30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

8. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af orðum hv. 1. landsk. þm. vil ég segja það, að mér er ekki kunnugt um, að fyrirhugað sé, að Alþ. ljúki störfum fyrr en það hefur fjallað um þau frv., sem nú liggja fyrir og flutt hafa verið af núv. eða fyrrv. ríkisstjórn. Ég átti ekki von á öðru en þetta frv. hlyti eðlilega afgreiðslu í þessari hv. d., færi til n. og yrði þar skoðað af hv. nm., og að sjálfsögðu geta þeir fengið þær upplýsingar þar, sem þeir óska eftir, eða frá fjmrn., og mun ég sjá til þess, að ráðuneytisstjórinn verði til staðar, þegar n. þarf á því að halda.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, það hefur verið á það bent, m.a. af talsmönnum okkar sjálfstæðismanna, að úr framkvæmdum hefði þurft að draga fyrir löngu til þess að forðast það, sem nú er komið. En ég held, að það verði enginn bættari með því að láta ríkissjóð standa uppi fjárvana, þegar ekki hefur til tekist eins og óskað var. Núv. hæstv. ríkisstj. mun að sjálfsögðu við framlagningu fjárlfrv. fyrir árið 1975 gera grein fyrir því, með hvaða hætti hún hugsar sér framkvæmdir á næsta ári, en þessu ári verður að ljúka fyrir ríkissjóð með þeim hætti, að ekki verði þar langur skuldahalinn.