02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

421. mál, nám ökukennara

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. í tveim liðum til hæstv. dómsmrh. Fsp. er svo hljóðandi:

„1) Hvernig er háttað fræðslu og námi þeirra, sem taka ökukennarapróf? Eru fyrirhugaðar einhverjar breytingar á námstilhögun, og ef svo er, þá hverjar?“

Ástæðurnar fyrir því, að ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp., eru þær fyrst og fremst, að ég hef um það rökstuddan grun, að fræðsla og undirbúningur ökukennara fyrir próf sitt sé með all einkennilegum hætti, og vil ég fá úr því skorið, hvort rétt sé, að þar gangi menn undir próf án alls undirbúnings eða beinnar kennslu með t.d. námskeiði. Ef svo er, hlýtur það að teljast furðulegt, þó að vitna megi í meira próf bifreiðastjóra, sem ökukennarar þurfa áður að taka, en þá oft löngu áður.

Bifreiðaeign landsmanna fer sívaxandi, umferð eykst, fleiri og fleiri taka bílpróf og fara út í umferðina. Allt kallar þetta á betri og fullkomnari ökukennslu, strangari kröfur jafnt til kennara sem nemenda. Það er sannarlega bæði vandasamt og ábyrgðarmikið starf að búa fólk sómasamlega undir bilpróf og rík ástæða til þess, að það sé gert sem allra best. Það hlýtur því að vera frumskylda yfirvalda að sjá svo til, að ökukennarar séu undirbúnir sem allra hest undir starf sitt, en gangi ekki aðeins undir próf meira og minna óundirbúnir og próftilhögun sé vægast sagt tilviljanakennd, eins og ég hefi af sannar spurnir.

Annað atriði, sem ég hef mjög hugleitt varðandi ökukennsluna, er það, hver sá mikli munur er, sem er á ökuskilyrðum öllum úti á landi og hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er áreiðanlega vafasamt, þótt ekki sé meira sagt, að bifreiðastjóri austan af Reyðarfirði sé fullfær í umferðinni hér, svo að ég taki persónulegt dæmi. Eins er reyndar um marga bifreiðastjóra héðan úr Reykjavík, að okkur þykir þeir ekki sem bestir ökumenn úti á okkar misjöfnu þjóðvegum. Þetta og reyndar ótalmargt fleira þyrfti að taka til athugunar og endurskoðunar, því að svo mikið liggur við, að hér verði í hvívetna sem best að staðið. Um það verður hins vegar ekki deilt, að ökukennslan sjálf hlýtur að vera sú undirstaða, sem hvað nauðsynlegust er, að sé rækt sem best. Með þessu er ég síður en svo að kasta neinni rýrð á ökukennara í dag yfirleitt. Þar er eflaust margt hæfra og góðra manna. Hins vegar hlýtur að þurfa að búa þá rækilega og vel undir starf sitt og eins að þeir eigi kost á námskeiðum öðru hvoru til frekari fræðslu og þjálfunar.

Eftir að ég kom fram með þessa fsp., sendi Pétur Sveinbjarnarson framkvstj. Umferðarráðs mér yfirlit um menntun ökukennara í nágrannalöndunum, þar sem segir, að í Svíþjóð sé ökukennaranám 45 vikur, í Finnlandi 32 vikur og í Noregi 35 vikur. Í Danmörku er hins vegar um að ræða námskeið á vegum Sambands danskra ökukennara, en opinber ökuskóli er ekki til. Það er gott að hugsa til þessara talnalegu upplýsinga, þegar þessi mál eru hér rædd. Ekki síður þess vegna þykir mér sem rétt sé, að sem best komi í ljós, hvernig við búum í þessum efnum og hvað sé þar helst hugsað til úrbóta. Því er þessi fsp. flutt.