14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki áttað mig á því, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson væri nú orðinn svo gamlaður eins og hann virðist vera, því að ég fór að athuga um þessa fundi í hv. félmn. Það hefur enginn fundur verið haldinn frá 11. febr. til 11. mars, a.m.k. ekki bókaður í fundargerðabókina. Ég veit ekki, hvar þeir hafa verið bókaðir. — Ef menn eiga að finna það á sér, hvenær þessir fundir séu þá versnar nú í því. Ég er ekki svo næmur, að ég geti vitað um það, hvenær hv. formaður n., Hannibal Valdimarsson, hefur fundi. En það var enginn fundur 18. febr., enginn 25. febr. eftir fundargerðabókinni og enginn 4. mars. En svo á maður að finna það algerlega á sér, hvenær fundir eru. Ég gat ekki betur heyrt en formaðurinn væri hneykslaður yfir því, að ég skyldi ekki finna það á mér. En þetta eru staðreyndir, nema þá fundirnir hafi verið haldnir annars staðar og bókaðir í aðra bók.

Ég veit ekki betur en þegar ég var á síðasta fundi í félmn., sem ég mætti á, að þá hafi verið rætt um að afgreiða þetta mál í sambandi við kaupstaðarréttindi fyrir Seltjarnarneshrepp. Þá var n. alls ekki á því að afgreiða neitt af hinum málunum, — ekki þá. Þá óskaði ég eftir því sérstaklega að senda frv. til réttarfarsnefndar og málin yrðu skoðuð öll í heild og afgreidd þannig, og ég vil endurtaka það.