30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4003 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess, að í fréttaauka hljóðvarpsins í gærkvöld gaf hæstv. iðnrh. eftirfarandi yfirlýsingu, orðrétt:

„Því er mér það mikið ánægjuefni, að allir stjórnarflokkar hafa nú samþykkt heimild til forsrh. um að rjúfa þing og boða til þingkosninga í haust.“

Nú hefur ekki birst nein auglýsing eða tilkynning um breyt. á starfsskiptingu ráðh., og því síður er þingheimi kunnugt um, að Magnús Kjartansson hafi myndað nýja ríkisstj., sem jafnvel hefði ekkert annað verkefni en að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson hafi talað í umboði hans eða ríkisstj. Það fer eftir svörum hæstv. forsrh., hvaða ályktanir má draga um háttvísi og hógværð eða framhleypni og frumhlaup hæstv. iðnrh. Þá vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann telji sig hafa heimild allra stjórnarflokkanna til þess að rjúfa þing og boða til þingkosninga í haust, og ef svo er, hvort hann muni nota þá heimild og þá hvenær.

Ég hafði enn fremur ætlað mér að spyrja hv. þm. Hannibal Valdimarsson, formann SF, hvort hæstv. iðnrh. væri útnefndur talsmaður Samtakanna og hvort hæstv. iðnrh. segði rétt til um afstöðu SF. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson, formaður SF, hefur nú svarað þessum spurningum mínum með yfirlýsingu, er heyrðist í hádegisfréttum útvarpsins. Tekur hv. þm. fram, að Frjálslyndir og vinstri menn hafi ekki samþykkt heimild til forsrh. um að rjúfa þing og boða til þingkosninga í haust. Má af því draga ályktun um sannleiksgildi orða hæstv. iðnrh.

Um leið og ég vænti þess, að þessum fsp. mínum verði svarað, vil ég víkja með örfáum orðum að þætti fréttastofu Ríkisútvarpsins, en svo er mál með vexti, að þrír ráðh. gáfu yfirlýsingar í fréttatíma Ríkisútvarpsins á föstudagskvöldið um viðhorf sín til efnahagsmála og stjórnmálaástandsins. Af þeim sökum var okkur tveim formönnum stjórnarandstöðuflokkanna gefið tækifæri til þess á sama hátt að lýsa viðhorfum okkar í kvöldfréttatíma næsta dag, á laugardagskvöldi. Þá var þeirri umferð lokið. En mér er sagt og haft eftir áreiðanlegum heimildum, að hæstv. iðnrh. hafi orðið óður og uppvægur við það, sem við formaður Alþfl. létum í ljós á laugardagskvöldið, og heimtað að byrja aðra umferð og fá að svara því, er við létum í ljós. Ég verð að finna að því við fréttastofu útvarpsins, ekki að hæstv. iðnrh. fékk að taka aftur til máls, það er sjálfsagður hlutur, heldur hitt, að sá formáli var hafður fyrir orðum hans, að hægt var að skilja það svo, að fréttastofa útvarpsins hefði átt upptökin að því að biðja hæstv. iðnrh. að svara okkur Gylfa Þ. Gíslasyni. Það er ekki, hygg ég sannleikanum samkv. Aðrir ráðh. áttu að hafa fengið sams konar boð, en þáðu það ekki, fylgdi með sögunni. En úr því að önnur umferð er hafin, þá er rétt, að henni ljúki og að stjórnarandstöðuflokkunum verði gefið tækifæri til að tala í þeirri annarri umferð.

Hér á Alþ. í gær urðu umr. í Nd. utan dagskrár vegna þess, að fréttir höfðu borist þá um daginn, að austur-þýskir togarar væru að veiðum hér 90 sjómílur vestur af Bjargtöngum. Þá gaf hæstv. sjútvrh. þá yfirlýsingu, að hann hefði skrifað utanrrn. bréf þess efnis, að hann legði til. að lendingarleyfi austur-þýskra flugvéla og leyfi til áhafnaskipta af austur-þýskum togurum væru afturkölluð, ef Austur-Þjóðverjar upplýstu, að þeir hefðu verið að veiðum við Ísland. Þá var sú aths. gerð af hálfu málsvara okkar sjálfstæðismanna og raunar stjórnarandstöðunnar, að hér bæri að fara eftir upplýsingum Landhelgisgæslunnar, og krafist var fundar í utanrmn., til þess að þetta mál yrði að fullu upplýst.

Þessi fundur hefur nú verið haldinn, og þar upplýsti forstjóri Landhelgisgæslunnar, að 90 sjómílur frá Bjargtöngum hafi verið að veiðum 6 rússneskir togarar, 10 pólskir togarar, 18 austurþýskir togarar og 1 stór verksmiðjutogari, Junge Garde, auk eins vestur-þýsks togara. En á leið frá þessum slóðum hefði verið móðurskipið og verksmiðjutogarinn Junge Welt á leið hingað til Reykjavíkur til áhafnaskipta til þess að auðvelda þessum togaraflota veiðar á íslenskum fiskimiðum. Því var bætt við, að Junge Welt, það skip, sem við sjáum í ytri höfninni nú í dag, var með 15 sjómílna olíuslóða á eftir sér.

Menn minnast umr. um þessi leyfi til áhafnaskipta og lendingarleyfa austur-þýskra flugvéla hér á Alþ. fyrir stuttu. Í þeim umr. kom það fram af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, að í fyrsta lagi bæri ekki að veita þessi leyfi, vegna þess að við gætum ekki haft eftirlit með því, að þessir togarar væru ekki að veiðum á íslenskum fiskimiðum. Í öðru lagi var því haldið fram af okkar hálfu, að við ættum ekki að auðvelda fiskveiðar erlendra togara á norðurslóðum yfir höfuð. Og í þriðja lagi var á það bent af okkar hálfu, að þetta væri ekki vinarbragð gagnvart Kanadamönnum og Norðmönnum, en það var sagt, að þessar veiðar færu ekki fram á Íslandsmiðum, heldur við Kanada, Nýfundnaland og Norður-Noreg. Þetta var vissulega ekki vinarbragð gagnvart þessum þjóðum, sem við erum einmitt að óska eftir, að styðji málstað okkar á hafréttarráðstefnunni væntanlegu.

Nú hefur það sem sagt komið í ljós, að aðvaranir okkar eru því miður orðnar að veruleika. Það, sem við sögðum, er orðið að veruleika. Það má að vísu segja hæstv. sjútvrh. til hróss, að hann hefur lagt til, að leyfin væru afturkölluð að einu skilyrði fullnægðu: að Austur-Þjóðverjar sjálfir upplýstu eða játuðu á sig veiðarnar hér á Íslandsmiðum. Nú mun utanrrn. hafa haft samband við skrifstofu austur-þýska sendiráðsins hér í Reykjavík í morgun, en ekki komist í samband við neinn ábyrgan aðila þar. Og með því að tíminn frá því að umr. fóru fram hér í gærkvöld var ekki notaður, þá er það orðin staðreynd, að önnur áhafnaskipti hafa átt sér stað og móðurskipið Junge Welt, 10 þús. tonn, sem hæstv. sjútvrh. sagði í umr. hér fyrir stuttu, að væri 1500–2000 tonna skip, leggur hér frá landi með nýja áhöfn á þessi skip, sem eru að veiðum á Íslandsmiðum. Ég tel, að hér sé um mikil afglöp að ræða. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanrmn. fluttum því eftirfarandi till. á fundi utanrmn.:

„Þar sem í ljós hefur komið að skýrsla forstjóra Landhelgisgæslunnar, að austur-þýskir togarar, sem haft hafa aðstöðu til áhafnaskipta hér á landi samkv. sérstökum undanþágum, hafa stundað fiskveiðar á Íslandsmiðum, skorar utanrmn. á utanrrh. að afturkalla nú þegar síðasta lendingarleyfi austur-þýsku flugvélanna, sem flutt hafa áhafnir til áhafnaskipta á Íslandi.“

Þegar þessi till. var flutt, var sú yfirlýsing gefin af hálfu hæstv. utanrrh., að fleiri leyfi yrðu ekki veitt og að þriðja leyfið, sem enn er í gildi, mundi verða afturkallað, og ber að virða og meta það.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, taka það fram, að það er sjálfsagt virðingarvert af hálfu hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj. að átta sig á því, að ekki bar að veita þessi leyfi, þegar í ljós kemur, að þessir togarar eru að veiðum á íslandsmíðum. En úr því að okkur verður svona við, þegar í ljós kemur, að þessir togarar eru að veiðum á Íslandsmíðum með tilstyrk móðurskipanna, þá getum við sett okkur í spor annarra þjóða, annarra fiskimanna, í Kanada, þ. á m. Nýfundnalandi, og í Norður- Noregi, þar sem þessi skip áttu að vera að veiðum og þar sem þessi áhafnaskipti hefðu auðveldað auknar fiskveiðar. Þess vegna var það rangt að veita þessi leyfi þegar í upphafi, jafnvel án þess að þessi skip hefðu komið til veiða hér á Íslandsmiðum, en það tekur þó af öll tvímæli í allra hugum og m.a. í hugum hæstv. ráðh.