21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég tek nú í rauninni aðeins til máls til þess að svara þeim sérkennilegu fsp., sem komu fram frá hv. 7. þm. Reykv., þó að ég verði að ætla, að hann hefði átt að vita miklu betur en hann þóttist þurfa að spyrja hér um. Ég man a. m. k. eftir því, að það kom fram, — ég hygg, að það hafi verið í sjónvarpi fremur en útvarpi, — að aðalbankastjóri Seðlabankans upplýsti þar, að bankinn hefði ekki leitað til ráðh. með beiðni í þessu máli, heldur tekið ákvörðun sína samkv. því, sem hann teldi, að væri lögum samkv., þ. e. a. s. það hefði verið bankaráð, sem hefði samþykkt framkvæmdirnar, og það væri skoðun hans, að bankanum bæri ekki skylda til þess að leita til ráðh. í slíku tilfelli. Ég hafði gefið nokkrum sinnum yfirlýsingar um það skriflega, — sem þessi hv. þm. veit, og breytir víst litlu, þótt ég endurtaki það hér, því að hann heldur áfram sínum sérkennilegu fsp. eftir sem áður, — að mér var alls ókunnugt um það, þegar bankaráðið tók sína ákvörðun, af því að það var ekki til mín leitað. Mér var alls ókunnugt um það, þegar bankinn samdi við verktaka um framkvæmdina, af því að það var ekki til mín leitað. Og þetta var ekkert nýtt. Hér var farið í rauninni nákvæmlega eftir því, sem gerst hefur, þar sem eru nákvæmlega eins orðuð fyrirmæli í l. varðandi Landsbankann og hefur verið í tíð fyrrv. ráðh. í þessum efnum, að það hefur ekki verið leitað til hans með samþykki eða synjun um byggingarframkvæmdir. Orðalagið er nákvæmlega eins.

Auðvitað hefur það líka komið fram, — ég vissi um það, áður en ég varð ráðh., — að Seðlabankinn ætlaði að byggja. Hann er búinn að vera að bauka við þetta í mörg ár. Mér var auðvitað vel kunnugt um, að þetta stóð til. Hins vegar var hvort tveggja, að ég leit þannig á, að þetta væri ekki mitt mál sérstaklega, heldur væri þetta málefni þeirrar stjórnar, sem Alþingi kaus fyrir þessa stofnun, sem segir í lögum, að sé sjálfstæð stofnun undir þeirri stjórn, og þar sem ekki var til mín leitað, þá taldi ég líka alveg einsýnt, að það væri ekki mitt að skera úr um það, hvort hafist væri handa um byggingarframkvæmdir eða hvort bankinn gerði einn eða annan samning varðandi þessar byggingarframkvæmdir eða ekki.

Ég vil taka það fram í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt, að það hefur verið hið besta samstarf milli mín og bankastjóra Seðlabankans, mjög náið samstarf þar um marga þá hluti, sem varða almennt stjórn peningamála og efnahagsmála, að því leyti til sem bankinn hefur með þau að gera, og ég kvarta ekki undan því á neinn hátt. Hins vegar hefur það verið skoðun þeirra, sem með þessi mál hafa haft að gera, að það væri ekki skylda þeirra að leita eftir samþykki í þessum efnum, og það hefur verið skoðun mín og þeirra, sem ég hef stuðst við ráð frá, að það væri ekki heldur mitt að gripa inn í í sambandi við þessi mál. Þegar kom fyrst upp spurning um það, hvort ég hefði vald til þess sem bankamrh. að stöðva bygginguna, þá ráðlögðu allir þeir, sem ég leitaði til, mér frá því og töldu, að ég hefði ekki til þess vald, enda auðvitað hægara sagt en gert. Þegar þingkjörin stjórn er búin að samþykkja tiltekna framkvæmd og hún hefur starfsvenjur með sér, búið er að semja um framkvæmdir og verk er hafið, þá er annað en auðvelt, jafnvel þó að öll ríkisstj. vilji þar standa að baki, að skerast í leikinn og svipta því í sundur, sem búið er að semja um og búið er að ákveða, e. t. v., af þeim aðilum, sem hafa lögum samkv. einir vald til þess að ákveða þetta. Með því er ég ekki að segja það, að ef málið hefði legið fyrir í tæka tíð og spurt hefði verið um álit ríkisstj., að bankaráð hefði þá ekki farið að vilja ríkisstj., ef málið hefði þannig borið að, en um það var ekki að ræða.

Það er að sjálfsögðu ágætt að taka af öll tvímæli um það, hvort bankaráði beri skylda til þess, þegar t. d. um húsbyggingar er að ræða, að leita eftir samþykkt ráðh. Það er sjálfsagt að fá alveg úr því skorið, hvort það er dómur ráðh., sem þar skuli ráða, fremur en dómur þess þingkjörna ráðs, sem Alþ. sjálft hefur kosið. En það vil ég líka segja í sambandi við það, sem hér hefur komið fram, að þó að það sé ágætt, að ráðh. hafi vald í þá átt varðandi ríkisbankana, þá finnst mér líka, að ráðh. hefði þá einnig þurft að hafa slíkt vald yfir framkvæmdum annarra banka. Hér eru allmargir einkabanka. Í sumum hverjum á ríkið nokkra hlutdeild. Eins og við vitum, hefur verið haldið þannig á málum hér á Alþ., að hér hafa ekki verið sett lagaákvæði um fjárfestingareftirlit. Það var meira að segja tekið skýrt fram, þegar lög voru sett um Framkvæmdastofnun ríkisins, að í þeim l. fælist ekki ákvæði um fjárfestingarhömlur.

Að öðru leyti skal ég svo ekki ræða um þetta mál. Það verður innan skamms lagt hér fyrir Alþ. frv. til l. um viðskiptabanka ríkisins, og þá verður eflaust auðvelt að koma inn í það lagafrv. skýrum ákvæðum um það, — ef Alþ. vill taka þar af allan vafa, — að vald í þessum efnum skuli vera hjá ráðh. Auðvelt er að setja það inn, og ekki stendur á mér að vera með slíku ákvæði, ef það er vilji manna, að ráðh. skuli ráða um byggingarmál bankanna í staðinn fyrir að það sé í höndum bankaráðanna.