24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3907 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Orkumál hafa mjög verið á dagskrá á Alþ. í vetur, ekki síst eftir þá geigvænlegu hækkun, sem á olíu varð s.l. haust, en olíuverð hefur nú meira en tvöfaldast miðað við verð á olíu í nóvembermánuði s.l.

Sjálfstæðismenn hafa gert þessi mál hér að umræðuefni og rituðu m.a. ríkisstj. bréf varðandi þetta vandamál 30. jan. s.l. og bentu þar á, hversu miklar hækkanir sá hluti þjóðarinnar, sem notar olíu til húshitunar, yrði á sig að taka vegna hinna miklu hækkana í sambandi við þennan eina útgjaldalið, og lýstu sig reiðubúna til að taka upp viðræður við ríkisstj. um tiltækar leiðir til að jafna aðstöðu manna, þann aðstöðumun, sem skapast hafði vegna hækkunar á olíuverðinu og mundi aukast, eins og fram hefur komið.

Fyrr á þessu þingi voru afgr. lög um öflun fjár til að mæta þessum miklu útgjöldum, og nú liggur fyrir frv. um það, með hvaða hætti deila skuli þeim tekjum, sem það frv. gerði ráð fyrir, að aflað yrði.

Eins og fram kemur í nál. fjh: og viðskn. og frsm. n. gerði grein fyrir hér áðan, eru allir nm. sammála um, að þetta mál nái fram að ganga, en í n. voru skiptar skoðanir um, hvaða leið skyldi farin til þess að draga úr þessari olíuverðhækkun. Við hv. 2. þm. Vestf., Ásberg Sigurðsson, teljum réttara að greiða niður olíu til húshitunar í stað þess að deila því fjármagni út með styrkjum miðað við höfðatölu, og við munum því greiða atkv. með till. þeirri, sem hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, hefur flutt og hann gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls. Við teljum þetta hægt, þar sem olíufélögunum er gert skylt að gefa verðlagsstjóra mánaðarlega skýrslu um sölu á olíu til húshitunar, þar sem olía til húshitunar er undanþegin söluskatti.

Þrátt fyrir þá afgreiðslu þessa máls, að eingöngu sé gert ráð fyrir niðurgreiðslu á olíu til húshitunar, viljum við, eins og fram kemur í bréfi Sjálfstfl., að kannaðir verði áfram möguleikar á lækkun olíukostnaðar til atvinnurekstrar sem háður er ollu sem orkugjafa.

Fari svo, að sú brtt., sem flutt er af hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugi Gíslasyni, verði felld, kemur fram í nál., að nm. fjh.- og viðskn. eru einhuga um, að nauðsyn sé sérstakra ákvæða um hærri greiðslu til elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar samkv. lögum um almannatryggingar, og er því n., ef til þess kemur, sammála um að flytja við 3. umr., eins og fram kom hjá frsm., till. þar að lútandi.