21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. var undrandi á því, að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, að breyting hefði orðið á orku málum Íslands nú s.l. misseri, vegna olíukreppunnar í heiminum. Vissulega verður að taka tillit til þessa og flýta áætlunum og ráðagerðum í framkvæmdum til að afla innlendrar orku sem mest í ljósi þeirrar þróunar. En einmitt sú breyting hefur leitt í ljós, hve vanbúin hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. var að mæta þessum nýju aðstæðum. Hér er í raun og veru ekki verið að tala um nýjar framkvæmdir aðrar en þær, sem höfðu verið á dagskrá.

Hann var að geta um það hér áðan, að þegar leyfi var veitt til virkjunar Sigöldu haustið 1971 á grundvelli lagaheimildar frá Alþ. fyrr á því ári, þá hafi verið ákveðið að byggja línu norður í land, hálendislínu. Ég minntist á það í minni ræðu sem dæmi um ófullnægjandi vinnubrögð hæstv. iðnrh., að þá hefði hann lýst því yfir, að þessi lina yrði komin í gagnið 1973, að órannsökuðu máli. Þegar rannsókn var lengra komin á veg, varð ljóst, að þessi hálendislína yrði ekki byggð á þeim tíma og lengri tíma þyrfti til rannsóknarinnar einnar, hvað þá til framkvæmdarinnar.

Þá skyldi maður ætla, að undirbúningur byggðalínu væri lengra á veg kominn en raun ber vitni, ef ætlunin var að tengja orkuveitusvæðin saman. En undirbúningur þeirrar framkvæmdar er ekki betur á veg kominn en ég gat um í minni ræðu, að rannsóknir hafa að vissu leyti farið fram, en engan veginn fullnægjandi til þess, að hönnun mannvirkjanna geti hafist fyrir alvöru, hvað þá heldur gerð útboðsskilmála. Og samt er því lýst á Alþ. æ ofan í æ, að þessi lina eigi að vera komin í not á næsta ári, sem orkumálastjóri sjálfur telur litla von til.

Ég nefni sérstaklega stofnlínuna norður, bæði fyrri hugmyndir um hálendíslínu og seinni till. um byggðalínu, sem sönnun þess, að hæstv. iðnrh. hefur jafnvel ekki að því er byggingu þeirrar línu snertir staðið að málunum eins og vera bar. Hann er formælandi þeirrar línubyggingar á þessum tíma, og því ámælisverðara er í raun og veru lélegur undirbúningur hans á þessu sviði. Ég hef hins vegar talið, að þessi lína eigi að koma, en það sé ekki enn orðið tímabært og aðrir kostir séu líklega ódýrari og hagkvæmari til að bæta úr orkuskorti norðanlands.

Það er enginn ágreiningur, að samtenging á að eiga sér stað landshluta á milli, svo að raforka geti flust frá einum hluta landsins til annars. En þetta er spurningin annars vegar um öryggi og hins vegar, hvað er fjárhagslega hagkvæmast, og engar athuganir hafa í raun og veru farið fram á þessu sviði, áður en ákvörðunin er tekin um byggingu þessarar línu.

Ég vil mótmæla því harðlega, að ég sé að snúast gegn því, að úr orkuskorti sé bætt og aukin sé húshitun með rafmagni eða innlendum orkugjöfum, þótt ég vari við erlendum lántökum í svo vaxandi mæli sem fyrirhugað er, vegna þess að það ýtir undir verðbólguþróunina í landinu.

Það var stundum sagt, ég hygg af hálfu hæstv. iðnrh., a.m.k. af hálfu annarra þáv. stjórnarandstæðinga í tíð viðreisnarstjórnarinnar, að viðreisnarstjórnin þyrfti að hafa vit til þess að hraða verkefnum eftir forgangi og mikilvægi hvers þeirra um sig. Hér er auðvitað um það að — ræða að leysa málin á þessum grundvelli, að ætla — sér ekki of mikið í einu, að raða framkvæmdum — eftir mikilvægi þeirra. Það hefur ríkisstj. ekki gert, og þess vegna hefur hún tekið meira að sér en hún getur framkvæmt.

Þar sem hæstv, iðnrh. hefur farið úr þingsalnum, kann ég ekki við að halda hér áfram, því að orð mín voru honum ætluð. — En nú er hann kominn aftur. — Hæstv. iðnrh. var sammála mér um það, að við þyrftum að verja okkar eigin fjármunum til uppbyggingar í þessum efnum, en taldi hins vegar, að ég gerði mér ekki grein þessa, vegna þess að ég vildi auka einkaneysluna á kostnað samneyslunnar. Nú vill svo til, að ég hef haldið því fram,að eðlilegast væri að fjármagna framkvæmdir í orkumálum, t.d. að því er snertir hitaveitu hér á höfuðborgarsvæðinu, að því er snertir uppbyggingu raforkukerfisins á landsvirkjunarsvæðinu, með því að orkusalan og afkoma orkufyrirtækjanna, hvort sem um orkuöflunarfyrirtæki eða orkudreifingarfyrirtæki er að ræða, geti borið uppi eðlilegan hluta af stofnkostnaði slíkra framkvæmda með eigin fé. Þetta verður ekki gert, nema orkan sé seld á sannvirði. Hæstv. iðnrh, hefur ekki eingöngu dregið að veita heimild til hækkunar á raforku og heitu vatni, hæstv. ríkisstj. hefur ekki eingöngu neitað um slíkar nauðsynlegar hækkanir, heldur hefur hún og vísað þessum fyrirtækjum, bæði t.d. Rafmagnsveitu Reykjavíkum og Hitaveitu Reykjavíkur, á að taka erlend lán, sem jafnvel eru hærri en framkvæmdakostnaði nemur.

Ég held þess vegna, að hæstv. iðnrh. ætti að líta í eigin barm, áður en hann sakar aðra um að vilja ekki horfast í augu við það vandamál að afla innlends fjármagns til framkvæmda sem þessarar. Og hæstv. iðnrh. hefur meira að segja gagnrýnt mig fyrir það að vilja selja orkuna á sannvirði og ásakar mig fyrir að vera þannig að auka verðbólguna í landinu vísvitandi. Það er siður en svo, að slíkar verðhækkunarheimildir séu fram bornar í því skyni. Þær afleiðingar af verðbólgustefnu núv. ríkisstj., en ekki orsök verðbólgunnar.

Það er enginn ágreiningur um það, að við verðum að nýta innlenda orkugjafa í vaxandi mæli. Aðalatriði gagnrýni minnar er það, að við höfum ekki unnið nægilega vel að því. Hæstv. iðnrh. hefur af engu að státa í þeim efnum, því miður. Núverandi þróun mála að því er snertir olíumálið í heiminum breytir ekki því, að við hefðum þurft að vera komnir lengra á veg í þessum efnum, og eftir nær þriggja ára starf iðnrh. hefur í rauninni litið sem ekkert verið gert á þessu sviði, sem nú er hægt að benda á. Og að línubyggingunni norður hefur ekki verið unnið betur en ég hef greint frá, en þó hefur hún og hugmyndin um hana staðið í vegi fyrir því, að aðrir valkostir væru rannsakaðir og framkvæmdum jafnvel hafnað, í stað þess að unnt hefði verið að velja annan kost í þeim efnum.

Ég vil gjarnan óska eftir því við hæstv, iðnrh., að hann upplýsi Alþingi betur um það, hver niðurstaða n. þeirrar eða þeirra manna, sem hann fól athugun á samningnum við landeigendur um Svartárvirkjun, hefur orðið. Það ætti að vera unnt að upplýsa það hér á Alþingi. Þær upplýsingar hafa því miður farið fram hjá mér. Það getur verið mér að kenna, og þá getur hæstv. iðnrh. væntanlega bent mér á, hvar ég geti leitað þeirra upplýsinga.

Brtt. okkar hv. 2, þm. Norðurl. e. er sanngjörn og ætti ekki að tefja fyrir málinu, byggingu stofnlínu milli Norður- og Suðurlands, ef þær upplýsingar eru til staðar, sem þarna er farið fram á, og eru þess eðlis að renna stoðum undir framkvæmdina, en það er lágmarkskrafa, áður en í framkvæmdir er ráðist. Það má vel vera, að slíkar upplýsingar liggi fyrir í skýrslu þeirri, sem hæstv. iðnrh. hefur lofað að leggja fyrir Alþingi eftir 1 eða 2 vikur, sagði hæstv. iðnrh., og þá gefst tækifæri til að ræða mál þessi nánar.