29.03.1974
Neðri deild: 95. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3263 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

8. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að láta í ljós fögnuð minn yfir því, að í þriðju atrennu eru frv. um skólakerfi og frv. um grunnskóla komin til 2. umr. í hv. d. Ég ætla ekki að bæta neinu við það, sem hv. frsm. menntmn. sagði um þýðingu þessara mála. En auk þess að láta í ljós von um, að nú verði af því, að þessi mál hljóti afgreiðslu hv. Alþingis, vil ég gera að umtalsefni eitt atriði í málflutningi hv. 9. landsk. þm. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við hann einu sinni enn um það, hversu líta beri á möguleikana á því, að skólaskylda eða fræðsluskylda nái tilgangi sínum. Atriðið, sem ég tel ástæðu til, að nefnt sé hér, er, að hv. þm. kvaðst tala í nafni Sjálfstfl., þegar hann legðist gegn lengingu skólaskyldu úr átta árum í níu. Ég er að sjálfsögðu sammála því, að eðlilegt sé, að frv. um skólakerfi komi til afgreiðslu á undan frv. um grunnskóla. Í frv. um skólakerfi er í stórum dráttum fjallað um grundvallaratriði, og það er undirstaða undir frv. um grunnskóla. Hið mikla og langa grunnskólafrv., allt of langa, get ég tekið undir með mörgum, það byggist á þessu stutta og laggóða frv. um skólakerfi.

En þessi frv. hafa eins og ég gat um, tvívegis áður komið fyrir Alþingi. Í fyrsta skiptið, sem þau voru lögð fyrir, var það ekki mitt að standa í þessum stól. Þá var það fyrirrennari minn, hv. 7. þm. Reykv., og hann kom hér fram — ekki í eigin nafni, hann kom hér fram sem málsvari þáv. ríkisstj., og að þeirri ríkisstj. stóð ekki aðeins hans flokkur, Alþfl., að þeirri ríkisstj. stóð líka Sjálfstfl. Með þeim málatilbúnaði, sem átti sér stað á Alþ. 1971, þegar þessi frv. voru í fyrsta skipti lögð fram, tók Sjálfstfl. afstöðu með grundvallaratriðum þessara mála, þ. á m. lengingu skólaskyldunnar, sem nú kemur í ljós, samkv. orðum hv. 9, landsk., að Sjálfstfl. hefur snúist gegn. Þetta hefur þá gerst næstum í kyrrþey. Ég veit ekki til þess, að meðal sjálfstæðismanna hafi farið fram verulegar opinberar umr, um þetta mál. En einhver veigamikil rök hljóta að liggja til þessa. Ekki get ég ímyndað mér að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, sem á í sínum röðum hóp frábærra skólamanna og stjórnmálamenn, sem ætíð hafa látið sig fræðslumál miklu skipta, hafi flanað að því 1971 að taka afstöðu með lengingu skólaskyldunnar. Hann hlýtur að hafa einhver veigamikil rök fyrir því að skipta um skoðun, næstum í kyrrþey, á slíku höfuðatriði varðandi endurskoðun laga um undirstöðufræðsluna í landinu. Mitt erindi hingað í ræðustól var fyrst og fremst að vekja athygli á þessari staðreynd.