03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3751)

67. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 834, skrifaði ég undir nál. fjh: og viðskn. um, að þetta frv. verði samþ., með fyrirvara, sem ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að snemma á þessu þingi var lagt fram í Nd. frv. um happdrættislán ríkissjóðs vegna framkvæmda við uppbyggingu Norðurlandsvegar. Þetta frv., sem kom fram töluvert á undan því frv., sem hér er til umr., hefur enn ekki hlotið afgreiðslu úr fjh.- og viðskn. Nd., en hins vegar var því frv., sem hér um ræðir, vísað til annarrar þingnefndar, og það mun vera skýringin á því, að þetta frv. var tekið út úr og á undan öðrum frv. um vegamál.

Ég hreyfði því í n., að það væri eðlilegt, um leið og þetta mál væri afgreitt, að fyrir lægi, hvernig Alþingi hugsaði sér framhald þessarar fjáröflunar til vegagerðar, jafnframt því sem ég henti á, að eins og staðið er að uppbyggingu vega um Norðurland og uppbyggingu þjóðvegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar, þá er með öllu útilokað fyrir okkur þm. þeirra kjördæma, sem það mál varðar, að láta það óátalið, að hið háa Alþingi taki ekki afstöðu til þess máls, að því er varðar uppbyggingu Norðurlandsvegar. Á hinn bóginn viðurkenni ég þá sérstöðu, sem Djúpvegur hefur. Það er óvíða á Íslandi fallegra að fara um en um Djúpið og að sjálfsögðu óviðunandi ástand, að þessum vegi ljúki ekki, og má raunar segja, að það standi síst á okkur sjálfstæðismönnum að leggja stein í götu þess vegar, svo mjög sem öllum er kunnugt um þá miklu baráttu, sem hv. þm. Sigurður Bjarnason á sínum tíma háði fyrir því, að þessi vegur yrði fullgerður, þó að atvikin höguðu því að vísu svo, að honum auðnaðist ekki að ná málinu fram til sigurs þann tíma, sem hann var á Alþingi.

Ég vil í framhaldi af þessu fagna því, að mér skildist, að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir í sambandi við uppbyggingu Norðurlandsvegar, að hann muni beita sér fyrir því, að samhliða happdrættisláni ríkissjóðs vegna Djúpvegar verði efnt til annars happdrættisláns vegna uppbyggingar Norðurlandsvegar. Í trausti þess, að hæstv. fjmrh. standi við þau orð og ég hafi skilið rétt það, sem hann sagði þar, sá ég ekki ástæðu til þess að taka þetta mál upp sérstaklega né flytja brtt. í þá átt við frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins færa nokkur rök fyrir því, að það sé eðlilegt, að á eftir veginum til Hafnar í Hornafirði verði hafin uppbygging á Norðurlandsvegi með sams konar fjáröflun.

Það er öllum kunnugt, að það er eitt mesta hagsmunamál Norðlendinga og raunar einnig þeirra, sem búa á Vestfjörðum og Vesturlandi, að góðar og tryggar samgöngur liggi norður á bóginn. Þetta eru hins vegar svo fjárfrekar framkvæmdir, að útilokað er að afla nægilegs fjár til þeirra með venjulegum hætti og innan vegáætlunar. Þetta stórátak, sem hér um ræðir, er hins vegar sambærilegt við hringveginn að öllu leyti og enginn vafi á því, að Norðlendingar muni mjög fúsir til þess að stuðla að því, að happdrættisskuldabréf til þessarar framkvæmdar megi seljast, á sama hátt og ég tel eðlilegt, að Vestfirðingum og þeim, sem áhuga hafa á Djúpveginum, gefist kostur á því að stuðla að slíkri vegagerð um þau fögru héruð, sem þar um ræðir.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að samkv. Norðurlandsáætlun, eins og hún liggur fyrir, er gert ráð fyrir að framkvæma það, sem áætlað hafði verið að framkvæma á árunum 1974 og 1975, á þrem árum í stað tveggja, svo myndarlega er nú staðið að þeirri áætlun af núv. hæstv. ríkisstj. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að sumar leiðir á þessum vegi, eins og Holtavörðuheiðin, eru raunar utangarna í vegakerfinu og þess vegna nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þar megi koma tryggur og góður vegur.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vænti þess, að um það geti orðið samstaða að taka upp málefni Norðlendinga að þessu leyti. Ég efast ekki um, að þm. Norðlendinga muni standa fast um þá ákvörðun. Ég efast ekki heldur um, að þeir hv. þm., sem notið hafa þessarar fjáröflunar vegna nauðsynlegra vegabóta við Skeiðarársand og á þeirri leið, muni einnig skilja þá brýnu nauðsyn, sem ber til þess, að þetta mál er hér flutt.