20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

105. mál, staðsetning opinberra stofnana

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Í Ólafskveri var það eitt höfuðatriði, að unnið skyldi markvisst og af festu að því að dreifa ríkisstofnunum um landið og væri þá þáttur byggðastefnu hæstv. núv. ríkisstj. Mér skilst, að n. hafi verið sett á laggirnar undir mjög merkri forustu til þess að koma með heildaráætlanir um þessa dreifingu stofnana, og að því var enda vikið á síðasta þingi, þegar þar var til meðferðar mál um staðsetningu einnar stofnunar, að rétt væri að bíða tillagna þessarar dreifingar- eða staðsetningarnefndar og gera sér þá grein fyrir því, hvernig tekið yrði á þessum málum, eftir þeirri heildaráætlun.

Ég þarf ekki að orðlengja frekar um það, að frá þessari n. hefur ekkert heyrst og ekkert verið birt um þessa athugun né nokkrar tillögur fram lagðar. Nú er ég ekki með því að gefa í skyn, að þær kunni ekki að vera í undirbúningi, en ég veit, að það muni vera áhugi, ekki aðeins hjá hv. þm., heldur víða um land, að heyra, hvernig þessum málum er háttað, hvar verkefnið er á vegi statt og hvort vænta megi heildartillagna innan tíðar.