06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

359. mál, rafvæðing sveitanna

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Um leið og ég lýsi ánægju minni með það mikla átak, sem verið er að gera í rafvæðingu dreifbýlisins, vil ég leyfa mér að koma á framfæri tveimur örstuttum aths.

Því miður hefur svo farið víða, þar sem þessi mál eru í gangi, að áætlun hefur hvergi nærri staðist. Ég get t. d. nefnt einn hrepp, sem átti von á því að fá rafmagn á síðasta sumri, en þar var fyrst verið að keyra út staura, þegar ég fór þar um í lok sept., og er mér ekki kunnugt um, að meira hafi verið gert. Annan hrepp í Vestfirðingafjórðungi get ég einnig nefnt, þar sem framkvæmd er ekki hálfnuð. En ég er ekki að álasa neinum fyrir þetta. Það eru eflaust ástæður þarna til, bæði vinnuaflsskortur og mér er tjáð einnig efnisskortur. Hins vegar sýnist mér ljóst, að ef ná á upp þeim slakka, sem þarna hefur orðið á, á næsta sumri, eins og hæstv. ráðh. gaf til kynna, þá þarf að halda mjög vel á málum. Þessi aths. er borin fram fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á, að svo verði gert. Framkvæmdir á næsta ári verður að skipuleggja sem allra hest og ekki láta dragast að panta efni eða tryggja mannskap til þeirra, eins og því miður hefur gerst.

Önnur aths. mín er sú, að því miður hefur víða orðið vart við það, að hin myndarlegustu og bestu býli hafa verið skilin út undan við slíka framkvæmd á þeirri forsendu, að fjarlægð til þeirra sé nokkuð mikil, þrátt fyrir það að hefðu þau verið tekin með, hefðu þau ekki fært meðalfjarlægð í viðkomandi sveitarfélagi yfir 3 km. Mér skilst, að þarna sé skotist á bak við þá reglu, að kostnaður við þessi einstöku býli færi yfir 600 þús. kr. á býli. Hinu er þá til að svara, að ég leyfi mér að fullyrða, að í svona tilfellum hefði samt meðalkostnaður orðið þarna undir. Ég tel ákaflega vafasamt að binda sig við svona reglu. Þarna verður að horfa gegnum fingur sér við framkvæmd, því að nú blasir við sú hætta, að slík einstök býli verði talin sérstaklega hér eftir og fái aldrei raforku frá samveitu. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að við frekari framkvæmdir á þessu sviði sé haft í huga að leiðrétta þetta.