20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Það er dálítið einkennilegt að taka til máls, eftir að hér hafa verið þuldar bölbænir úr ræðustól og þeim beint bæði fram og aftur. En ég mun láta allt slíkt ógert, vil aðeins vekja athygli hv. 9. þm. Reykv. á því, að ég geri nokkurn greinarmun á því, hvort ég tek afstöðu til mála í ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar, vegna þess að hana skortir þingmeirihluta, eða hvort ég tek afstöðu til mála á Alþingi. Það, sem ég lýsti yfir, var, að ég taldi rétt að láta afgreiðslu þessa máls afskiptalausa í ríkisstjórn sökum þess, að ég skildi það svo og því var ómótmælt, að flokkar, sem hafa tvímælalaust þingmeirihluta, óskuðu þeirrar afgreiðslu, sem þar var uppi tillaga um. Ég taldi rétt, að á það reyndi þá á Alþingi, hversu þar skiptist milli flokka, frekar en að nota aðstöðu mína í ríkisstjórn, sem hefur beðist lausnar og mun að öllum líkindum leyst af hólmi mjög bráðlega, til þess að fresta afgreiðslu þessa máls nokkra daga.