05.09.1974
Efri deild: 20. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og frsm. minni hl. hefur þegar tekið fram, vefengjum við ekki það fjármálalega ástand, sem upplýst er í þessu frv., að ríki hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og þann rekstrarhalla, sem þar er og þyrfti nánari rannsóknar við, af hverju stafar, vefengjum við út af fyrir sig ekki. En mér finnst það kaldhæðni örlaganna, þegar við verðum að liggja undir því, sem vorum í framboði í Reykjavík, og aðrir þeir, sem eru á þéttbýlli stöðunum, að sjaldan heyrist til okkar hér á Alþ. um hag þess fólks, sem við erum umbjóðendur fyrir, að þá skuli menn úr Reykjavíkurkjördæmi endurflytja slíkt frv. sem hér um ræðir. Það er tvímælalaust sá staðurinn, sem mest verður á lagt í þessum efnum og ýmsar byrðar ber í sambandi við endurreisn á fjárhagsafkomu Rafmagnsveitna ríkisins. Ég held, að þm. þéttbýlisstaðanna hefðu átt að fá meira svigrúm til að athuga gang þessa máls, áður en lengra er haldið. En þessi leið hefur verið endurvakin frá tíð fyrrv. ríkisstj., sem hælir sér mjög af því að bera hag dreifbýlisins fyrir brjósti og hafa m.a. unnið það afrek að stöðva flótta fólks úr hinum dreifðu byggðum landsins til suðvesturhornsins. Sjálfsagt er þetta einn liðurinn í því efni, og við ættum á vissan hátt hér á þéttbýlissvæðunum ekki að þurfa að kvarta yfir því, það ætti að draga úr húsnæðisskorti og öðru, sem þjáir okkur hér. En hér er fyrst og fremst um það að ræða að leggja álögur á þéttbýlissvæðin og dreifa þeim yfir til annarra. Við erum fyrst búin að bera kostnaðinn af því, t.d. hér í Reykjavík og annars staðar, þar sem hitaveita er, bera af því þunga skatta, að þessi fyrirtæki hafa verið byggð. Við eigum nú til viðbótar þessum sköttum að gjalda aukagjald fyrir það, að ríkið hefur ekki séð hinum dreifðu byggðum landsins fyrir eðlilegri raforku, eftir að við erum búnir að greiða gjöldin af því að byggja þau fyrirtæki, eins og Hitaveitu Reykjavíkur, og þar sem hitaveita er annars staðar, á þetta að koma til viðbótar.

Ég minni aðeins á þessi atriði hér til þess að hressa upp á huga þeirra, sem umbjóðendur eiga á þéttbýlissvæðum, hvað hér er á leiðinni. Ég hefði talið, að eðlilegra hefði verið, að fé til þeirra hluta, sem hér er um að ræða, endurreisnar á fjárhagsafkomu Rafmagnsveitna ríkisins, hefði verið tekið úr ríkissjóði. Þess vegna styð ég það, að frv. verði vísað til ríkisstj., en að öðrum kosti verði það fellt.