14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég held, að það sé nú upplýst, að það sé ekki misskilningur á milli mín og hv. þm. Jóns Árnasonar og við séum sammála um það meginatriði að ákvörðunarvaldið í þessu efni er í höndum dómsmrn. og að það þarf ekki að bíða eftir öðru en gögnum Landhelgisgæslunnar til þess að kveða upp úrskurð. Enda fer hest á því a. m. k., að á Alþ. Íslendinga sé ekki haldið fram öðrum skilningi.

En viðvíkjandi því, að það geti komið til. að mistök eigi sér stað og varðskipi geti yfirsést, þá er auðvitað alveg rétt, að það er hugsanlegt. Það hefur átt sér stað, og ef það hefur verið upplýst fyrir dómstólum og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að sekt togara eða skips væri ekki sönnuð, þá hefur það leitt til þess, að það skip hefur verið sýknað, og jafnvel vafi orðið því til góða, eins og almennt er í þessum málum. Þess vegna er það alveg eins í þessu tilfelli, að þó að skipið verði að vísu strikað út af skránni samkv. ákvörðun dómsmrn., þá er það svo, að ef Bretar koma á eftir með sín gögn eftir diplómatískum leiðum og rannsókn á þeim gögnum leiðir í ljós, að þarna hafi mistök átt sér stað, þá er sjálfsagt, að leiðrétting verður gerð og skipið verður þá tekið aftur upp á skrá. Það er sjálfsagt mál. Það er einmitt þessi trygging, má segja, sem samið er um og Bretunum veitt, að þeir fá með þessu betri möguleika til þess að fylgjast með og kanna þetta og koma þá við efir á sínum aths., ef þeir telja ástæðu til.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson spurði um, hve löng ætti að vera biðskylda varðskips, þá get ég ekki svarað því þannig að tiltaka einhverjar klukkustundir. En það er mælt svo fyrir um, að það skuli kvatt til næsta aðstoðarskip eða hjálparskip. Ég mundi þá álíta, að það væri eðlilegt að miða við, að slíkt aðstoðarskip brygði við og héldi viðstöðulaust áfram ferð sinni á staðinn og það yrði a. m. k. ekki talin skylda varðskips að bíða lengur.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel ekki vera neina beina skyldu fyrir varðskip að bíða. Mér er sagt, að það geti haft þann hátt á að setja út merki. Það er að vísu sú hætta, að þau geti haggast í sjó. En a. m. k. ef um óeðlilegan drátt væri að ræða, þá ætti það að vera á kostnað þess skips, sem kemur ekki til að kanna atburðinn viðstöðulaust, þannig að ég tel, að það sé ekki endilega skilyrðislaus skylda fyrir varðskipið að dvelja á staðnum og ekki þá heldur kannske að halda togaranum kyrrum, heldur megi setja út þau merki, sem duga til þess að sýna, hver staðarákvörðunin er.

Það þarf svo ekki að taka fram, það liggur ljóst fyrir, að ef togari hlýðir ekki varðskipi og stöðvar, þá má varðskipið beita hverjum þeim aðferðum, sem það annars má beita til að stöðva togara. Og þá er hann með því einu að hlýða ekki boði varðskipsins að stöðva orðinn sekur um brot á þessu samkomulagi.