25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég verð ekki langorður.

Það, sem ég ætlaði m.a. að ræða hér, er tal hv. þm. um það, að verið sé að gera landið varnarlaust. Í þessu felst væntanlega það, að það sé að verða sú breyting á, að hér hafi verið varnir, við tekur varnarleysi. Ég er sannfærður um það, að enginn þeirra hv. þm., sem hér hafa talað mikið um þetta, trúir því í raun og veru, að þessir rúmlega 3000 dátar á Keflavíkurflugvelli tryggi raunverulega einhverjar varnir, varnir gegn skyndiárás, sem verið er að tala um.

Það er alveg rétt, sem bent hefur verið á hér, að það vantar í þessar umr. till. sjálfstæðismanna varðandi þessi varnarmál. Ef hér eiga að vera raunverulegar varnir, blasir það auðvitað við, að þessir 3000 dátar duga ekki, þeir þurfa að vera tíu sinnum fleiri eða jafnvel 100 sinnum fleiri. Nei, þetta varnartal er að sjálfsögðu marklaust tal.

Það, sem hér blasir við, er, að það hefur verið gert samkomulag um að leysa mál, sem sannarlega hefur verið erfitt vandamál innan ríkisstj. Það standa vonir til þess, að það verði leyst farsællega, og þetta upphlaup af hálfu stjórnarandstöðunnar er að sjálfsögðu tengt því, að þegar okkur tekst að leysa þetta vandamál, stjórnarflokkunum, þá aukast horfurnar á því, að hér verði áfram við völd vinstri stjórn, og minnka vonirnar jafnframt hjá þeim, sem mæna á ráðherrastólana. Viðbrögð manna hafa svo sannarlega lýst þessu.

Hér hafa komið fram ýmsar, vægast sagt furðulegar fullyrðingar, og það er verið að tyggja upp spekina úr Morgunblaðinu, t.d. það, sem hv. þm. Ingólfur Jónsson nefndi hér áðan, að með því að láta þessa dáta fara af Keflavíkurflugvelli, væri verið að bjóða heim hættunni á því, að ræningjaflokkur gæti komið hingað í flugvél hvenær sem væri og tekið landið. Þessir dátar á Keflavíkurflugvelli hafa bægt þeirri hættu frá, skilst manni. Ef þeir fara, þá vofir hún yfir. En það eru fleiri flugvellir á Íslandi en Keflavíkurflugvöllur. Það er flugvöllur austur á Egilsstöðum. Þarf ekki að vera varnarlið þar líka? Norður á Akureyri er flugvöllur og meira að segja austur á Hellu. Þar gæti lent flugvél með 30 manns og tekið alla íbúa Hellu og haldið þeim gíslum. Ég sé ekki betur en að samkv. þessari röksemdarfærslu þurfi að dreifa herliðinu nokkru víðar um landið heldur en á Keflavíkurflugvöll. Í svona fullyrðingum felast í raun og veru till. um, að við dreifum hermönnum, bandarískum hermönnum, um landið, á alla þá staði, þar sem nokkrar líkur eru á, að flugvélar geti lent. Þyrla gæti lent hér á Austurvelli. Þurfum við ekki að hafa hér bandaríska hermenn, fylkingu bandarískra hermanna, til þess að hindra, að ræningjaflokkur ryðjist úr þyrlu hingað inn í salinn óðar en varir? Meira að segja á sléttum túnum, — svo er fyrir að þakka góðri landbúnaðarstefnu undanfarið, á sléttum túnum, — þau eru víða stór, geta lent allstórar flugvélar. Það er alveg furðulegt, hvað maður getur neyðst til þess að hlusta á mikið rugl, satt að segja, þegar verið er að ræða þessi mál hér á hv. Alþ. Ef þessu heldur áfram, ef svona röksemdafærsla eins og þessi er spunnin áfram, þá má sem sagt sýna fram á, að góð landbúnaðarstefna geti verið stórhættuleg öryggi landsins.

Ég vildi aðeins benda á þetta sem eitt dæmi um þær röksemdir, þann furðulega málflutning, sem við verðum að sitja hér undir.

Aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs er sú, að ég verð að lýsa hryggð minni yfir því, að gamalt átrúnaðargoð er fallið af stalli.

Ég minnist fundaferðar, sem ég fór einu sinni með hv. þm. Hannibal Valdimarssyni um Vestfirði. Þá var nú ekki verið að vanda þeim mönnum kveðjurnar, sem hér hafa staðið upp til að tala í sama dúr og hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Þá var hv. þm. Hannibal Valdimarsson nýlega kominn úr þeim flokki, sem hann stefnir nú i. Þetta var ógleymanlegt ferðalag, og ég hefði þá ekki haldið, að í sambandi við mál eins og þetta, stæði upp hv. þm. Hannibal Valdimarsson til þess að sama sem að láta viðsemjendur okkar í þessu máli, Bandaríkjamenn, vita, að þeir eigi ekki að taka mark á till. okkar. Að vísu hefur því verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að þetta séu ekki úrslitakostir. En í þessum málflutningi öllum er það gefið í skyn, að það séu möguleikar að tefja málið, — hvort sem það er viljandi eða óviljandi, þá er það gefið í skyn. Bandaríkjamönnum er gefið það í skyn, að það sé hægt að tefja og tefja og hv. þm. Hannibal Valdimarsson segir hér áðan: „Ætli Bandaríkjamenn megi ekki ætla sér annan meðgöngutíma, 9 mánuði, eins og það hefur tekið að koma fram þessum till?“ Það er mjög alvarlegt að segja þetta úr þessum ræðustól. Þetta er að leggja vopnin upp í hendur þeim, sem við þurfum að ræða við. Svona mundi enginn verkalýðsforingi haga sér, ef hann væri í alvöru að semja um hag síns fólks.

En ástæðan fyrir þessu er augljós, því miður. Hún er sú, að það er verið að semja um sameiningu við flokk, sem hefur allt aðra stefnu í þessum málum heldur en ríkisstj. Formaður eins stjórnarflokksins leyfir sér þess vegna að viðhafa þennan málflutning hér á Alþ., málflutning, sem er eins og ég sagði, óneitanlega í litlu samræmi við þann glæsilega málflutning, sem ég heyrði hér um árið vestur á fjörðum. Og ég vil ljúka ræðu minni með því að segja, að mér finnst það átakanlegt, að það þurfi að kosta þessa gömlu kempu allt þetta að sameinast aftur Alþfl.