08.11.1973
Sameinað þing: 16. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Á fundi utanrmn. s. l. föstudag, 2. nóv., gerði hæstv. utanrrh. munnlega grein fyrir innihaldi að samningsuppkasti því, er honum hafði verið falið að undirbúa vikuna áður. Hann tók fram, að samningsuppkastið væri ekki fullbúið, og því gætu nm. ekki fengið það í hendur. Nefndarmönnum var hins vegar lofað, að þeir skyldu fá það sent, þegar væri endanlega frá því gengið. Ég hef síðan oft gengið eftir því, en ávallt fengið þau svör, að það væri ekki tilbúið. Það er fyrst nú um hádegið, að nm. Sjálfstfl. og raunar aðrir hv. þm. fengu till. að samningi þeim, sem hér um ræðir, í hendur, og tími hefur því ekki unnist til að ræða hann í einstökum atriðum eða hafa endanlegt samráð við samflokksmenn. Við munum því ekki gera grein fyrir afstöðu okkar nú, en fulltrúar okkar í utanrmn. munu að sjálfsögðu fjalla um málið og gera grein fyrir afstöðu sinni, og við framhaldsumræður mun frekari grein verða gerð fyrir afstöðu sjálfstæðismanna til máls þess, er hér um ræðir.

Á þessu stigi skal ég aðeins við þetta bæta, að við sjálfstæðismenn teljum meðferð hæstv. ríkisstj. á málinu á margan hátt ámælisverða. Hæstv. ríkisstj. hefur verið reikul í ráði, sjálfri sér ósamkvæm. Henni hafa verið mislagðar hendur, svo að ekki sé meira sagt.

Af yfirlýsingu hæstv. sjútvrh., er þingheimur nú hefur heyrt, má marka, að þm. Alþb. hafa tekið afstöðu til þessa máls með nokkuð sérstökum hætti. Vegna ummæla ráðh., skal að sinni aðeins bent á, að daginn, sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir viðræðum sínum í London og samningsgrundvelli þeim, er var árangur þeirra viðræðna, samþykkti þingflokkur Alþb.: „Þingflokkurinn hafnar till. Breta algerlega sem óaðgengilegum“, og enn fremur: „Þingflokkur Alþb. lýsir yfir því, að hann getur ekki staðið að neinu samkomulagi við Breta á grundvelli þeirra tillagna, sem þeir hafa nú sett fram“.

Af yfirlýsingu hæstv. sjútvrh., sem við heyrðum áðan, má marka, eins og ég sagði áðan, að þm. Alþb. hafa ákveðið að gleypa öll stóru orðin og greiða atkv. með óaðgengilegum samningum að þeirra eigin áliti. Svo dýru verði er áframhaldandi seta í ráðherrastólum keypt. En hæstv. sjútvrh. beit höfuðið af skömminni, þegar hann í raun sagði ástæðu þessarar afstöðu þá, að nauðsynlegt væri, að Alþ. gætti þess með áframhaldandi setu í ríkisstj., að komið yrði í veg fyrir, að samstarfsflokkar hans sætu á svikráðum við lífshagsmuni Íslendinga í landhelgismálinu.

Framkoma Alþb. og samskipti þess og annarra stjórnarflokka í máli þessu eru einstök í sinni röð, ekki eingöngu hér á landi, heldur og þótt einnig sé litið til annarra þingræðislanda. Gefst væntanlega tækifæri til að ræða það sérstaklega síðar.

Herra forseti. Með tilvísun til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um mál þetta, áður en utanrmn. hefur fjallað um málið.