók, vitundarvottar o.s.frv. En fyrir útlendinga er ekki eins auðvelt að átta sig á þeim og ætla mætti, eins og komið hefur í ljós varðandi nokkra þá kjörræðismenn, sem íslensku tala. Og loks er þess að gæta, að eins og segir í aths. með lagafrv., eru kjörræðismennirnir ólaunaðir og hafa ekki skyldu til að vera alltaf til taks á skrifstofu sinni. Að vísu er sá varnagli sleginn í frv., að utanrrn. auglýsi að höfðu samráði við hlutaðeigandi kjörræðismenn, hvenær atkvgr. mætti fara fram hjá þeim. Í reynd yrðu væntanlega ákveðnir fáir dagar til slíks og tiltölulega stuttur tími hvern dag. Hætt er við, að þetta verði talið ófullnægjandi. Í stað ofangreinds fyrirkomulags hefur utanrrn. lagt til, að fylgt verði í stórum dráttum eftirfarandi reglum:

1. Kjósandi erlendis óskar eftir því við kjörstjórn í bréfi eða símskeyti, að hún sendi honum kjörseðil.

2. Kjörstjórn athugar, hvort viðkomandi aðill er á kjörskrá, og sé svo, sendir hún honum kjörseðil í ábyrgðarpósti ásamt leiðbeiningum.

3. Kjósandi útfyllir kjörseðilinn, lokar honum, límir hann aftur og fer með hann til íslensks ræðismanns, þ.e. hvaða ræðismanns Íslands sem er, og sannar með vegabréfi sínu eða á annan hátt, hver hann er. Við kjörseðilinn er fest blað, þar sem prentaður er texti, sem að mestu leyti er samhljóða því, sem nú er á utankjörfundarseðlum. Helstu breytingar miðað við núverandi fyrirkomulag eru þær, að ekki yrði krafist vitundarvotta, enda sýnist þess ekki full þörf, og ekki yrði beinlínis um kjörstjóra að ræða, er færi gerðabók o.s.frv., heldur mundi ræðismaður aðeins staðfesta, að um rétta undirskrift sé að ræða. Að fengnu vottorði ræðismanns setur kjósandi atkvæðaseðilinn í þar til skilið umslag, er hefur sama númer og kjörseðillinn, og kemur því til réttrar kjörstjórnar í pósti eða á annan hátt. Hann verður sjálfur að sjá um sendinguna, en ekki ræðismaðurinn.

Með þessu fyrirkomulagi mundu sérstakar reglur gilda um íslenska kjósendur erlendis, og útbúa yrði nýtt form kjörseðla í þessu skyni. Gert er ráð fyrir, að utankjörfundarkosning innanlands og í sendiráðum Íslands yrði með sama sniði og nú. Verði þetta fyrirkomulag ofan á, er hugsanlegt að heimila íslenskum kjósendum erlendis að fá undirskrift sína undir kjörseðil staðfestan af fulltrúum annarra Norðurlanda erlendis, sendiráðum eða ræðismönnum.

Hvað snertir fyrirkomulag utankjörfundaratkvgr, erlendis, eru til fleiri leiðir en þessi. T.d. hafa Belgíumenn þá reglu, að kjósendur erlendis geta veitt manni heima fyrir í sömu kjördeild umboð til að greiða atkv. fyrir sig, Þar gildir líka sú regla, að sjúklingar og vissir starfshópar, þjónustufólk á sjúkrahúsum, við fólksflutninga, málmiðnað, fljótabáta o.fl., geta greitt atkv. bréflega, án þess að koma á kjörfund.

Utanrrn. hefur ekki hafnað algerlega þeirri aðferð við utankjörfundarkosningar erlendis, sem stungið er upp á í frv., en bendir á, að hún hefur mikla annmarka.

Þetta er sú umsögn, sem ráðuneytisstjóri utanrrn. hefur látið í té um það frv., sem hér er til umr., og ég vil láta þessar aths. koma fram, hvort sem hv. d. sér ástæðu til að taka þær til greina eða ekki. Ef mönnum sýnist þær umhugsunar- og athugunarverðar, þá er sjálfsagt hægt að sinna þeim með tvennu móti. Í fyrsta lagi er hægt að fresta afgreiðslu málsins nú, fresta 2, umr. um sinn, meðan n. tekur þessar aths. til athugunar. Í öðru lagi mætti hugsa sér að athuga umsögnina milli umr. Ég legg það algerlega í vald formanns hv. allshn., hvor leiðin verður farin, um leið og ég bið afsökunar á því, hversu seint aths. eru fram bornar. En um það er við mig einan að sakast og stafar af því, að ég var ekki viðstaddur vegna opinberra starfa í fyrra tilvikinu og veikinda í síðara tilvikinu, þegar málið hefur áður verið til umr.