05.09.1974
Neðri deild: 18. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

8. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er undarleg sú hugarfarsbreyting, sem virðist hafa átt sér stað hjá hv. 4. þm. Reykv., að því er varðar skattheimtu og skattamál. Ég man ekki betur en meðan við báðir vorum stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj., hafi hann verið einn af þeim fáu þm. innan þingflokks Framsfl., sem hafði þó einhverjar taugar til að bera til skattgreiðenda í þessu landi. (ÞÞ: Það var í sambandi við tekjuskattinn.) Nú, það er bara tekjuskatturinn, það er allt í lagi með hitt allt. Gott er það. (Gripið fram í.) Ég man það frá þeim tíma, að það tókst oft að hafa þau áhrif á þennan hv. þm., að hann fengist til þess að hafa einhvern hemil á þeim öflum innan Framsfl., sem voru hvað skattglöðust.

Nú virðist þetta allt saman snúið við. Nú er engu líkara en þessi annars ágæti þm. leggi sig í framkróka um það ekki bara að styðja hvers konar skattheimtu, sem núv. hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir, hversu harkalega sem hún er, heldur og að vera málsvari svo að segja í hverju einasta skattamáli, sem hér er rætt og fram borið af hæstv. ríkisstj. Það kórónar svo allt hjá þessum hv. þm., þegar hann verður, eins og hann varð að gera hér áðan, að tala máli tveggja fjmrh., sem hefur hvor um sig sitt hvora meininguna. Ég er satt að segja alveg undrandi á því, að þessi hv. þm. skuli leggja sig í það að þjóna þessum tilgangi. Fyrr má nú vera húsbændahollusta þeirra framsóknarmanna, þó að ekki væri svona langt gengið.

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. byrjaði á því að segja, að það væri enginn vafi á því, hver hefði höfundarréttinn á þessu frv. um hækkun á söluskatti, það væri sko vinstri stjórnin, sem hefði það. Hæstv. núv. fjmrh., ef ég man rétt, greindi frá því í framsöguræðu fyrir þessu máli, að þetta væri hans fyrsta frv. .sem ráðh., og hann mælti fyrir því sem slíku. Enn virðist komið ósamræmi upp milli stjórnarliða, meira að segja um höfundarrétt að þeirra eigin frv. Ég held, að það dyljist engum, að þetta er rangt hjá hv. 4. þm. Reykv. Hér er ekki um að ræða frv. frá fyrrv. ríkisstj. Hér er um að ræða eitt af hinum mörgu skattheimtufrv. núv. ríkisstj.

Frsm. meiri hl. fjh: og viðskn. greindi frá því í einni ræðu, að ekki bæri saman þeim tölum, sem fyrrv. fjmrh. og núv. hæstv. fjmrh. væru með í sínum útreikningum á stöðu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Ég man ekki betur, en ég kannske geymi, þangað til hv. þm. kemur í salinn, að tala um það, þannig að hann heyri það.

En eitt af því, sem hv. 4. þm. Reykv. kom inn á í sinni framsöguræðu fyrir nál. meiri hl. var um niðurgreiðslurnar. Sannleikurinn er sá, eins og bent var á og ítarlega rakið við 1. umr. þessa máls hér í d., að það liggja fyrir óyggjandi tölur og upplýsingar frá fyrrv. fjmrh. um þetta dæmi og þá með niðurgreiðslunum að helmingi inni. (Gripið fram í.) Ég kem að því síðar, ráðh. Hann sagði það sem sína skoðun, að það væri það mesta, að fella mætti niðurgreiðslur niður um helming frá því, sem nú er. Um þetta hefur verið spurt ásamt fjöldamörgu öðru, hvað núv. hæstv. ríkisstj. hyggist gera í þessum efnum. Um þetta var ítarlega spurt á fundi fjh: og viðskn., þegar um mál þetta var fjallað, og engin svör fengust um það, hvað fyrirhugað væri að gera. Það kom einnig fram í máli frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., að hann var kominn með þetta dæmi um stöðu ríkissjóðs í þrengri merkingu, sem nam upphæðum um 530 millj. kr. Hæstv. núv. fjmrh. er með tölu í þessu sambandi um 930 millj. Fyrrv. hæstv. fjmrh. var með tölu í þessum efnum um 400 millj. um miðjan s.l. mánuð, þannig að þarna eru í reynd komnar fram þrjár útkomur úr sama dæminu, en frá sömu aðilunum, þ.e.a.s. stjórnarliðinu hér á hv. Alþingi.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að það ætti ekki að blanda saman varðandi þessi mál annars vegar stöðu ríkissjóðs sem slíkri og hins vegar tekjuöflun í sambandi við slæma fjárhagsafkomu einstakra fyrirtækja á vegum ríkisins, eins og Rafmagnsveitna ríkisins og annarra. Sé þetta réttur skilningur hjá hv. þm., er grg. með þessu frv. gölluð að því leyti til, að ein af aðalröksemdunum fyrir því að hækka söluskatt um 2 stig eru samkv. grg. einmitt fjárhagsvandamál þessara ríkisstofnana. En eins og hér hefur verið bent á og það margoft, þá er búið að samþykkja hér í d. tekjuöflun til Vegasjóðs, og hún er ekkert lítil, og það er sömuleiðis búið að samþykkja hér í d. verðjöfnun á raforkugjaldi, og það verður ekkert lítið, sem það skilar, þegar það kemur til innheimtu. Og nú á eftir þessu líka að leggja á tveggja stiga hækkun á söluskatti til þess að þjóna þessum sama tilgangi. Ég held, að það sé rétt, sem hér hefur komið fram hjá mörgum ræðumanna, að það hljóti að vera takmörk fyrir því, hvað almenningur í landinu lætur bjóða sér í skattheimtu, þó að það sé af hægri ríkisstj., eins og nú situr í landinu.

Hv. 4. þm. Reykv. greindi líka frá því, eins og a.m.k. ég skildi það, að hann væri sammála þeim mönnum, sem hefðu haldið því fram, að hér væri kannske að verulegu leyti um bókhaldsatriði að ræða, vandamálið væri ekki eins stórt og sumir vildu vera láta. Ég veit ekki, hverjir þessir sumir eru, hvort það er samstarfsflokkur Framsfl. í ríkisstj., þessir sumir, sem vilja gera meira úr vandanum en hv. 4. þm. Reykv. telur, að hann sé. En ekki er að sjá, hvorki á málflutningi eða afstöðu þessa hv. þm. né annarra þm. Framsfl., að þeim ofbjóði neitt eða það sé neitt ýkt sú lýsing, sem samstarfsflokkur þeirra í hæstv. ríkisstj. gefur nú daglega á ástandi þjóðarbúsins.

Hann endaði með því að segja, að það væri viða til. að því er mér skildist, nægilegt fjármagn, þetta væri aðeins tilfærsluatriði milli sjóða, í sumum sjóðum væri lítið, en í öðrum nóg af fjármagni, þannig að þennan vanda mætti vissulega leysa með tilfærslu milli þessara sjóða. Ef það er svo að hundruðum millj. skiptir á reikningi í Seðlabankanum fé vegna greiðslu á refsivöxtum, þá held ég, að það væri óhætt að nota eitthvað af þessum millj. eða hundruðum millj. til þess að laga stöðu ríkissjóðs, sem eftir upplýsingum fyrrv. hæstv. fjmrh. er ekki nema upp á 400 millj. miðað við 11. ágúst s.l., þ.e.a.s. hér á að leggja á hækkun á söluskatti upp á 2 stig til þess að leysa 400 millj. kr. vandamál ríkissjóðs fram til áramóta. En þessi 2 stiga hækkun á söluskatti á að gilda áfram. Létu menn nú vera, ef fram kæmi yfirlýsing af hálfu hæstv. ríkisstj. um það, að þessi 2 stiga hækkun á söluskatti mundi falla úr gildi um n.k. áramót, en ekki standa áfram sem eilífðarskattur, eins og enginn vafi er á, að honum er ætlað að gera.

Það er rétt, sem hv. 4. þm. Reykv., frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., sagði hér áðan, að það er óeðlilegt að blanda saman í þessum efnum annars vegar lánsfjárútvegun til ýmissa stofnana eða framkvæmda og hins vegar afmörkuðu dæmi ríkissjóðs. Eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls, liggur þetta dæmi fyrir alveg ótvírætt frá 11. ágúst s.l. úr hendi þáv. hæstv. fjmrh., og þá er búið að taka inn í dæmið, miðað við 16% gengisfellingu, að niðurgreiðslur verði felldar niður um helming, þ.e.a.s. það verði 404 millj. kr. fjárhæð þar í stað 800 millj., að fjölskyldubætur verði auknar um 200 millj. og 5 vísitölustig á lífeyristryggingar og laun, þar verði ætlað 100 millj., og útgjaldahækkun vegna 15% gengisfellingar verði 200 millj. (Gripið fram í: Hvað er niðurgreiðslukerfið samtals?) Er búið að ákvarða eitthvað, hæstv. ráðh., um, hvernig verður farið með niðurgreiðslur? Það er spurning, sem við höfum margoft beint til hæstv. ráðh. og kannske fyrst og fremst hans að svara. Hvaða ákvörðun hefur verið tekin um það, hvernig verður farið með niðurgreiðslur? (Fjmrh.: Það liggur fyrir, að niðurgreiðslur eru óbreyttar í september.) Það þarf ekki 2 stiga hækkun á söluskatti til þess að bjarga fjárhagsdæmi ríkissjóðs miðað við þessar 100 millj., sem kæmu til með að greiðast út í sept. Það þarf ekki. (Fjmrh.: Það breytir þessu dæmi.) Þó að hæstv. fjmrh. sé margt lagið fleira en lagasmið af öðru tagi, þá veit ég, að honum gengur erfiðlega að telja almenning í landinu trú um, að það þurfi að leggja á 2 stiga hækkun á söluskatti til þess að sjá fyrir þessum fjármunum, miðað við það, sem hans samstarfsaðili í ríkisstj., hv. 4. þm. Reykv., var að lýsa hér áðan um nóg fjármagn í hinum ýmsu sjóðum, sem til eru í landinu, sem hægt er að nota í þessu skyni. Þessar upplýsingar voru ekki vefengdar á fundi fjh.- og viðskn., sem haldinn var, þær voru ekki vefengdar af þeim sérfræðingum, sem þar voru mættir, og þær hafa ekki verið vefengdar mér vitanlega enn af hæstv. núv. fjmrh.

Niðurstaða mín er því sú hin sama og hún var við 1. umr., hér er ekki verið að leggja á 2 stiga hækkun á söluskatti til að bjarga fjárhag ríkissjóðs. Það hefur verið bent á það áður, að sú tekjuaukning, sem ríkissjóður mun fá vegna gengisfellingarinnar og reiknuð var 500 millj. miðað við 15% gengisfellingu, er allt of lágt áætluð. Það er enginn vafi á því, að sú tekjuaukning, sem ríkissjóður fær vegna þessarar gengisfellingar, verður a.m.k. 700–750 millj. kr. Með þessari útkomu er því ljóst, að ríkissjóðsdæmið afmarkað stendur á sléttu. Það þarf ekki að leggja á 2 stiga hækkun á söluskatti til að bjarga því dæmi.

Á þskj. 47 er nál. frá minni hl. fjh.- og viðskn. Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega út í það. Það er í meginatriðum í samræmi við það, sem fram hefur komið af okkar hálfu í þessum umr., vitnað til þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja og ekki hafa verið vefengdar. En ég vil aðeins víkja að því, sem stendur í þessu nál. og ég lítillega kom inn á áðan, að þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til þess að fá upplýst, hvað hæstv. ríkisstj. hyggist gera varðandi þau fjölmörgu mál, sem hér að lúta, eins og t.d. í sambandi við láglaunauppbótina, í sambandi við niðurgreiðslur á vöruverði, í sambandi við hækkun fjölskyldubóta, hækkun tryggingabóta og fiskverðsákvörðun, við þessum spurningum margítrekuðum hafa engin svör fengist af hálfu hæstv. ríkisstj. Meðan þingheimur fær engar upplýsingar um, hvernig á að fara með þessi mál, og með tilliti til þess, að varðandi stöðu ríkissjóðs er ekki um neinn vanda að ræða, eins og mál standa nú eða a.m.k. stóðu, þegar þær upplýsingar voru fram lagðar, sem ég hef vitnað til, þá er það óverjandi að okkar álíti að leggja til, að söluskattur verði hækkaður um 2 stig. Samkv. þessu leggjum við í minni hl. fjhn. til að þetta frv. verði fellt.