11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

77. mál, fiskræktarmál eldisstöðvarinnar að Laxalóni

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að leggja neinn dóm á þá deilu sem er tilefni þeirrar þáltill. sem til umr. er. Það er mál sérfræðilegs eðlis og treysti ég mér ekki til þess að fella neinn dóm um það, enda því ekki verulega kunnugur. En þetta mál allt minnir mig á annað mál sem ég mælti hér fyrir einum tvisvar, þrisvar sinnum. Það er mál sem var kallað þáltill. um umboðsmann Alþingis. — Mér sýnist að þetta mál sé einmitt alveg dæmigert málefni þar sem slíks manns er þörf. Hér er einstaklingur sem á í útistöðum við embættismenn og það þarf að vera til í landinu aðili sem sker úr um slík mál.

Þegar ég flutti þessa þáltill., var það upphaflega í stað varamanns míns, Kristjáns Thorlacius, en síðan flutti ég málið á eigin vegum. Það náði ekki fram að ganga. En á þinginu 1972 í maí gerðist það að hv. þm. Pétur Sigurðsson tók málið upp að nýju og það var samþykkt og það liggur fyrir ályktun Alþ. um stofnun þessa embættis. Þó að það sitji ekki á mér að reka á eftir ríkisstj. um að hafa frumkvæði að lagasetningu sem henni er falið af Alþ., þá ætla ég samt að leyfa mér að segja að þessu tilefni gefnu að það er full ástæða til þess að dusta rykið af þessari þáltill. og koma frv. um stofnun þessa embættis fyrir Alþ. Mér datt í hug undir þessum umr. að vekja athygli enn á ný á þessu embætti, sem ég tel mjög þarft, sem aðrar þjóðir hafa reynslu af og hana góða. Ég vil þess vegna vona að þessar umr. reki á eftir því að embætti umboðsmanns Alþ. verði stofnað þannig að Alþ. sjálft þurfi ekki að hafa afskipti af deilum embættismanna og einstaklinga, enda sýnist mér að það sé nokkuð vandmeðfarið mál fyrir þn. að ætla sér að gerast úrskurðaraðili í svo sérhæfðu og viðkvæmu máli.