06.05.1974
Neðri deild: 120. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

253. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það hefði mátt ætla miðað við þá ræðu, sem hv. þm. Pálmi Jónsson flutti hér áðan, að það væri Landnám ríkisins eitt, sem fjallaði um byggingu íbúðarhúsa í sveitum. Málið er þannig, að umsagnaraðilar um slík mál eru byggingarþjónusta landbúnaðarins og Landnám ríkisins, eins og málum hefur verið háttað fram að þessu. Það, sem felst í þessari breytingu, er fyrst og fremst tvennt. Það er það, að Búnaðarbankinn eða Stofnlánadeildin greiði þessa styrki til húsbyggjenda, eins og lánin eru afgreidd, og í öðru lagi, að á þennan styrk komi byggingarvísitala, eins og er á öðrum framkvæmdum samkv. jarðræktarlögum. Það eru þessar tvær breytingar. Hér er ekki verið að flækja þetta mál. heldur er verið að gera það einfaldara með því, að Stofnlánadeildin greiði hvort tveggja. Það er allt og sumt. Það er ekki verið að taka neitt verkefni í sjálfu sér af Landnáminu annað en þetta, að greiðslan fer fram frá Stofnlánadeildinni.