03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4116 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Auður Auðuns:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls tók frv. allmiklum breytingum og urðu um það töluverðar umr. Umr. snerust að verulegu leyti um 9. gr. frv. og þá brtt., sem við hana hér var flutt og samþykkt var. Ég tel óþarft að fara að rekja þessar umr., en ég hygg, að ég fari rétt með, að flm. till. brtt. við 9. gr. hafi rökstutt hana aðallega með því, að það væri óeðlilegt, að stofnkostnaðarframlög eða byggingarstyrkir úr ríkissjóði, sem veittir væru til bygginga, sem notaðar væru í ákveðnu skyni, yrðu eign þeirra, sem styrkina hljóta, ef hætt yrði svo að nota byggingarnar í þeim tilgangi, sem upphaflega var til ætlast og varð til þess, að byggingarstyrkur var veittur. Ég lét þess þá getið, að mér hefði þótt eðlilegt út af fyrir sig, að í frv. hefði jafnvel verið áskilnaður um endurkröfu á slíkum styrk vegna stofnkostnaðar, og af því tilefni leyfi ég mér að flytja hér brtt. við 9. gr. frv., eins og hún nú er. Brtt. mín, sem ekki vannst tími til að skila og fá úthýtt fjölritaðri hér á fundinum, er svo hljóðandi:

„9. gr. orðist svo:

Samvinnuskólinn og Verslunarskóli Íslands hafa rétt til þess að halda áfram að rækja það fræðslustarf, sem þeir hingað til hafa annast, og til að auka það og sérhæfa, eftir því sem aðstæður leyfa og þörf krefur á hverjum tíma.

Um styrk úr ríkissjóði til nefndra skóla skulu eftirfarandi ákvæði gilda:

a) Rekstrarkostnaður skólanna skal greiddur að fullu og 80% af kostnaði við rekstur heimavistar, þar sem hennar er þörf. Skal framlag ríkissjóðs að hámarki miðað við kostnað í ríkisskólum á sama fræðslustigi.

b) Stofnkostnaður þess kennsluhúsnæðis, sem byggt verður eftir gildistöku laga þessara, skal greiddur úr ríkissjóði að 80%, og gildir hið sama um heimavist, þar sem hennar er þörf. Hætti skólar þessir að starfa, skal styrkur sá, er þeir hafa hlotið úr ríkissjóði vegna stofnkostnaðar, vera endurkræfur.“

Niðurlag till. er samhljóða því, sem í frvgr. er nú, svo hljóðandi:

„Skilyrði nefndra styrkveitinga er, að menntmrn. hafi samþykkt árlega áætlun rekstrarkostnaðar skólanna og að fé sé veitt í fjárl. fyrir stofnkostnaði, enda liggi áður fyrir samþykki stjórnvalda fyrir byggingarframkvæmdum.

Framlög ríkisins samkv. þessari gr. miðast við, að skólar þessir starfi í samræmi við meginstefnu 5. gr. téðra l., svo og samkv. þeim reglugerðum, sem settar verða.“

Ég held, að með slíkri orðun á gr. sé mætt þeirri gagnrýni, sem fram kom við 2. umr. um málið.

En það voru fleiri breytingar en á 9. gr., sem samþ. voru við 2. umr. þessa máls. Það var samþ. brtt. við 10. gr. Ég lýsti mig andvíga báðum brtt. og ekki síst brtt. við 10. gr.brtt. var samþ., og er sjálfsagt tilgangslaust að fara að reyna að fá leiðrétt það, sem mér þar þótti miður, að inn skyldi koma í frv. En þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. Nú er þetta frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi og þar með um þessa tvo einkaskóla, sem ég leyfi mér að nefna svo, Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands. Þarna er komið inn í 10. gr., að ráðh. skuli skipa skólanefndir við þessa skóla. Ég sé ekki annað en þetta séu orðin bein lagafyrirmæli, og því vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hver verður framkvæmdin, ef frv. verður endanlega samþykkt og afgr. í þessum búningi, sem það nú er, sem lög frá þinginu? Verður þessum skólum, ef þeir óhlýðnast þessari gr. frv. og eignaraðilarnir leyfa sér áfram að skipa skólanefndirnar, — verður þeim leyft að starfa áfram í sama formi og þeir hafa gert? Og þýðir þetta ekki það, — ég þarf reyndar varla að spyrja um það, að þeir muni a.m.k. ekki njóta þeirra framlaga samkv. 9. gr., sem ráðgerð eru í frv.? Hitt þarf ég ekki að spyrja hæstv. ráðh. um, að Alþ. tekur til þess afstöðu við afgreiðslu hverra fjárl., hvort styrkur skuli veittur til þeirra.

Þessi brtt. mín er skrifleg, eins og ég áður sagði, og ég leyfi mér því að afhenda hana hæstv. forseta, til þess að leitað verði afbrigða, svo að hún megi koma hér til umr. og afgreiðslu. E.t.v. mætti ég bæta því við, vegna þess að þetta er nokkuð langt mál og hefur ekki verið úthýtt í d., að þá væri e.t.v. rétt að fresta umr. þar til á næsta deildarfundi. Þar sem gæti þá legið fyrir fjölrituð till.