29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Magnús Jónsson:

Herra forseti: Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, enda gerist þess ekki þörf. Hv. flm. till. hefur gert ítarlega grein fyrir þeim vanda, sem hér er við að fást og nauðsynlegt er að bæta úr. Hann minntist þess, sem er rétt að leggja hér áherslu á, að þegar samgönguáætlun Austfjarða var unnin, var hún gerð af Efnahagsstofnuninni í náinni samvinnu og samstarfi við alþingismenn Austfirðinga, og náðist um þá áætlun samkomulag, áætlun til 4 ára, og var þegar í upphafi lögð á það áhersla, að menn vissu, hvaða vegaframkvæmdir mundu falla undir þessa áætlun og hvað yrði unnið á ári hverju. Það gekk enginn þess dulinn, hvað það var, sem ætlunin var að félli undir þessa áætlun, og hvenær það skyldi unnið. Þetta er að sjálfsögðu kjarni áætlanagerðar. Áætlun, sem er unnin með þeim hætti, sem Norðurlandsáætlunin hefur verið unnin, þar sem ekki er ákveðið, hvað skuli í rauninni vera markmiðið, hvaða verkefni skuli tekin og hvaða fjármagn skuli vera til ráðstöfunar, er áætlun, sem er í rauninni algjört handahóf og getur leitt til vandræða, mjög verulegra, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um. Þetta hefur komið mjög gjörla í ljós, og ég bendi aðeins á það til aðvörunar, hvað þessi vinnubrögð hafa valdið miklum vandræðum, þar sem hvorki hefur verið vitað, hvaða framkvæmdum ætti að vinna að eða hvaða fé væri til ráðstöfunar á ári hverju. Nú stöndum við andspænis því t. d. síðar á þessu þingi að ákveða almenna vegáætlun fyrir næstu ár, og er auðvitað hin brýnasta nauðsyn að gera sér grein fyrir því, þegar sú áætlun er gerð, hvaða verkefni á Norðurlandi eiga að falla undir Norðurlandsáætlun og hvaða fjármagn verði til ráðstöfunar á ári hverju, það sem eftir er þeirrar áætlunar, og hvað er stefnt að, að þær framkvæmdir taki langan tíma. Ég held, að það sé ekki að ófyrirsynju, að á þessu sé vakin athygli hér, bæði vegna Norðlendinga sjálfra og þeirra sem fara með umboð þeirra hér á Alþingi, og einnig vegna þess, að hér er um að ræða óhæfileg vinnubrögð í sambandi við áætlanagerð almennt.

Ég hef stundum látið í ljós ótta um það, að þau vinnubrögð, sem nú eru tekin upp varðandi áætlanagerð og eru með þeim hætti, að fjöldi áætlana er nú í gangi á vegum Framkvæmdastofnunarinnar, muni leiða til þess, að áætlanir hrúgist upp án nokkurrar hliðsjónar af því hvaða fjármagn ríkisvaldið hefur til ráðstöfunar til þess að fullnægja þessum áætlunum, og að lokum hætti stjórnvöld að líta á áætlanir þessar nema sem verk ákveðinna sérfræðinga og þær verði nánast bókstafurinn einn. Það er mjög illt, ef áætlanagerð leiðist inn á þessar brautir. Hún getur verið til mikils gagns, ef hún er raunsæ, þ. e. a. s. eins og unnið hefur verið til þessa og var gert á undanförnum árum, að miða áætlanir við viðráðanlegar framkvæmdir eða hafa þær af viðráðanlegri stærðargráðu og ekki meira haft í takinu í einu en svo, að við það væri hægt að ráða. Þetta var gert við samgöngumálaþátt Vestfjarðaráætlunar. Það var unnið í samræmi við fjáröflun, sem vitað var um. Þetta var gert við atvinnumálaþátt Norðurlandsáætlunar, til þess var strax aflað fjár. Og eins og gat um áðan, var sömu stefnu fylgt varðandi samgönguáætlun Austfjarða. Þessar áætlanir voru teknar hver á eftir annarri, þannig að það væri ljóst, að fé væri þarna til ráðstöfunar. En við lendum nú í þessu, sem allir þm. Norðlendinga a. m. k. vita mætavel. að olli vandkvæðum, bæði á síðasta ári og hefur gert á þessu ári, að ekki hefur verið gengið endanlega frá einu sinni framkvæmdum þess tiltekna árs fyrr en eftir dúk og disk, þær síðan skornar niður, og við vitum nánast í dag ekki nokkurn skapaðan hlut um, að hvaða marki er stefnt. Hér er því ekki um neina áætlunargerð að ræða, heldur handahófslegar fjárveitingar hverju sinni, eftir því sem tök þykja á að afla fjár, en leiða, eins og ég áðan gat um, til margvíslegra vandræða, sem snúa bæði að þeim mönnum, sem eiga að fara með umboð Norðlendinga hér á Alþ., og einnig að heimamönnum, sem ekki vita, að hverju í rauninni er stefnt.

Með þessari framkvæmd er í rauninni ekki um neina áætlun að ræða, heldur handahófskenndar aðgerðir. Það má þakka fyrir út af fyrir sig, að fæst eitthvert viðbótarfé. Hitt er þó meira um vert, að menn viti, hvert áætlunartímabil þessara framkvæmda á að vera, hve langt það á að vera, hvaða fé verður til ráðstöfunar hverju sinni og hvaða verkefni eiga að falla undir áætlunina, sem þarf þá ekki að vinna að af hálfu þm. að fá fjárveitingar til á annan hátt.

Ég tel því, að sú till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur hér talað fyrir og flutt, sé mjög nauðsynleg, og vona, að tekin verði alvarlega sú ábending, sem í henni felst. Það er raunhæf ábending, ekki í neinu deiluformi, heldur aðeins til þess að gera mönnum grein fyrir því, að svona er ekki hægt að vinna að framgangi áætlanagerðar.