14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég get verið miklu stuttorðari en ég hefði annars þurft að vera, vegna þess að hv. síðasti ræðumaður tók fram margt af því, sem ég hafði ætlað að vekja athygli á. Ég tek undir það með honum, sem ég var reyndar búinn að segja áður, að ég tel það mjög mikilsvert, að við leggjum alls staðar sem ríkasta áherslu á það, að rétturinn til auðæfanna í hafsbotninum og rétturinn til auðæfanna yfir hafsbotninum haldist í hendur, hvort sem við högum þessu þannig að hafa ein lög eða fleiri, og með tilliti til þess væru lögin um hafsbotninn frá 1969 endurskoðuð og samræmt orðalagið á þeim og því frv., sem hér liggur fyrir.

Mér finnst rétt að láta það koma hér fram, vegna þess að það hefur verið rætt um það, hver er afstaða ríkra og fátækra þjóða í þessum efnum, að það hefur fyrst og fremst verið stefna þróunarríkjanna að binda þetta saman. Það eru Suður-Ameríkuríkin og Afríkuríkin, sem hafa forustu um að tengja saman réttinn til auðæfanna í hafsbotninum og auðæfanna í hafinu yfir hafsbotninum. Sú till., sem kom fram í hafsbotnsnefndinni og er að mínum dómi tvímælalaust hagstæðust fyrir okkur, er flutt af Afríkuríkjum eða studd af bandalagi Afríkuríkja, þar sem lögð er megináhersla á að tengja þetta tvennt saman, að ríkin hafi jafnan rétt til auðæfanna í hafsbotninum og auðæfanna, sem eru í sjónum yfir honum. Aftur á móti kom þar fram till. frá ríkjum, sem að vísu fylgja 200 mílum, en hafa betri efnahagsaðstöðu, eins og t. d. Kanada, um að hafa sérstök ákvæði um fiskveiðilögsögu og svo sérstök ákvæði um hafsbotnslögsöguna. Sú till. er í stuttu máli mjög varhugaverð að mínum dómi, vegna þess að þótt þar sé gert ráð fyrir 200 mílum í sambandi við fiskveiðarnar, þá er þar opnuð leið fyrir hinn svokallaða sögulega rétt. Þegar búið er að slíta fiskveiðilögsöguna frá hinni almennu efnahagslögsögu, er hægt að koma þar inn ýmsum ákvæðum, sem ekki gilda um hafsbotninn, vegna þess að þar er t. d. um sögulegan rétt að ræða. En í þessari tillögu, sem Kanadamenn og fleiri þjóðir fluttu, er opnaður möguleiki fyrir það, að þjóðir, sem hafa fiskað áður í tiltekinni landhelgi, geti eignast þar viss söguleg réttindi. Og þetta er eitthvað það hættulegasta, sem við getum átt eftir að glíma við á þingi Sameinuðu þjóðanna eða á Hafréttarráðstefnunni, að ríki eins og Bretar og jafnvel Rússar og Ameríkumenn segi þar: Við skulum fallast á 200 mílur, ef þið fylgið, að við fáum vissan sögulegan rétt innan þessa svæðis, kannske einhvern ákveðinn tíma, eins og átti sér stað á Hafréttarráðstefnunni 1958. — Þess vegna er það, sem við höfum lagt megináherslu á í hafsbotnsnefndinni, og verðum að gera á Hafréttarráðstefnunni, að tengja saman, hafa sama kafla um lögsöguna, sem snertir hafsbotninn og hafið yfir honum, en slíta þetta ekki í sundur, því að ef það verður slitið í sundur, þá verður reynt að koma inn í fiskveiðilögsöguna ýmsum undanþágum, sem ekki er hægt að koma inn í kaflann, sem fjallar um hafsbotninn, því að í sambandi við hafsbotninn er, eins og menn vita, ekki um neinn sögulegan rétt að ræða. Þar hefur engin slík nýting átt sér stað af hálfu þjóða í nágrenni annarra ríkja, vegna þess að hafsbotninn hefur ekki verið nýttur. Fleira kemur til athugunar í þessu sambandi.

Svo er eitt atriði, sem við eigum eftir að taka afstöðu til og verðum að taka afstöðu til mjög fljótlega í sambandi við víðáttu lögsögunnar, og það snertir sérstaklega hafsbotninn. Það er, hvort við viljum 200 mílna hafsbotnslögsögu og svo rétt til landgrunnsins þar fyrir utan. Um þetta atriði kemur til með að standa mikil deila á milli þróunarríkjanna annars vegar og auðugu ríkjanna hins vegar. Þróunarríkin, eins og Afríkuríkin og Suður-Ameríkuríkin mörg, leggja áherslu á, að þessi lögsaga nái ekki nema 200 mílur vegna þess að þau vilja, að sú alþjóðastofnun, sem á að rísa upp, eigi auðæfin, sem eru þar fyrir utan. Aftur á móti þjóðir eins og Kanadamenn, Ástralíumenn og jafnvel Ný-Sjálendingar, sem fylgja okkur að vísu í öðrum efnum, vilja ekki aðeins 200 mílur í þessum efnum, heldur líka landgrunn, sem er þar fyrir utan, og það eru nokkrar þjóðir, sem eiga talsvert landgrunn fyrir utan 200 mílur. Ef tekst ekki að ná samkomulagi um þetta atriði, getur það orðið til þess að sigla þessum málum í strand. Það var af hálfu Íslands og fleiri ríkja reynt nú í sambandi við hafsbotnsnefndarfundinn að koma á samkomulagi á milli 200 mílna ríkjanna, að þau flyttu nokkuð mörg till. um 200 mílur. En það strandaði á þessu, það strandaði þar á Kanadamönnum og Ástralíumönnum, að þeir vildu ekki flytja till. um 200 mílur, nema þar kæmi til viðbótar réttur til landgrunnsins fyrir utan 200 mílur, a. m. k. í sambandi við hafsbotninn. Það liggur kannske ekki á því, að við gerum það upp, hvar við stöndum í þessum efnum, en fyrr eða síðar á Hafréttarráðstefnunni verðum við að gera upp um það, hvort við stöndum hér með þróunarríkjunum ellegar hinum auðugu ríkjum, sem vilja meira en 200 mílur hvað snertir hafsbotninn. Ég hygg, að við séum raunar allir sammála um, hvernig við eigum að halda á þessum málum, að það á að tengja saman réttinn til hafsbotnsins og auðæfanna, sem eru í sjónum yfir honum. Og það er eiginlega fræðileg eða formleg spurning, hvernig á að haga þessu í löggjöf. Persónulega held ég, að það komi mjög til athugunar að setja nýja löggjöf um auðlindalögsögu, en ég geri það ekki að neinu aðalatriði. Mér finnst hins vegar skipta verulegu máli, að við höfum samræmd ákvæði um þetta í þeim l., sem um þetta fjalla, þannig að það sjáist alveg svart á hvítu, að við teljum, að rétturinn yfir auðæfunum í hafsbotninum og rétturinn til auðæfanna í sjónum yfir hafsbotninum eigi að fara saman.