04.12.1973
Sameinað þing: 29. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

383. mál, erlent hráefni til lagmetis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Guðnason spyr í fyrsta lagi, hver hafi haft forustu um hráefniskaup erlendis frá á þessu ári fyrir Siglósíld, Norðurstjörnuna og K. Jónsson & Co., Akureyri.

Þegar háskalegur samdráttur varð í síldveiðum hér við land og algert bann sett á síldveiðar við landið, sem framlengt var 1. sept. s. l. um eitt ár, var gripið til þess ráðs að flytja inn hráefni erlendis frá til þess að koma í veg fyrir samdrátt eða jafnvel algera rekstrarstöðvun hjá verksmiðjunum. Hráefni þetta hefur aðallega verið keypt frá Noregi og Færeyjum. Aðallega er um að ræða frosin síldarflök til framleiðslu á Kippers og reyktri síld, brisling og kryddsíld til framleiðslu á gaffalbitum.

Þær verksmiðjur, sem hér hafa átt hlut að máli, eru Norðurstjarnan hf., sem er langstærsti kaupandinn, Niðursuðuverksmiðja K. Jónsson & Co. hf., sem m. a. er kaupandi á brislingi, Lagmetisverksmiðjan Siglósíld, sem nú í fyrsta skipti flytur inn kryddsíld, og Niðursuðuverksmiðja Egils Stefánssonar á Siglufirði.

Hráefniskaup þessi hafa algerlega verið í höndum framleiðenda sjálfra hingað til.

Í öðru lagi er spurt, hvað keypt hafi verið mikið hráefni erlendis og hvernig það skiptist á milli ofangreindra verksmiðja.

Innflutningur á hráefni erlendis frá hefur verið sem hér segir: Norðurstjarnan hefur flutt inn 791 tonn af frystum síldarflökum. K. Jónsson hefur flutt inn 600 tonn af frystum síldarflökum, 230 tonn af brislingi og 2500 tunnur af kryddsíld. Sigló hefur flutt inn 985 tunnur af kryddsíld, og Egill Stefánsson hefur flutt inn 100 tonn af frystum síldarflökum.

Í þriðja lagi er spurt, í hvaða gæðaflokki þetta erlenda hráefni hafi verið og hver hafi eftirlit með innflutningi þess, að því er varðar gæði og hollustu.

Þar sem innflutningur á vöru þessari er ekki háður neinu gæðaeftirliti á Íslandi, hafa framleiðendur sjálfir orðið að meta gæði hráefnisins og reynt að fá besta hráefni, sem í boði var hverju sinni. Mér er kunnugt um, að í sambandi við kryddsíldina hefur verið leitað til íslenskra síldarmatsmanna. Hins vegar tel ég vera brýna nauðsyn á því að setja reglur um innflutning á hráefni og að eðlilegast væri, að innflutningurinn yrði í höndum Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins.

Í fjórða lagi er spurt, hvort trygging sé fyrir því, að þetta hráefni gefi okkur samkeppnisaðstöðu á þeim hefðbundnu mörkuðum, þar sem Sölustofnunin er að leita fyrir sér um sölu á íslenzku lagmeti.

Eins og hv. þm, tók fram, er hér um að ræða miklu lakara hráefni en það, sem við höfum áður haft. En það ætti að vera alkunnugt, að að undanförnu hefur verið mjög lítið framboð á síld til niðursuðu, þ. e. a. s. undanfarin 3 ár eða svo, og hvað þetta snertir sitja allar þær þjóðir við Norður-Atlantshaf, sem fullvinna síld, við sama borð. Því hefur samkeppnisaðstaða Íslendinga á hinum hefðbundnu mörkuðum ekki versnað, þar sem keppinautarnir hafa ekki heldur úr betra hráefni að vinna.