12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er sannarlega þess eðlis að eðlilegt er, að um hana verði nokkrar umr. Eðli málsins samkv. ætti að mínum dómi fyrirsögn hennar alls ekki að vera: Till. til þál. um bráðabirgðasamkomulag við ríkisstj. Bretlands, heldur miklu fremur: Till. til þál. um áframhaldandi undanhald ríkisstj. í landhelgismálinu eða uppgjöf, því að það er hið raunverulega efni till.

Ekki aðeins alþm., heldur þjóðin öll minnist án efa kokhreysti hinna stóru orða, sem núv. stjórnarliðar viðhöfðu í landhelgismálinu, þegar þeir í síðustu kosningum voru að blekkja kjósendur til fylgis við sig. Við minnumst öll staðhæfinga þeirra og fullyrðinga og hinna stóru orða, svo sem: 50 mílurnar eru fyrir Íslendinga eina, ekkert að gefa eftir, samningar eru svik og loks margendurteknar fullyrðingar hæstv. sjútvrh., hæði hér á Alþ. og í fjölmiðlum, um, að landhelgismálið væri algert innanríkismál og kæmi engum öðrum við. Það væri án efa hægt að standa í þessum ræðustól í marga klukkutíma og rifja upp öll hin stóru orð stjórnarliða í sambandi við landhelgismálið og fletta ofan af blekkingum þeirra. En ég vil ekki tefja störf alþ. á því, þar sem ég tel, að það liggi alveg ljóst fyrir, að stjórnarliðið allt er með þeirri þáltil., sem hér liggur fyrir, á einu bretti að éta ofan í sig öll sín stóru orð og fullyrðingar í sambandi við landhelgismálið.

Ég tel alveg tvímælalaust, að hér sé um svik að ræða hjá stuðningsmönnum stjórnarliðsina gagnvart því fólki, sem þeir fengu til þess að greiða sér atkv. í síðustu kosningum, og þá ekki síst þm. kommúnista, og ætla ég ekki að ræða frekar í bili hina pólitísku hlið málsins, en snúa mér að efni till. og aðdragandanum að því samningsuppkasti, sem fyrir Alþ. er lagt.

Um aðdragandann að samningsuppkastinu vita raunar allir. Allt frá fyrsta degi útfærslunnar hefur ríkisstj, verið á undanhaldi í landhelgismálinu. Allar tilraunir hæstv. utanrrh. til þess að ná heiðarlegum og viðunandi samningum við Breta og Þjóðverja hafa runnið út í sandinn vegna undirferlis og lævísi kommúnista, sem allir vita, að jafnt nú eins og árið 1958 hafa stefnt markvisst að því að nota landhelgismálið að yfirskyni til þess að koma á harðsnúnum ágreiningi á milli Íslendinga og Breta, og sennilega hefur aldrei verið skálað með meiri hrifningu fyrir þessum herrum uppi í Garðastræti heldur en þegar þeim hafði tekist að láta ríkisstj. Íslands halda þannig á málinu, að Bretar töldu sér stætt á því að senda herskip sín í annað sinn inn í íslenska fiskveiðilögsögu.

Það, sem ég tel, að hafi verið veikleiki hæstv. forsrh. í sambandi við landhelgismálið alla tíð, er að hann hefur alls ekki gert sér grein fyrir, hvað raunverulega var að gerast í málinu í hans eigin herbúðum, í stjórnarráðinu. Hefði hann fyrr tekið á sig rögg og sett ráðh. kommúnista útúr málinu, tekið það í sínar eigin hendur, hefði hann að mínum dómi alveg án efa getað lagt miklu hagstæðari samningsgrundvöll fyrir Alþ. heldur en hann nú gerir. Loksins þegar hann gerði sér þetta ljóst, og hann sem forustumaður ríkisstj. kominn á undanhald, jafnvel beinan flótta í málinu, getur hver sagt sér það sjálfur, í hvaða samningsaðstöðu sá aðili er, sem þannig er ástatt fyrir. Og það, sem verra var og gerði forsrh. Íslands enn veikari í viðræðum við forsrh. Breta, var, að hann virðist hafa einblínt of mikið á undanhald íslensku ríkisstj., en ekki gert sér grein fyrir, að þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir allt undanhald íslensku ríkisstj. áttu Bretar í nokkrum erfiðleikum og voru að koma sér í sjálfheldu, bæði vegna þrýstings frá vinaþjóðum sínum, sem þeir urðu að hafa góð samskipti við, og einnig og ekki síður vegna þess, að þeirra eigin skipstjórar voru í vaxandi mæli að slá slöku við og leita á önnur mið en hér við land. Þetta kemur berlega í ljós, ef skoðuð er skýrsla Landhelgisgæslunnar um tölu breskra togara hér við land á undanförnum árum. Ég hef fengið útdrátt úr þessum skýrslum fyrir árið 1971, 1972 og 1973 og tekið þar út tölur breskra togara miðað við talningu í mars, júní og nóv. ár hvert, og samkv. skýrslunni var tala breskra togara hér við land á þessu tímabili sem hér segir:

1971 er á þessum mánuðum, sem ég gat um, um 7 talningar að ræða. 2. mars eru við Íslandsstrendur 35 breskir togarar, 10. mars 45, 20. mars 47, 31. mara 71, 8–9. júní 53, 23. júní 83 og 5–8. nóv. 47. Meðaltal breskra togara að veiðum hér við land á þessu tímabili samkv. þessum talningum eru 55 skip. Ef teknar eru nákvæmlega sömu tölur 1972, þar er um 6 talningar að ræða, kemur út, að þá er tala breskra togara hér við land komin niður í 48 skip. Ef við tökum út talninguna 1973 yfir þessa sömu mánuði, þá er tala breskra togara hér við land komin niður í 43 skip. Þetta sýnir glögglega, að Bretar voru á beinu undanhaldi hér við land vegna afstöðu og aðgerða Landhelgisgæslunnar. Eins og þarna kemur fram, hefur breskum togurum hér við land á undanförnum árum fækkað, eins og ég sagði, úr 55 árið 1971 að meðaltali, meðan veiðar voru óhindraðar og í 43 nú á þessu ári, þrátt fyrir herskipaverndina. Þetta hefði hæstv. forsrh. svo sannarlega átt að gera sér ljóst fyrir viðræðurnar við Breta og marka afstöðu sína við þetta sjónarmið einnig, en ekki einvörðungu að einblína á undanhald og þá sjálfheldu, sem íslenska ríkisstj. var búin að koma málinu í.

Ég tel nú rétt að snúa mér að efnishlið þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og samanburði á samkomulaginu frá 1961 við það samningsuppkast, sem við nú erum að ræða. Áður en einstakar greinar orðsendingar utanrrh. til sendiherra Bretlands eru teknar til athugunar, verður ekki hjá því komist að benda á, að eitt grundvallaratriði vantar inn í samningsuppkastið. Það er viðurkenning Breta á 60 mílna útfærslunni. Þetta var grundvallaratriði í samkomulaginu frá 1961, en vantar í þennan samning, og má segja, að þetta atriði eitt út af fyrir sig hefði átt að nægja til þess, að Íslendingar hefðu ekki verið til viðtals um neinar tilslakanir Bretum til handa, og geri þetta samningsuppkastið raunverulega að hálfgerðu eintali Breta við Íslendinga, þar sem þeir setja fram óskalista sinn. Skal ég þó á þessu stigi ekki fara nánar út í þetta, en geri ráð fyrir, að ég komi að því síðar, þegar gerður verður samanburður á samningsuppkastinu nú og samningnum frá 1961.

Í formála orðsendingarinnar er talað um hugsanlegan ársafla breskra skipa á hinu umdeilda svæði, þ. e. a. s. á svæðinu milli 12 og 50 mílna, og gert ráð fyrir, að hann verði um 130 þús. tonn, eins og segir í formálanum. Þetta er alveg furðulega óljóst orðalag um jafnmikilvægt atriði að dómi íslensku ríkisstj., og eftir venjulegum skilningi mundi þetta þýða 10% of eða van, og gæti þá aflinn farið upp í 143 þús. tonn. Ég minnist þess í þessu sambandi, að á borgarfundi, sem haldinn var í haust um landhelgismálið á Hótel Sögu, sagði hæstv. sjútvrh., að tölur Breta um veiðar hér við land væru hreint ekkert að marka, þeir gætu hagrætt þessu, eftir því sem þeim þóknaðist. Og hæstv. ráðh. sagði enn fremur á þessum sama fundi, að eftir þeim gögnum, sem hann hefði undir höndum, og eftir því, sem hann gæti gert sér grein fyrir, hefði ársafli Breta á Íslandsmiðum á ársgrundvelli miðað við 1. sept. s. l. alls ekki numið meiru en 126 þús. tonnum. Honum passaði betur á þeirri stundu að hafa afla Breta á Íslandsmiðum sem allra minnstan. En ef niðurstaða hans er rétt, er hann nú að leggja til, að aflamagn Breta á 12–50 mílna svæðinu megi hækka um allt að 17 þús. tonn eða upp í 143 þús. tonn, eins og áður er sagt, ef almennur skilningur er lagður í töluna um 130 þús. tonn í formála orðsendingarinnar. Þetta er þá sú skerðing, sem hæstv. forsrh. er að tala um, að fyrirhugaður samningur við Breta hafi í för með sér.

Sannleikurinn er sá, að þó að þetta 130 þús. tonna mark sé sett í samningsuppkastið, munu Íslendingar aldrei fá að vita, hve mikið aflamagn hinir bresku togarar taka á hinu umdeilda svæði. Breskir togaraskipstjórar hafa alveg í hendi sér að gefa upp þær tölur í þessu sambandi, sem þeim sjálfum sýnist. Þeir geta í sömu veiðiferðinni byrjað eða endað á Færeyjarmiðum, farið á Íslandsmið og veist þar bæði innan og utan 50 mílna markanna og jafnvel skotist í sömu veiðarferðinni á Grænlandsmið, Nú þarf enginn að halda annað en þeir muni hagræða skýrslum sínum um afla á Íslandsmiðum eins og þeim sjálfum best kann að henta, og það mun án efa eiga eftir að koma í ljós, að þeir munu samkv. skýrslum sínum aldrei ná þeim 130 þús. tonna afla, sem talað er um í samningnum, ef samningur verður gerður, hvað mikið sem þeir annars kunna að veiða á hinu umdeilda svæði. Það mun ávallt verða þeirra eigið leyndarmál.

Þá kem ég að 1. tölul. orðsendingarinnar, þar sem rætt er um leyfilega tölu breskra togara á hinu umdeilda svæði og gert er ráð fyrir 68 skipum yfir 180 fet og 71 skipi undir 180 fetum eða samtals 139 skipum. Einnig er í þessari grein gert ráð fyrir, að breskum frysti- og verksmiðjutogurum verði bannaðar veiðar á hinu umdeilda svæði. Ég skal geta þess, þar sem talað er um breska verksmiðjutogara, að mér var sagt í dag, ég hef ekki haft aðstöðu til þess að sanneyna það, en mér var sagt í dag, að Breta mundu enga verksmiðjutogara eiga. Þeir munu eiga frystitogara, sem heilfrysta fisk, og frystitogara, sem frysta fiskinn um borð, en verksmiðjutogara sem slíka, þar sem allt er unnið, smátt og stórt, fyrir gúanó, það sem ekki er fryst, — mér var tjáð, að þá mundu þeir ekki eiga. En þetta er auðvitað hægt að sannreyna.

Í sambandi við hið fyrra atriði, tölu breskra skipa, hljóta að vakna upp ýmsar spurningar og jafnvel efasemdir, hvort hæstv. forsrh. hefur ekki látið hlunnfara sig í viðræðunum sínum við forsrh. Breta. Hæstv. forsrh. taldi þessi ákvæði orðsendingarinnar einna veigamest og mér skilst næstum einu ákvæðin, sem Bretar töldu sér í óhag, miðað við það, sem áður hafði verið rætt um. Ég hlýt að spyrja í þessu sambandi: Fær þetta staðist, og er það Bretum eins í óhag og hæstv. forsrh. vill vera láta. Í mínum augum vakna upp bæði spurningar og jafnvel efasemdir um, að svo sé.

Í sambandi við hið fyrra atriði, tölu breskra skipa, vil ég vitna til þeirrar skýrslu Landhelgisgæslunnar, sem ég las hér upp áðan, og tölu breskra skipa við veiðar hér við land árið 1971, meðan þeir enn gátu óhindrað stundað veiðar utan 12 mílna markanna. Þar kemur fram, eins og ég sagði, að tala breskra skipa hér við land var á þeim tíma, sem skýrslan nær yfir, frá 35 skipum lægst hinu 2. mars upp í 83 skip hæst hinn 23. júní, að meðaltali 55 skip að veiðum á þessu tímabili, sem skýrslan nær yfir. Ef við sýnum Bretum fulla sanngirni og áætlun, að jafnlangur tími fari í útsiglingu, heimsiglingu og löndun eins og skipið er að veiðum, sem telja verður mjög ríflega áætlun, ber að margfalda meðaltöluna í skýrslum Landhelgisgæslunnar með tveimur, og kemur þá út, að Bretar hafa á þessum tíma stundað veiðar hér við land með um 110 skipum. Ef þetta er rétt, verður ekki annað séð en við með þessu ákvæði 1. tölul. séum að auka sókn Breta á Íslandsmið í stað þess að draga úr henni, eins og hæstv ráðh. heldur án efa, að við séum að gera með þessu ákvæði orðsendingarinnar, þar sem annars vegar er rætt um 139 skip, en hins vegar tölur Landhelgisgæslunnar sýna, að á Íslandsmiðum hafa aðeins 110 skip verið að veiðum.

Eins og ég sagði áðan, byggi ég tölur mínar á talningu Landhelgisgæslunnar á þremur tilteknum mánuðum, þ. e. mars, júní og nóv. 1971. Ég tel alveg sjálfsagt, ef hæstv. forsrh. hefur ekki í fórum sínum talningu Landhelgisgæslunnar á breskum skipum hér við land allt árið 1971, að hann afli sér þeirra upplýsinga, ef það kynni í einhverju að breyta þeim niðurstöðum, sem ég hef hér bent á, því að auðvitað vil ég eins og aðrir hv. þm. hafa það, sem sannast reynist. En hvað þá um töluna 139, hljóta menn að spyrja. Ekki efa ég það, að Bretar mundu geta látið í té lista yfir 139 skip, sem einhvern tíma á árinu 1971 hafa komið á Íslandsmið, en sum kannske aðeins part úr veiðiferð á leið sinni til eða frá Grænlandi eða Færeyjamiðum. En við megum ekki láta það blekkja okkur, því að gera verður alveg ákveðið ráð fyrir því, að ef við opnum landhelgina til veiða aðeins fyrir Breta og Íslendinga, munu Bretar sjá sér hag í því að stunda veiðar með enn meiri þunga á Íslandsmiðum en þeir gera nú í dag, þar sem aðeins 43 skip þeirra hafa verið að veiðum í einu að meðaltali það sem af er þessu ári samkv. áður áminnstum upplýsingum Landhelgisgæslunnar. Og það hlýtur í þessu sambandi að vakna upp sú spurning: Hvað um skip annarra þjóða, ef samningur við Breta verður gerður? Munu ekki aðrar þjóðir, sem hér hafa áður stundað veiðar, bæði Pólverjar, Austur-Þjóðverjar og Hollendingar, fara fram á sömu aðstöðu og Bretar fá, en vitað er, að skip þessara þjóða hafa á undanförnum áratugum stundað veiðar hér við land, þó að ekki sé nema í tiltölulega litlum mæli. En ef liggur ekki alveg ljóst fyrir, að hæstv. ríkistj. og Alþ. muni neita öllum þjóðum, sem hér hafa þó stundað veiðar á undanförnum árum, um sömu aðstöðu og Bretum er ætlað með orðsendingunni, fer ekki hjá því, að við með fyrirhuguðum samningi við Breta erum að auka sóknina á Íslandsmið, og er það alveg þveröfugt við það, sem ég er alveg sannfærður um, að alþm. ætlast til. Ég tel ekki, að hæstv. forsrh. komist hjá því að gefa yfirlýsingu nú þegar, áður en þessum umr. lýkur, hvað ríkisstj. hyggist fyrir, ef aðrar þjóðir sæki um sömu aðstöðu til fiskveiða hér við land og Bretar fá með samningnum, ef hann verður staðfestur.

Þá kem ég að síðari atriði í 1. tölul. orðsendingarinnar, en það er útilokun breskra frysti- og verksmiðjutogara. Hæstv. forsrh. taldi þetta einna mikilvægasta ákvæði orðsendingarinnar og Bretum mest í óhag. Taldi hann, að Bretar hefðu nú vera komin upp í 46 og mundu þessi skip, ef ekki yrði samið, fara eins og ryksugur um fiskimiðin á hinu umdeilda svæði. Hefur málgagn hæstv. forsrh., Tíminn, tekið þessi ummæli hans upp í leiðara hjá sér og talið þetta aðalatriði fyrirhugaðs samkomulags, og hefur þetta satt að segja verið notað sem hálfgerð grýla á landsmenn til þess að fá þá til fylgis við samninginn.

Ekki skal það vefengt, að frysti- og verksmiðjutogarar eru stórvirk og skaðleg tæki á fiskimiðum, hér við land sem annars staðar. En einnig þetta atriði þarf að gera aths. við, þó að ég vefengi ekki þær tölur um fjölda breskra skipa af þessari gerð, sem hæstv. forsrh. hefur nefnt. En það er annað í þessu sambandi, sem hæstv. forsrh. hefði átt að láta koma fram alþm. og alþjóð til glöggvunar, en það er, að þessi skip Breta, frysti- og verksmiðjutogarar, hafa á undanförnum árum ekki stundað veiðar á Íslandsmiðum nema að mjög takmörkuðu og kannske sáralitlu leyti. Þeim hefur verið beitt á enn fjarlægari mið, hæði við Nýfundnaland, Barentshaf, Labrador, Hvítahafið og við Grænland. Það sést ekki af talningum Landhelgisgæslunnar, hve mörg skip þessarar tegundar hverju sinni hafa verið við Íslandsstrendur, en mér hefur verið tjáð, að það hafi nær heyrt undantekningum til. En samkv. opinberum skýrslum er afli þeirra hér við land árið 1971 talinn vera aðeins milli 10 og 20 þús. tonn. Þetta hefði hæstv. forsrh. vissulega einnig átt að láta koma fram, er hann reifaði þessi ákvæði orðsendingarinnar mjög svo ákveðið frammi fyrir þingheimi og taldi það vera eitt hið allra mikilvægasta ákvæði samningsins og Bretum mest í óhag. Hitt skal viðurkennt, að þetta ákvæði getur vissulega haft sína þýðingu, ef öðrum þjóðum verða veitt sömu fríðindi og gert er ráð fyrir að veita Bretum, því að margar aðrar þjóðir, sem stundað hafa fiskveiðar hér við land, eiga bæði frysti- og verksmiðjutogara í mun stærri stíl en Bretar, og er þar um að ræða bæði Sovétríkin, Austur- og Vestur-Þjóðverja. Og enn eitt atriði skal bent á í þessu sambandi, að verksmiðjutogararnir sérstaklega og reyndar frystitogararnir einnig munu sennilega ná sama árangri, geta veitt á Íslandsmiðum, þó að þeir séu settir út fyrir 50 mílurnar, og eru það ein rökin enn fyrir nauðsyn þess fyrir Íslendinga, að fiskveiðitakmörkin verði færð sem allra fyrst út í 200 mílur. En um það atriði skal ég ekki fjalla frekar að þessu sinni.

Ég taldi rétt að benda á þessi atriði í sambandi við aths. mínar við 1. tölul. væntanlegrar orðsendingar utanrrh. til sendiherra Breta.

Þá kem ég að 2. lið orðsendingarinnar, sem fjallar um hin friðuðu svæði hér við land. En þar er um að ræða bæði hin friðuðu svæði, þar sem eru uppeldisstöðvar un fisks, svo og hrygningarsvæði á Selvogsbanka. Í orðsendingunni eru þau sömu tímamörk og nú er að finna í þeim reglugerðum, sem sjútvrn. hefur gefið út varðandi þessi atriði. Í þessu sambandi hlýtur að vakna sú spurning, hvort Íslendingar séu bundnir af þeim dagsetningum, sem í orðsendingunni standa, eða þurfum við samþykki Breta til frekari aðgerða í þessum efnum, eins og efni orðsendingarinnar gefur því miður tilefni til að ætla. Og ef svo er, hvar eru þá allar fullyrðingar hæstv. sjútvrh. um, að landhelgismálið sé algert innanríkismál okkar Íslendinga, ef við þurfum að leita samþykkis ráðamanna í London til frekari aðgerða í þessu einhverju þýðingarmesta atriði í sambandi við hagnýtingu fiskimiða okkar? Þá má einnig benda á í þessu sambandi, að önnur aðalrök okkar og kannske þau veigamestu fyrir útfærslu fiskveiðimarkanna eru og hafa verið, að við viljum sjálfir og einir, alveg óhindraðir öðrum, ráða og meta, hvaða svæði innan fiskveiðimarkanna við viljum annaðhvort alfriða eða friða fyrir tilteknum veiðarfærum.

Ég tel ákvæði 2. töluliðs um friðunina svo mikilvægt, að nú við umr. verði að koma fram alveg ótvíræð útskýring hæstv. forsrh. á því, hvernig beri að skilja þetta ákvæði samningsins, og ég vil ekki trúa því, að nokkur hv. þm. vilji á annað fallast en Íslendingar einir hafi fullt og óskorað vald í þessum efnum.

3. tölul. umræddrar orðsendingar er um lokun bátasvæða og tiltekinna hólfa, sem Bretum eru bannaðar veiðar í um tiltekinn tíma eða tvo mánuði í einu í hverju hólfi. Lokun bátasvæðanna er Íslendingum að sjálfsögðu í vil. Um það geta ekki verið skiptar skoðanir. Allt öðru máli gegnir um lokun hinna sex hólfa með þeim tímamörkum, sem í orðsendingunni er að finna. Er ekki annað sjáanlegt en að Bretar hafi einir verið látnir ráða tímasetningunni við lokun hólfanna og hæstv. forsrh. hvergi komið þar nærri. Svo vill til, að einnig er til talning Landhelgisgæslunnar á tölu breskra skipa á árinu 1971 í hverju hólfi fyrir sig á þeim tíma, sem þau eiga að vera lokuð, og hljóðar sú skýrsla þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Hólf A, fyrir Vestfjörðum, sem lokað á að vera sept.-okt. Þar fór fram talning 14.–15. sept., og reyndust þá vera 7 breskir togarar þar að veiðum, 2. og 3. okt. voru þar 15 breskir togarar eða að meðaltali við þessar talningar 11 togarar.

Hólf B. Látrabjarg-Vestmannaeyjar, lokað nóv.des. Talning þar 8. og 9. nóv. sýndi 8 togara út af Breiðafirði og 1 togara út af Grindavík og 2. og 4. des. 1 togara út af Snæfellsjökli. Meðaltal togara í þessu hólfi við talninguna er 5.

Hólf C, Vestmannaeyjar-Stokksnes, lokað maí-júní, talning 13. maí. Þar voru 4 togarar þessa tvo daga, 28. maí var enginn togari, 8. og 9. júní var enginn togari þar og 23. júní var enginn togari.

Hólf D, Austurland, lokað í jan.-febr. Talning 15. jan. sýndi, að í því hólfi var enginn togari að veiðum á þessu tímabili, 30. jan. eru komnir 10 togarar, 5. og 6. febr. voru þar 10 togarar og 18.–19. febr. voru þar 25 togarar, eða meðaltal 11 togarar í 4. talningum.

Hólf E, Norðausturland, lokað í júlí-ágúst. Talning 12.–15. júlí 1 togari, 26. júlí 2 togarar, 10.–11. ágúst enginu togari.

Loks hólf F, þ. e. a. s. Norðurland, lokað mars-apríl. 10. mars var enginn togari í því hólfi, 20. mars var enginn togari í því hólfi, 31. mars var enginn togari í því hólfi, 15.–16. apríl voru komnir inn tveir togarar, en 26. apríl, 4 dögum áður en hólfinu er lokað, eru komnir þar inn 26 togarar.

Hér er í öllum tilfellum að sjálfsögðu átt við breska togara. Eina lokun, sem hægt er að segja, að komi eitthvað við Breta, er lokunin fyrir Austurlandi. Liggur við að ætla, að tímasetningu þar hafi verið hagað þannig til að þóknast hæstv. sjútvrh. og gera honum þar með hægara að kyngja samningunum. Að öðru leyti er ekki hægt að sjá annað en lokunartími hólfanna sé hreinn óskalisti Breta, sem lítið eða ekki tefji fyrir veiðum þeirra hér við land, því að auðvitað geta hinir sárafáu bresku togarar, sem stundað hafa veiðar á lokaða tímanum í hinum einstöku hólfum, fært sig annað með sennilega litið lakari árgangi.

Sannleikurinn er sá, að þegar tímasetning hólfanna er athuguð, verður ekki séð, að hún skipti Breta nokkru máli sem heitið getur, og er þá að mínum dómi raunar verið að opna Bretum með samkomulaginu næstum óhindraðar veiðar á hinu umdeilda svæði næstu tvö árin. Verður ekki annað ályktað af þessu en útfærslan 1. sept. 1972 sé að mestu leyti úr sögunni næstu tvö árin gagnvart Bretum. Má vel vera, að ríkisstj. telji þetta góðan árangur. Margir hljóta þó að vera þar á allt öðru máli.

Aðra liði orðsendingarinnar ætla ég ekki að ræða efnislega, en mun láta mér lögfróðari mönnum eftir að deila um túlkun 6. liðar varðandi ákvæðin um sjálfa lögsöguna. Hins vegar hlýtur að vekja eftirtekt og nokkra furðu sá boðskapur hæstv. forsrh., að hann muni beita sér fyrir að fá lögfestan skilning sinn og túlkun á efnislið þessarar gr. Hæstv. forsrh. er, eins og allir vita, prófessor í lögum við Háskóla Íslands eða gegndi a. m, k. því starfi, þar til hann varð ráðh. Og ég held, að ég fari með rétt mál, að enginn annar ráðh. sé lögfróður í ríkisstj. að undanskildum hæstv. utanrrh. Það getur því ekki skoðast annað en hreint vantraust á hæstv. forsrh., að meðráðh. hans skuli ekki treysta honum betur en svo, að þeir krefjist þess, að Alþ. lögfesti lögskýringar hans og túlkun á tiltekinni grein samningsuppkastsins. Og sú spurning hlýtur að vakna, hvort lögfesting á túlkun hæstv. forsrh. hafi raunar nokkuð að segja, ef mótaðilinn, Bretar, leggur í hana annan skilning. Er nokkur trygging fyrir því eða líkindi til, að Bretar í þessu tilfelli frekar en öðrum fari að íslenskum lögum, ef þeir telja annað henta sér betur? Satt að segja tel ég hæpið, að hægt sé að bjóða Alþ. upp á slíkt. Orð og skýringar forsrh. landsins, hver svo sem hann er, eiga að standa, án þess að Alþ. þurfi að lögfesta þær.

Ég skal svo láta útrætt um efnishlið orðsendingar þeirrar, sem fylgir þeirri þáltill., sem hér er til umr. en snúa mér að efnislegum samanburði hennar við þá till., sem lögfest var árið 1961, er samkomulag var gert við Breta um lausn þeirrar deilu, sem þá stóð yfir.

Í fyrsta lagi er sá grundvallarmismunur á samningnum frá 1961 og samningsuppkasti því, sem hér liggur fyrir, að með samkomulaginu frá 1961 viðurkenndu Bretar 12 mílna útfærslu, en í samningsuppkasti nú er um enga slíka viðurkenningu að ræða. Ég tel alveg hiklaust, að ef svo væri, væri hægt að líta ýmis ákvæði uppkastsins allt öðrum augum, þótt óhagstæð séu.

En eins og nú er komið, er varla hægt að líta á uppkastið nema sem forskrift Breta, sem Íslendingar verða annaðhvort að hafna eða samþykkja, án þess þó í rauninni að færast nokkuð nær lausn deilunnar, og nálgast samningsuppkastið því að vera frestun á útfærslunni í næstu tvö árin hvað Bretum viðvíkur, eins og ég sagði áðan.

Í öðru lagi er ekki í samningsuppkastinu að finna neina yfirlýsingu um áframhaldandi útfærslu fiskveiðimarkanna í 200 mílur, eins og Íslendingar þó ákveðið stefna að. Í samningnum frá 1961 var alveg skýr og skorinorð yfirlýsing frá Íslands hálfu um þetta atriði.

Í þriðja lagi var fiskveiðilögsagan stækkuð um að mig minnir rúmlega 5 þús. ferkm með samningnum frá 1961 eða nærfellt jafnstórt svæði og Bretar fengu tímabundna heimild til að veiða á innan þáverandi fiskveiðimarka. Ekkert slíkt ákvæði er að finna í því samningsuppkasti, sem hér liggur fyrir.

Þegar þetta allt er athugað, kemur alveg greinilega í ljós, að samningurinn 1961 var efnislega miklum mun hagstæðari en það samningsuppkast, sem nú liggur fyrir, og ættu því þeir, sem á sínum tíma börðust gegn samningsuppkastinu frá 1961, þ. e. núv. stjórnarflokkar, að skoða hug sinn vel, áður en þeir greiða atkv. með fyrirliggjandi samningsuppkasti. En því miður verður vart neinu þar um þokað. Stuðningsmenn ríkisstj. munu standa að því að staðfesta samningsuppkastið, sem hér liggur fyrir, og má segja, að það sé í nokkru samræmi við undanhald stjórnarinnar og stjórnarliðsins í landhelgismálinu á undanförnum mánuðum að lögfesta nú hér á Alþ. samning við Breta, sem jaðrar við að vera hrein uppgjöf í málinu. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að stjórnarliðið, eins og ég sagði áðan, sé með tölu með samningsuppkastinu að éta ofan í sig öll stóryrði sín um samningana frá 1961 og öll stóryrði sín og glamur í sambandi við útfærsluna 1972.

Ég var einn þeirra þm., sem 15. febr. 1972 samþykkti útfærslu landhelginnar og þar með einnig, að leitað yrði samkomulags við Breta. Ég var þá með það eitt í huga, að ekki kæmi til mála, að af samningum gæti orðið öðruvísi en þeir gerðust á heiðarlegum og eðlilegum grundvelli, og var það forsenda mín fyrir samþykkt þess ákvæðis.

Ég held, að það fari ekki á milli mála, að þm. sé nú ljóst, að ég mun greiða atkv. gegn þessari till., en ég vil, áður en ég lýk máli mínu, leyfa mér að leggja fjórar spurningar fyrir hæstv. forsrh.:

1. Ef samningar verða gerðir við Breta, verða þá öðrum fiskveiðiþjóðum, sem áður hafa stundað hér veiðar, veitt sömu fríðindi innan 50 mílna markanna eða á svæðinu 12–50 mílur?

2. Telur forsrh., að ef Íslendingar gefa út reglugerð um ný friðunarsvæði eða víkkun núv. friðunarsvæða eða lengingu tímamarka, sem þar eru tilgreind, muni það einnig ná til Breta þrátt fyrir ákvæði samningsuppkastsins?

3. Telur forsrh. ákvæði samningsins við Breta, ef gerður verður, hindra Íslendinga á nokkurn hátt að færa fiskveiðimörkin út í 200 mílur, ef Alþ. tekur ákvörðun um það, áður en samningstímabilið er útrunnið?

4. Telur forsrh., að þau fríðindi, sem Bretum og öðrum þjóðum kunna að verða veitt til að veiða á milli 12 og 50 mílna, nái einnig til svæðis milli 50 og 200 mílna, ef útfærsla í 200 mílur hefur hátt sér stað, áður en samningstímabilið er útrunnið?

Ég leyfi mér að vænta þess, að hæstv. forsrh. verði við ósk minni um að veita svör við þessum spurningum, sem ég hef hér lagt fram.