25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

347. mál, landhelgismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég vil í upphafi biðja hv. 5. þm. Reykn. mjög mikillar velvirðingar á því, að ég sé það núna, að ég hef gleymt að senda honum þau skjöl, sem ég lofaði að senda í fyrra, og það er náttúrlega ófyrirgefanlegt og skal verða bætt úr því strax á morgun, því að það á að vera mjög auðvelt að senda honum afrit af þeim skjölum, sem farið hafa frá okkur til Haag. Þetta tek ég algerlega á mig, ég hef gleymt þessu, og ég minnist ekki, að hann hafi gengið eftir því heldur, enda getur það ekki verið, því að þá hefði ég gert það strax.

Ég hef ekki við höndina skrá um þau ríki, sem opinberlega hafa viðurkennt 50 mílna lögsöguna. Það tekur nokkurn tíma að vinna þá skrá. En mér finnst aðalatriðið vera, að eftir að við höfum gert samninga við 3 ríki, Belgíu, Noreg og Færeyjar, standa nú aðeins yfir samningaviðræður við Breta og Vestur-Þjóðverja. Öll önnur ríki hafa virt útfærsluna í framkvæmd. Þannig er staðan í dag. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. segir, það er nokkur munur á því, hvort ríki viðurkenna útfærsluna í reynd eða hvort þau viðurkenna hana de jure eða lagalega, og ég er ekki viss um og veit raunar, að ýmis þau ríki, sem viðurkenna de facto eða í reynd, eru ófús og raunar ófáanleg til þess að viðurkenna lagalegan rétt okkar til útfærslunnar. Engu að síður gæti verið fróðlegt og ég hef gert ráðstafanir til að fá upplýsingar um það, hverjir raunverulega hafi viðurkennt útfærsluna lagalega, yfir þau ríki liggi fyrir skrá, og vonandi verður ekki mjög langt að bíða hennar.

Um 2. lið fsp., hvort utanrrn. hafi leitað eftir viðurkenningu annarra ríkja á 50 sjómílna landhelginni og hvaða árangurs mætti vænta af því starfi, vil ég segja, að sjónarmið Íslendinga eru í stöðugri kynningu gagnvart öllum ríkjum í sambandi við undirbúning hafréttarráðstefnunnar. Að svo stöddu er ekki óskað eftir formlegri viðurkenningu einstakra ríkja, vegna þess að við vinnum að viðurkenningu á almennum rétti strandríkja til útfærslu, en ekki viðurkenningu á grundvelli sérstöðu Íslands sérstaklega. Meira get ég ekki sagt um þetta núna.

En ég vil út af því, sem hv. þm, minntist á, að ekki hefðu verið gefin út kynningarrit á spænsku, segja, að þetta er vissulega alveg rétt hjá honum. En við hefðum litið svo til, að það þyrfti fremur að boða fagnaðarerindið vantrúuðum heldur en trúuðum. Þessi spænskumælandi ríki flest eru eindregnir stuðningsmenn okkar, og þess vegna höfum við kannske lagt minni áherslu á að kynna málið fyrir þeim heldur en öðrum þeim ríkjum, sem hafa barist gegn okkar víðáttumiklu fiskveiðilögsögu. En hitt má svo vel vera, að það hefði verið við hæfi að sýna þessum ríkjum þann sóma að senda þeim upplýsingar á þeirra eigin máli, það kannske þarf ekki að kosta ýkjamikið, og má gjarnan athuga, hvort það sé tiltækt. En á hitt er að líta, að enskan er nú alheimsmál, og við höfum lagt mesta áherslu á það að senda okkar rit á ensku.

Um 3. fsp. vil ég segja, að ríkisstj. hefur mótmælt dómsögu Alþjóðadómstólsins og hefur ekki í hyggju að taka þátt í málflutningi þar af þeim sökum. Grg. Breta og Vestur-Þjóðverja eru hins vegar til athugunar hjá þeim embættismönnum, sem annast hafa undirbúning hafréttarráðstefnunnar af Íslands hálfu, og ég vænti þess, að frá þessum embættismönnum komi grg. um stöðu Íslands.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi taki gild þessi svör, þótt takmörkuð séu, og skal svo endurtaka loforð mitt, sem ég gaf í upphafi, um það, að það verði ekki frekari vanefndir á því að senda honum þau gögn, sem ég lofaði hér í fyrra og kannast vel við, þó að ég hafi gleymt að framkvæma það.