17.04.1974
Efri deild: 103. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3597 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

306. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. taldi að það mundi vera hægt, að framkvæma núgildandi lög á þann veg að lána út á eldri skip. Ég er honum sammála um þennan skilning. Ég mundi ætla, að þetta gæti staðist. Það er eins og kom fram hjá honum, að framkvæmdin hefur hins vegar verið þannig og það hefur verið litið svo á, að því er virðist hjá stjórnendum sjóðsins, að það væri ekki heimilt að lána út á eldri skip, Því er ekki önnur leið fyrir þá, sem sjá þörf á breytingu í þessu efni, heldur en að fá sett ákvæði í lög um þetta, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. sjútvrh, sagði, að það gætu verið og væru nokkur vandkvæði á framkvæmd málsins. Ég geri mér alveg grein fyrir því, að það er. Ég taldi þess vegna ekki hyggilegt að setja nánari ákvæði um framkvæmdina í frv. sjálft, heldur leggja það í vald ráðh.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita, að hæstv. sjútvrh. hefur fullkominn skilning á mikilvægi málsins, og það er ákaflega mikils atriði. Ég fagna því sérstaklega, að hæstv, ráðh. hefur lýst eindregnu fylgi sínu við þetta frv., og með því að ég veit, að hæstv. ráðh. er svo vel kynntur í þessari hv. deild, að menn hljóta að leggja mikið upp úr þessum orðum hans, þá eykur þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. von mína um það, að okkur takist að fá afgreiðslu á þessu sjálfsagða máli nú á þessu þingi.