29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt fsp. til þeirra hæstv. ráðh., sem hér eru mættir í kvöld. Hún er á þann veg, hvort ekki muni verða bönnuð lending flugvélar þeirrar frá Austur-Þýskalandi, sem hér á að lenda á morgun til þess að flytja nýjar áhafnir á það skip, sem nú er á leið í Reykjavíkurhöfn. Ég hygg, að það megi ekki fresta til morguns að taka um þetta skýslausa ákvörðun og birta um það tilkynningu, einfaldlega vegna þess, að hæstv. sjútvrh. var að lýsa því yfir úr þessum ræðustól rétt áðan, að ef mennirnir væru hingað til lands komnir, gæti enginn hindrað þá í því að ganga um borð í skipin og þá væntanlega ekki heldur þá menn, sem með skipinu koma, að fara aftur út með flugvélinni. Ég hygg, að hæstv. menntmrh. gegni nú störfum hæstv. samgrh, í veikindaforföllum hans. (Gripið fram í.) Er það misskilningur? Engu að siður beini ég þeim tilmælum til hæstv. ráðh., hvort þeir geti ekki nú á þessari stundu gengið frá því, að þetta leyfi verði afturkallað, vegna þess að eftir að flugvélin er farin af stað frá Austur-Þýskalandi, er kannske erfiðara við það að eiga.

Hæstv. sjútvrh. sagði í bréfi sínu, að hann mundi óska yfirlýsingar frá austur-þýska sendifulltrúanum um það, að skipin veiddu ekki á þessum miðum, vegna þess að einungis væri um orðróm að ræða þess efnis. Nú liggur það skýlaust fyrir, að það er ekki um neinn orðróm að ræða. Landhelgisgæslan sjálf hefur staðfest, að skipin hafa brotið þær reglur, sem þau tilkynntu, að þau mundu hlíta. Þau hafa verið að veiðum á Íslandsmiðum, og það er hægurinn hjá að gera þegar í stað ráðstafanir til að hindra, að áhafnaskipti fari fram, aðeins ef hæstv. ráðh. vilja það. $g efast ekki um vilja hæstv.menntmrh. í því efni.

Hins vegar efast ég stórlega um vilja hæstv. sjútvrh., þegar þessir einkavinir hans eiga í hlut. Hann gat þess sérstaklega, að hann hefði aflað sér fyllri upplýsinga en komu fram í bréfum. Hann upplýsti að vísu ekki, hvernig hann hefði að því farið, en við vitum ósköp vel, að það hefur verið með viðræðum við þessa menn. Það er ekki að ástæðulausu, sem í þessum ræðustól var talað um hæstv. sjútvrh. sem „hans exellence ambassador Austur-Þjóðverja á Íslandi“. Hann hafði þá margsinnis notað orðalag eins og t.d. þetta: Það er ekki nokkur einasta ástæða til að meina þeim að skipta hér um áhafnir, ekki nokkur einasta ástæða, o.s.frv., o.s.frv. En nú gæti hann kannske rekið af sér slyðurorðið að einhverju leyti með því þegar í kvöld að gera til þess ráðstafanir, að þessi flugvél fái ekki hér lendingarleyfi á morgun. Ég tel skýlausa skyldu ráðh, að gera það.